Nýr þáttur hefur göngu sína á Samstöðinni á morgun, sunnudag. Það eru Synir Egils, umræðuþáttur um fréttir og pólitík í umsjón bræðranna Sigurjóns Magnúsar og Gunnars Smára Egilssonar. Þeir hafa samanlagt yfir sjötíu ára reynslu af blaðamennsku, hafa ritstýrt blöð og stýrt annars konar fjölmiðlum, skrifað og haldið úti margskyns umræðu. Sigurjón byrjaði t.d. með Sprengisand á Bylgjunni og hélt þættinum úti árum saman.
Synir Egils byrjar á umræðum um stöðuna í pólitíkinni og samfélaginu. Á morgun mæta til leiks Helgi Seljan rannsóknarritstjóri Heimildarinnar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir samskiptastjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Dagbjört Háskonardóttir, ný þingkona Samfylkingarinnar. Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, flytur eldmessu og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, kemur í sunnudagsviðtal og ræðir árangur af samkeppniseftirliti, tækin sem eftirlitið mætti hafa og veikan stuðning stjórnvalda.
Þátturinn verður sendur út á Facebook og youtube-síðum Samstöðvarinnar og á útvarpsrás Samstöðvarinnar á fm 89,1 og í Spilaranum. Þátturinn verður einnig aðgengilegur á hlaðvarpsveitum. Synir Egils eru í opinni dagskrá en þau sem vilja aðstoða við uppbyggingu Samstöðvarinnar geta gerst áskrifendur hér: Áskrift. Þau sem greiða áskrift geta líka orðið félagar í Alþýðufélaginu, félagsskapur áskrifenda sem á Samstöðina.
Hér er upptaka af fyrsta þættinum: