Ísland er að verða þrotríki: „Gerspilling og vanhæfni á báðum stjórnsýslustigum“

Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, segir að það sé í raun með ólíkindum hvernig Reykjavíkurborg hafi margfaldað tekjur sínar af fasteignagjöldum en haldi áfram að vera rekin með blússandi tapi. Hann segir í pistli sem hann birtir á Facebook að svo virðist sem Ísland sé mjög hratt að breytast í þrotaríki, það sem á ensku er kallað „failed state“. Ástæðan er fyrst og fremst ótrúleg spilling og vanhæfni nánast hvert sem auga er litið.

„Þetta er alveg með ólíkindum. Borgin hefur margfaldað tekjur sínar af fasteignagjöldum á undanförnum árum (eins og önnur sveitarfélög) og samt er þessi hluti II opinbera kerfisins rekinn með tapi um allt land. Hér er augljóslega um vanhæft stjórnsýslustig að ræða og svona smásveitarfélög smákónganna eru bara allt of fámenn og með of lítið af hæfu fólki til að geta rekið sig sómasamlega,“ segir Þór.

Hann segir að ein lausn við þessu væri einfaldlega að sameina sveitarfélög. „Það þurfa að koma til sameiningar í stórum stíl, til jafns við landshlutafélög sveitarfélaganna. Þannig yrðum við með átta sæmilega stór sveitarfélög sem með vel útfærðum lögfestum starfsreglum frá Alþingi, ættu klárlega að geta sinnt hlutverki sínu betur. Með aukinni lýðræðisvæðingu, a. m. k. fjölgun sveitarstjórnarmanna, yrði minna um klíkuskap og hugmyndinni um „starfhæfan meirihluta“ þarf að kasta á haf út,“ segir Þór.

Hann segir að það ætti vonandi að draga úr ævintýramennsku á sveitarstjórnarstigi. „Þetta eru ekki geimvísindi heldur spurning um að sveitarfélögin sinni skyldum sínum og þjónusti borgarana en séu ekki í ævintýramennsku og braski (laxeldi, stóriðjublæti, virkjanablæti og ferðaiðnaði) eins og fjölmargir sveitarstjórar (fyrsti stafurinn í einu nafninu er Elliði),“ segir Þór.

Það má segja að tilkynning um að nú eigi að selja Perluna hafi verið það sem fékk Þór til að stinga niður penna. „Ég var einmitt að koma úr þeim ágæta stað Nauthólsvík og það tók meðal nemenda í Háskólanum í Reykjavík vel á annan klukkutíma að komast frá hringtorginu við skólann og upp á Bústaðaveg,“ segir Þór.

Hann segir að í raun séu öll okkar kerfi komin í þrot. „Reykjavík sem og Ísland allt er komið með fjölmörg einkenni þess sem kallast á ensku „Failed state“ eða „þrotríki“ eins og utanríkisráðuneytið skilgreinir hugtakið, gerspilling og vanhæfni á báðum stjórnsýslustigum, vegakerfið, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, dómskerfið, öll okkar „kerfi“ eru í rauninni í þroti og valda ekki lengur hlutverki sínu,“ segir Þór.

Hann segir að flokkarnir sem nú stýra munu aldrei geta lagað þessi kerfi. „Það þarf róttæka umbreytingu hér og hvorki núverandi ríkisstjórn né núverandi Fjórflokkur munu geta komið á þeim breytingum. Við getum tuðað um Borgarlínu, hvalveiðar og nagladekk þar til við verðum græn í framan, en það eru bara meira áríðandi verkefni sem bíða. Annars sökkvum við bara enn neðar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí