Loftárásin á markaðinn í Kostiantynivka var líklega slysaskot frá Úkraínu, segir ítarleg rannsókn NYT

New York Times (NYT) birti í gær, mánudag, ítarlega rannsókn sex manna teymis: þriggja bandarískra blaðamanna, tveggja úkraínskra blaðamanna, og sprengjusérfræðings, um loftárásina á borgina Kostiantynivka í Austur-Úkraínu fyrir tæpum tveimur vikum, þann 6. september síðastliðinn. Árásin var á meðal þeirra banvænustu í landinu undanliðna mánuði og er mörgum lesenda áreiðanlega í fersku minni: sprengjan féll á markað, þar sem að minnsta kosti 15 óbreyttir borgarar létu lífið í árásinni og yfir 30 særðust.

Innan við tveimur klukkustundum eftir árásina hafði Volodymyr Zelensky sakað Rússa um árásina, segir í frétt NYT, og fjöldi fjölmiðla umsvifalaust fallist á þá niðurstöðu, enda hefur Rússland „endurtekið og kerfisbundið ráðist á vettvant óbreyttra borgara, skóla, markaði og íbúðarhverfi gagngert til að vekja ótta meðal almennings.“ Í þessari sömu borg, Kostiantynivka, vörpuðu þeir sprengjum í apríl, á heimili og leikskóla, í árás sem varð sex manns að bana.

Eftir sem áður var sú ályktun að Rússar stæðu að baki þessari tilteknu árás, þann 6. september, að líkindum röng, samkvæmt rannsókn NYT. Athugun á sprengjubrotum, gögnum í gervihnöttum, vitnisburði og færslum á samfélagsmiðlum leiddi að sögn blaðsins í ljós að árásin hafi verið afleiðing af villu í loftvarnarkerfi Úkraínu, sem hafi varpað flugskeytinu sem féll á markaðinn í Kostiantynivka.

Að sögn blaðsins geta flugskeyti á við það sem féll á markaðinn farið á loft af fjölda ástæðna, þar á meðal vegna bilunar í rafbúnaði eða galla á stýriugga skeytisins.

Sönnunargögn og vegsummerki

Kristinn Hrafnsson, blaðamaður og ritstjóri Wikileaks, vakti máls á þessari rannsókn fjölmiðilsins í Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar. „Sannleikurinn og stríðið,“ skrifaði hann, „er erfiður leikur fyrir blaðamenn ekki síður en almenning. Í færslunni rifjar hann upp árásina sem hann segir skiljanlega hafa vakið mikla fordæmingu almennings, „eins og sást nokkuð víða á samfélagsmiðlum þar sem stóru orðin voru ekki spöruð.“

Kristinn segir að margir hafi náðst yfir myndefnið af sprengingunni, sem náðist á öryggismyndavél og rússneskur vídeóbloggari fljótt bent á „að sagan um að Rússar bæru ábyrgð gengi ekki upp því flaugin hefði komið úr gagnstæðri átt, þ.e. frá yfirráðasvæði Úkraínu.“ Um það sama hafi vitnað „viðbrögð fólks sem leit upp í þá átt, rétt áður en flugskeytið sprakk, sem og spegilmynd af flauginni sem sést á bílþökum nokkrum römmum áður en sprengjan springur.“ Þessu hafi hins vegar verið svarað, af „vídeóbloggurum úr hinni áttinni“ með því að allt væri það „lymskulegur Rússaáróður og afvegaleiðing.“

Á mánudag hafi loks birst „ítarleg greining blaðamanna New York Times sem komast að þeirri niðurstöðu að allt bendi til þess að flugskeytið hafi sannarlega komið frá Úkraínumönnum og taka undir þau rök að viðbrögð fólks á upptökunni sem og speglun flugskeytisins renni stoðum undir það.“ Fleira komi þó til, því „blaðamennirnir mættu á staðinn og fengu aðgang að vettvangi (þrátt fyrir viðspyrnu yfirvalda) og gátu tekið myndir af ummerkum, gígnum sem myndaðist og lögun gata eftir sprengjubrot. Þessi gögn voru síðan borin undir sérfræðinga sem ályktuðu að sprengjubrotin og förin eftir þau, pössuðu ekki við flugskeyti Rússa en kæmu heim og saman við flaugar sem Úkraínumenn ráða yfir.“

Brýning til blaðamanna að standa í lappirnar

Til viðbótar kom fleira til, skrifar Kristinn, „en í heild fékk þetta blaðamenn NYT til að álykta að allt benti til þess að þarna hefði flugskeyti Úkraínu sprungið af einhverjum orsökum, ef til vill vegna bilunar eða mistaka.“

„Greining blaðsins,“ skrifar hann loks, „ber með sér að vera býsna vönduð og til eftirbreytni. Það virðist a.m.k. þurfa talsvert til að hrekja niðurstöðuna.“

Kristinn segir fréttina fela í sér áminningu um að taka öllu með fyrirvara og engu sem gefnu í „umfjöllun um þetta ógeðslega stríð“. Því miður séu „alltof mörg dæmi eins og þetta um fréttir sem eru annað hvort afvegaleiðandi eða hreinlega rangar.“ Sú áminning sé ekki „til að draga taum einhvers aðila í þessum átökum og síst til að fegra á einhvern hátt hlut Rússa“ heldur „sem brýning til blaðamanna að þeir vinni út frá staðreyndum og standi í lappirnar gegn þrýstingi og áróðri. Annað er svik við almenning sem þeir eiga að þjóna, með sönnum og réttum upplýsingum.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí