Velta í ferðaþjónustu nam 180 milljörðum króna í maí og júní á þessu ári, samanborið við 140 milljarða árið 2022. Fyrir heimsfaraldur, árið 2019, var velta þessara tveggja mánaða aðeins 116 milljarðar, í samanburði. Vöxturinn í greininni frá árinu 2019 er því 55%, ef tekið er mið af þessum tveimur mánuðum eingöngu. Vöxturinn frá síðasta ári er um 28%.
Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Hér er miðað við hráar tölur yfir virðisaukaskattskylda veltu í einkennandi atvinnugreinum ferðaþjónustu, án aðgreiningar innlendra og erlendra ferðamanna.
Á meðan sóttvarnir stóðu sem hæst vegna Covid-19 heimsfaraldursins dróst velta á sviðinu saman í 37 milljarða á sama tveggja mánaða tímabili árið 2020 og 56 milljarða árið 2021.
Árstekjur af erlendu ferðafólki 544 milljarðar
Hagstofan tekur tölurnar til nánari greiningar í skammtímahagvísum ferðaþjónustu, sem birtir voru í dag, föstudag. Þar kemur fram að tekjur af erlendum ferðamönnum hafi numið ríflega 160 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, það er þriggja mánaða tímabilinu frá apríl til júní, á þessu ári, samanborið við 113 milljarða á sama tímabili 2022. Á 12 mánað tímabilinu frá júlí 2022 til og með júní 2023 „voru tekjur af erlendum ferðamönnum rúmlega 544 milljarðar króna“ samanborið við tæplega 332 milljarða á sama tímabili frá 2021 til 2022. Þann gríðarlega, 64 prósenta vöxt, á milli ára, þyrfti væntanlega að skoða með tilliti til aðstæðna í faraldrinum, en ýmsar sóttvarnir voru enn viðhafðar af hálfu hins opinbera allt árið 2021.
Í fréttatilkynningu Hagstofunnar keemur fram að brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli hafi í síðastliðnum ágúst verið yfir 326 þúsund, en voru í sama mánuði árið 2022 291 þúsund. Er það um 12% fjölgun milli ára. Í sama mánuði árið 2019 komu um 300 þúsund farþegar til landsins, og hefur þeim fjölgað um tæp 9% síðan þá. Aukin velta innan ferðaþjónustunnar virðist því ekki skýrast með fjölda ferðamanna einum sér, heldur aukinni neyslu hvers þeirra.