Mannúðarkrísa ríkisstjórnar Katrínar komin í heimspressuna

Breyting á lögum skilur hundruð innflytjenda á Íslandi eftir í limbói: „Ég hélt ég hefði sloppið úr helvíti, en nei“

Litla landið í Norður-Evrópu herðir reglur sínar eftir verulega fjölgun hælisbeiðna á undanförnum árum. Ýmis frjáls félagasamtök fordæma ómannúðlega og „ranga“ stefnubreytingu í flóttamannamálum.

Svona má þýða fyrirsögn á frétt spænska stórblaðsins El País þar sem fjallað er um mannúðarkrísuna á Íslandi, eftir stefnubreytingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Tilvitnunin í fyrirsögninni kemur frá Esther Monday, 24 ára gamalli konu frá Nígeríu, sem nú býr á götunni í Reykjavík, samkvæmt El País. Í greininni er sagt frá lagabreytingunni frá síðasta vetri sem leiddi til þess að flóttafólk missir alla aðstoð, húsnæði, læknisþjónustu og hvað eina.

Esther lýsir flótta sínum frá Nígeríu í greininni. Hún fór í gegnum Tsjad og Líbíu áður en komst til Ítalíu „Ég hélt að það yrði auðvelt að finna vinnu og gistingu, en svo var ekki,“ segir hún. „Þeir seldu mig eins og dýr. Þeir sögðu mér að ég ætti að vinna sem barnapía en í staðinn var ég lokuð inn í skúr í útjaðri Mílanó, með tugum annarra stúlkna.“ Þar var Esther í tvö ár og þurfti að afgreiða allt að fimmtán menn hvern dag. Mennirnir sem höfðu rænt henni tóku alla peningana, hún lifði sem kynlífsþræll. En henni tókst að flýja og komst til Íslands þar sem hún óskaði eftir vernd.

„En nú á að senda mig aftur til Ítalíu,“ segir Esther. „Það á senda mig aftur til fólksins sem rændi mig og nauðgaði. Ég er mjög þreytt, ég vil hvergi fara. Ég er 24 ára, en líf mitt er búið.“

Í fréttinni er haft eftir íslenskum mannúðarsamtökum og fjölmiðlum að 53 manns hafi verið vísað út a götu. „Þetta fólk nýtur ekki stöðu flóttafólks, það getur ekki unnið löglega og því er ekki vísað úr landi. Það reynir að lifa af, án nokkurra réttinda,“ er haft eftir Magnúsi Norðdahl lögfræðingi. Magnús segir að um 80% þeirra sem missa öll réttindi 30 dögum eftir höfnun umsókna séu enn í landinu, komist ekkert.

Sérstaklega er fjallað um flóttafólk frá Venesúela, en aðeins á Spáni sækja fleiri þaðan um hæli en á Íslandi. Talið er að nú bíði um 500 manns frá Venesúela eftir úrskurði kærunefndar útlendingamála eftir höfnun Útlendingastofnunar. Fram kemur að stofnunin hafi í apríl breytt skilgreiningu á Venesúela, flokkað landið sem öruggt land. Einnig er sagt frá tilraunum íslenskra stjórnvalda til að fá stjórnvöld í Venesúela til að stöðva auglýsingar þar sem fullyrt er að flóttafólki þaðan fái vernd á Íslandi, að þar sé næg vinna og öruggt húsnæði.

Rætt er við ungan mann frá Venesúela undir nafnleynd sem býr ásamt foreldrum sínum á Ásbrú. „Við seldum húsið og bílinn og keyptum flugmiða. Það kostaði okkur tæpa 10.000 dollara (um 1,3 m.kr.) að fljúga frá Caracas til Reykjavíkur, í gegnum Madrid og Amsterdam. Vinur föður míns sannfærði okkur um að prófa, en við höfðum líka séð nokkrar auglýsingar á Instagram þar sem sagt var að Ísland bjóði upp á vernd, há laun og góð lífskjör,“ rifjar maðurinn upp. Við komuna til landsins um síðustu áramót var fjölskyldan hins vegar flutt á Ásbrú, þar sem fólkið bíður enn eftir niðurstöðu um hvort það megi lifa og starfa á Íslandi.

„Innflytjendamál eru brýnasti vandinn á Íslandi um þessar mundir,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra við El País. Blaðið segir að ráðuneyti hennar bjóði allt að 3.000 evrur (um 430 þús. kr.) framlag á mann, auk greiðslu flugmiða, til flóttafólks sem vill fara sjálfviljugt af landi brott. Fram kemur að Guðrún hyggist setja fram frumvarp í haust um lokaðar flóttamannabúðir.

Haft er eftir Fjalari Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa dómsmálaráðuneytisins, að mikill fjöldi flóttafólks frá Venesúela valdi því að erfitt sé að koma til móts við flóttafólk í félags-, húsnæðis-, heilbrigðis- og menntakerfinu.

Í El País hafnar Nína Helgadóttir, starfsmaður Rauða krossins, því að fjögur þúsund flóttamenn séu orsök allra vandamála á Íslandi. Á sama tíma segi Samtök atvinnulífsins að íslenskum fyrirtækjum vanti um 12 þúsund starfsmenn. „Af hverju gefum við hælisleitendum ekki atvinnuleyfið sem þeir biðja um? Af hverju leyfum við þeim ekki að lifa með reisn í stað þess að vísa þeim úr landi og setja lög sem svipta þá grundvallarréttindum sínum?“ spyr Nína.

Hún bendir á ofþenslu í ferðaþjónustu sem valdi miklu álagi á innviði og grunnkerfi, ekki síst á húsnæðiskerfið. „Að kenna hælisleitendum um þennan vítahring er hræðilega ósanngjarnt. Þetta er bara áróður,“ segir Nína.

El País ræðir við einstæða móður með tvö börn sem kom til Íslands frá Írak eftir hvatningu fjarskylds ættingja. Konunni var neitað um vernd og hefur ákveðið að yfirgefa landið. „Núna vil ég snúa aftur til lands míns í stað þess að biðja um alþjóðlega vernd sem þeir vilja augljóslega ekki veita okkur,“ segir hún við El País. „Ég kýs að fara heim, því þar get ég í það minnsta haldið í vonina.“

Hér má lesa frétt El País: Un cambio de ley deja en el limbo a cientos de migrantes en Islandia: “Pensé que mi infierno había terminado, pero no”

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí