Á dögunum samþykkt borgarstjórn að taka upp nýtt leiguverðslíkan sem hefur þær afleiðingar að leiguverð mun hækka hjá talsverðum meirihluta þeirra sem leigja hjá Félagsbústöðum. Þessar breytingar voru samþykktar af meirihlutanum í Reykjavík en einnig borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Bæði VG og Flokkur fólksins sat hjá. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins voru þeir einu sem lögðust gegn þessu og hafa nú lagt fram nýja tillögu um þessi ákvörðun verði dregin til baka.
„Lagt er til að Félagsbústöðum verði falið að hefja vinnu að nýju leiguverðslíkani sem geri ekki ráð fyrir leiguhækkunum líkt og þeim sem samþykktar voru á borgarstjórnarfundi þann 19. september síðastliðinn. Þá er einnig lagt til að slíkt hafi ekki í för með sér hækkun á þær leiguverðslækkanir sem þegar hafa verið boðaðar og tilkynntar leigjendum,“ segir í þeirri tillögu.
Auk þessa leggja Sósíalistar til að unnið verði að nýjum viðmiðum á leiguverði og áherslan verði að leiguverð fari aldrei yfir 25 prósent af ráðstöfunartekjum leigjenda. „Breytingarnar sem meirihluti borgarstjórnar ásamt Sjálfstæðisflokki samþykkti hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda leigjenda. Af 2.649 leigjendum sem breytingin hefur áhrif á mun leigan hækka hjá 1.538. Hjá 145 manneskjum mun leigan hækka um meira en 12.000 kr. á mánuði. Rétt er að benda á að hjá 1.111 leigjendum munu áhrifin leiða til lækkunar á leigu. Félagsbústaðir hafa kynnt þessar breytingar sem jöfnunaraðgerð til að jafna leigu á milli eigna óháð staðsetningu og fleiri þáttum. Ekki er hægt að jafna leigu á milli ólíkra eigna með því að hækka leigu hjá sumum,“ segir í greinargerð tillögunnar.