Augljóst er að stjórnendur Isavia hafa varið fjármagni sem þeir eiga ekki sjálfir í rándýra auglýsingu til að bæta eigin ímynd.
Þeir reyna að telja okkur trú um að allt sé í himnalagi á flugvellinum, sem er auðvitað alls ekki staðan og blasir við ferðalöngum ár eftir ár. „Betur færi á því að skipuleggja betur uppbyggingu á flugvellinum og sinna viðeigandi viðhaldi þannig að upplifun þeirra sem um völlinn fara verði betri,“ segir í skoðanapistli Skúla Gunnars Sigfússonar á Vísi í dag.
Skúli er einn fjölmargra sem undrast milljóna- eða tugmilljónakostnað sem Isavia varði í auglýsingu um sjálft sig og Keflavíkurflugvöll og sýndi á dýrasta útsendingatíma ársins á gamlárskvöld á Rúv og nokkrum sinnum síðar.
Í ljósi gríðarlegrar óánægju um þjónustu Isavia á síðasta ári, nefna má bílastæðamál sem eitt dæmi, hefur mörgum landsmanninum þótt auglýsingin skjóta skökku við, enda er það ekki þannig að Íslendingar velji að jafnaði um millilandaflugvelli þegar þeir fljúga utan eða koma aftur heim.
Í ljósi þeirrar staðreyndar er ekki hægt að bera saman áhrif auglýsingar fyrir Keflavíkurflugvöll og t.d. Kringluna, segir Skúli Gunnar og á sér mörg skoðanasystkin.