Íslenska krónan er brennuvargur, mátti skilja á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmanni Viðreisnar, í þingumræðum á þriðjudag. Í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra bar hún fram spurningu í tilefni af nýlegum ummælum Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins, Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og fleiri, um gjaldmiðlamál landsins, en Vilhjálmur sagðist í liðinni viku „kominn á endastöð með að verja krónuna enda er margt sem bendir til þess að þessi örmynt okkar eigi stóran þátt í þessum miklu efnahagslegu sveiflum.“
Skilaboð verkalýðshreyfingarinnar eru sterk
Þorgerður Katrín beindi máli sínu til Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Hún sagði forkólfa innan verkalýðshreyfingarinnar hafa sett málefni krónunnar á dagskrá. „Þetta eru auðvitað ákveðin tíðindi og skilaboð verkalýðshreyfingarinnar eru sterk,“ sagði Þorgerður „enda eru hagsmunir launþega og hagsmunir heimilanna undir, sem verkalýðshreyfingin er náttúrlega í beinu og góðu og sterku sambandi við, enda vitum við að heimilin róa núna mjög þungan róður í ölduróti vaxta og verðbólgu. Það má segja að til að mynda Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, hafi stungið á ákveðnu kýli óréttlætis og ójafnréttis í íslensku samfélagi.“
Hún sagðist vita að ráðherrann hefði mikinn áhuga á að koma böndum á verðbólguna og ná niður vaxtastigi. „Ef við skoðum íslenska hagsögu,“ útskýrði hún fyrir ráðherranum „þá er nokkuð víst að við getum stundum náð tökum á stöðunni, það geta komið nokkur góð ár en síðan kemur höggið, aftur og aftur. Þessi staða birtist okkur ekki bara aftur og aftur heldur hjá kynslóð eftir kynslóð. Á endanum eru það alltaf heimilin í landinu og litlu og meðalstóru fyrirtækin sem þurfa að borga brúsann af þeim herkostnaði sem fylgir íslensku krónunni.“
Grípa boltann frá Vilhjálmi
Þorgerður sagðist nýverið hafa verið í Skagafirði og þar fyrir norðan væru bændur „að fara úr því að borga 4% vexti í 12%. Þetta er nákvæmlega sama staðan og heimilin í landinu eru í þar sem afborganir hafa farið úr 150.000 kr. í tæplega 400.000 kr. Það er verið að leggja miklar byrðar og mikla bagga á herðar fólks, á heimilin í landinu.“ Hún spurði ráðherrann hvort hún væri „tilbúin að grípa þennan bolta sem Vilhjálmur Birgisson kastaði á loft og til í þetta samtal, til í það að meta stöðuna, fyrir heimilin í landinu, fyrir okkar samfélag, hvaða valkostir eru í boði, aðrir en íslenska krónan.
Lilja tók dræmt í spurninguna. Hún sagði Seðlabankann hafa gert „mjög góða úttekt á því hvað myndi henta Íslendingum best í gjaldmiðlamálum“ og verið „mjög afgerandi í þeirri niðurstöðu sinni að eins og staðan væri í dag hentaði sjálfstæð peningastefna okkur og hún hefði skilað okkur umfangsmiklum ávinningi.“ Ef skoða skal hvernig framtíðarskipulag peningastefnu á Íslandi eigi að vera, sagði ráðherra, „þá tel ég að við verðum alltaf að skoða hagsveiflur viðkomandi ríkis og gjaldmiðilinn út frá þeim, vegna þess að það sem hefur gerst á Íslandi er að hagvöxtur hefur til að mynda verið mun meiri en í löndum Evrópusambandsins og þá hentar sá gjaldmiðill að mínu mati alls ekki íslensku hagkerfi.“
Tala um brunavarnir þegar eldurinn er kviknaður
Þorgerður bað aftur um orðið og spurði á móti: „Af hverju getum við ekki reynt að fara að tala um kjarna málsins? Af hverju erum við alltaf að tala um brunavarnir þegar eldurinn er fyrir löngu kviknaður? Af hverju getum við ekki byrjað á grunninum og eflt okkar brunavarnir, ekki bara til skemmri tíma heldur til lengri tíma? Um þetta snýst málið. Þetta er það sem m.a. forystufólk innan verkalýðshreyfingarinnar — af því að það er að tala við fólkið á gólfinu, fólkið sem er að greiða þessi lán sem hafa farið úr 200.000 í 400.000, úr 300.000 í 500.000, fólkið sem getur ekki lengur borið þessar krónubyrðar sem eru alltaf settar reglulega á þeirra herðar.“ Það var þá sem hún kallaði krónuna brennuvarg: hún sagði að Viðreisn væri „alveg til í skammtímaaðgerðir“ en svo þurfi að „horfast í augu við framtíðina og raunverulega takast á við brennuvarginn.“
Lilja steig aftur upp og játaðist því, sem enginn neitar um þessar mundir, að vaxtabyrði heimila og fyrirtæka væri of mikil og þyrfti að lækka. – „En þetta er ekki herkostnaður vegna krónunnar,“ bætti hún við. „Ástæðan fyrir því að vextir eru hærri á Íslandi er m.a. vegna þess að hagvöxtur er meiri á Íslandi. Það er of mikil spenna á vinnumarkaðnum.“ Atvinnustig á Íslandi sagði hún að væri „með því allra besta sem gerist í Evrópu“ og hagvöxtur „mjög mikill“.