Ljóst er að fyrirheit ráðherra um sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskóla Akureyrar falla í grýttan jarðveg víða. Mótmæli nemenda við MA eftir að áformin voru kynnt fyrr í vikunni voru kraftmikil, þá fór ekki á milli mála að þeim er mikil alvara. Gagnrýnendur virðast á einu máli um að með þessum áformum stigi stjórnvöld fram af meiri vanvirðingu gagnvart skólum utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess.
Á miðvikudag birti Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður atvinnu- og menningarmála í Akureyrarbæ, grein á Facebook, þar sem hann segist telja að „meintri hagræðingu mætti ná fram á höfuðborgarsvæðinu án þess að fórna því mikilvæga vali milli ólíkra skóla sem óhjákvæmilega mun hverfa hér norðan heiða.“
Þórgnýr gerir að því skóna að fjármagnið sem ráðherra hyggst spara stjórnvöldum með sameiningu skólanna fyrir norðan verði – náist hagræðingin fram – nýtt til annarra verkefna á öðrum stað: „í skólum sem liggja nær miðju og óþægilegra er við að eiga fyrir þá sem með valdið fara“.
Þórgnýr skrifar: „Að mínu viti er glapræði að fórna þessum verðmætum fyrir óraunhæfar hugmyndir um fjárhagslegan ávinning (og óvissu um hvað verður um þann sparnað sem kannski næst fram) og með öllu óstaðfestar hugmyndir um betri, öflugri og „fjölbreyttari“ skóla (fjölbreyttari en hvað – öflugri en hvað?). Ég held alla daga að meintri hagræðingu mætti ná fram á höfuðborgarsvæðinu án þess að fórna því mikilvæga vali milli ólíkra skóla sem óhjákvæmilega mun hverfa hér norðan heiða.“