Í síðustu viku fór fram fjármálaráðstefna sveitafélagana á Hilton hótelinu í Reykjavík. Fyrir utan fundarsalinn höfðu ýmis fyrirtæki komið sér fyrir básum, líkt og hálfgerðir hrægammar, í von um að geta selt sveitarfélögum eitthvað. Þar á meðal var innheimtufélagið alræmda Mótus, fyrirtæki sem gengur beinlínis út á að gera fátæku fólki lífið leitt. Fyrirtæki sem blæs upp skuldir fólks og veldur því jafnvel að lítil skuld getur orðið til þess að fólk missir húsnæði sitt. Þau reyndu að múta borgarfulltrúum með vægast sagt ósmekklegum bjór.
Sanna Margrét Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, greinir frá þessu á Facebook. „Ég fór á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var í síðustu viku á Hilton Reykjavík Nordica. Um 500 manns úr öllum áttum koma saman og hlýða á ýmis erindi sem tengjast fjármálum og rekstri sveitarfélaga. Fyrir utan ráðstefnusalinn voru ýmis félög og fyrirtæki með litla bása þar sem við gátum kynnt okkur starfsemi þeirra. Einn slíkur bás var mjög áhugaverður þar sem umhverfissálfræðingur var að kynna búnað þar sem hægt var að sjá hverfi í þrívídd og bæta byggingum inn í og sjá þannig með skýrum hætti, hvaða áhrif það hefði á byggðina,“ segir Sanna og heldur áfram:
„En svo voru fleiri fyrirtæki þarna, m.a. Motus. Átta mig ekki á því af hverju í ósköpunum þau ættu að fá pláss þarna, mögulega til að fá að boða út rugl boðskapinn um að það sé „hagkvæmt“ fyrir sveitarfélögin að fela innheimtufyrirtækjum að rukka fátækt fólk sem er í vanskilum.“
Hún segir að það væri í raun hagkvæmast af öllu að þjóðin myndi losna endanlega við þessi fyrirtæki. „Ef eitthvað er þá þurfum við frelsi frá innheimtufyrirtækjum. Þau eiga ekki að fá að hagnast á fátækum manneskjum sem eru í engri stöðu til þess að greiða reikninga sem verða hærri í meðferð innheimtufyrirtækja. Reikninga sem eru oft vegna mikilvægra þátta í lífi barna, svona eins og grunnskólamáltíðir,“ segir Sanna.
Hún segir svo að Motus hafi boðið upp á sérmerktan bjór, en mynd af honum má sjá hér fyrir ofan. „Motus var með bjór á sýningarborðinu sínu (í klakabaði) og áföst voru þessi ósmekklegu skilaboð sem auglýstu að Motus kæmi fjármagni á hreyfingu. Ætli það sé þarna verið að tala um að hreyfa við fjármagni fátækra sem færist frá yfirdráttarheimildinni með háu vöxtunum, inn á skuldina og síðan út í formi aukinna vaxtatekna til bankanna?,“ spyr Sanna.
Að lokum veltir hún því fyrir sér hvort áfengi eigi að teljast eðlilegt á svona ráðstefnum. „Þegar ráðstefnan var búin þá voru fljótandi veigar sem biðu eftir ráðstefnugestum og ég skil ekki þessa áfengismenningu. Finnst svo oft vera áfengi á svona viðburðum og ég skil ekki tilganginn með því og finnst það mjög skrýtið. Ákvað síðan að tjá mig um þetta í spurningakönnun um framkvæmd ráðstefnunnar.“