Fleiri ferðamenn með meiri pening: Velta í ferðaþjónustu 55% meiri nú en fyrir heimsfaraldur

Velta í ferðaþjónustu nam 180 milljörðum króna í maí og júní á þessu ári, samanborið við 140 milljarða árið 2022. Fyrir heimsfaraldur, árið 2019, var velta þessara tveggja mánaða aðeins 116 milljarðar, í samanburði. Vöxturinn í greininni frá árinu 2019 er því 55%, ef tekið er mið af þessum tveimur mánuðum eingöngu. Vöxturinn frá síðasta ári er um 28%.

Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Hér er miðað við hráar tölur yfir virðisaukaskattskylda veltu í einkennandi atvinnugreinum ferðaþjónustu, án aðgreiningar innlendra og erlendra ferðamanna.

Á meðan sóttvarnir stóðu sem hæst vegna Covid-19 heimsfaraldursins dróst velta á sviðinu saman í 37 milljarða á sama tveggja mánaða tímabili árið 2020 og 56 milljarða árið 2021.

Árstekjur af erlendu ferðafólki 544 milljarðar

Hagstofan tekur tölurnar til nánari greiningar í skammtímahagvísum ferðaþjónustu, sem birtir voru í dag, föstudag. Þar kemur fram að tekjur af erlendum ferðamönnum hafi numið ríflega 160 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, það er þriggja mánaða tímabilinu frá apríl til júní, á þessu ári, samanborið við 113 milljarða á sama tímabili 2022. Á 12 mánað tímabilinu frá júlí 2022 til og með júní 2023 „voru tekjur af erlendum ferðamönnum rúmlega 544 milljarðar króna“ samanborið við tæplega 332 milljarða á sama tímabili frá 2021 til 2022. Þann gríðarlega, 64 prósenta vöxt, á milli ára, þyrfti væntanlega að skoða með tilliti til aðstæðna í faraldrinum, en ýmsar sóttvarnir voru enn viðhafðar af hálfu hins opinbera allt árið 2021.

Í fréttatilkynningu Hagstofunnar keemur fram að brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli hafi í síðastliðnum ágúst verið yfir 326 þúsund, en voru í sama mánuði árið 2022 291 þúsund. Er það um 12% fjölgun milli ára. Í sama mánuði árið 2019 komu um 300 þúsund farþegar til landsins, og hefur þeim fjölgað um tæp 9% síðan þá. Aukin velta innan ferðaþjónustunnar virðist því ekki skýrast með fjölda ferðamanna einum sér, heldur aukinni neyslu hvers þeirra.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí