Bæði örorku- og ellilífeyrir dregst aftur úr launum, samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarp. Þetta skrifar Marinó G. Njálsson og rekur forsendurnar fyrir því mati í grein sem hann birti á Facebook í dag, miðvikudag.
„Nánast á hverju einasta ári eykst bilið milli þess sem lög segja að lífeyrisþegar eigi að fá og þess sem fjárlagafrumvarpið ákveður að skammta þeim,“ skrifar Marinó.
Fjárlagafrumvarpið segir hann að geri ráð fyrir að verðbólga verði 4,9% á næsta ári, og þar sé byggt á þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem sé „neikvæðari en flestar aðrar, svo sem frá Seðlabankanum og greiningardeildum bankanna.“ Kosturinn við viðmið Hagstofunnar sé að miðað er við að bætur almannatrygginga hækki um þá upphæð.
Þrátt fyrir það eigi lífeyrir enn einu sinni að dragast aftur úr launum.
Miðað við verðbólguspá Hagstofunnar
Marinó vitnar í greinargerð með frumvarpinu, þar sem segir um hækkanir lífeyris:
„Í 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, er kveðið á um að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“
Marinó áréttar að þetta þýðir að lífeyrir eigi að fylgja þeirri breytingu sem er hærri af þessum tveimur. Á hverju ári er ný afsökun, segir hann, en sú sem er gefin nú sé með þeim aumari – og vitnar aftur í greingargerðina með frumvarpinu, þar sem segir:
„Við mat á launaþróun hefur venjan verið að miða við meðalhækkanir í kjarasamningsbundnum hækkunum á almennum vinnumarkaði að teknu tilliti til þess hvenær þær taka gildi á árinu. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir spá um meðalprósentuhækkanir í kjarasamningum á vinnumarkaði á næsta ári þá er í forsendum frumvarpsins miðað við að bætur almannatrygginga hækki um 4,9% frá og með 1. janúar sem er í samræmi við verðbólguspá Hagstofunnar frá því í júní sl.“
Svo aum afsökun að hún er skelfileg
„Þessi afsökun er svo aum, að hún er skelfileg,“ skrifar Marinó. „Vissulega gerðu einhver launþegasamtök kjarasamninga í lok síðasta árs, en önnur, m.a. Efling, gerðu sína samninga á þessu ári. Því hefði verið hægðarleikur fyrir fjármálaráðuneytið að nota þá samninga sem viðmið. Ég man heldur ekki til þess að lífeyrir hafi á þessu ári hækkað í samræmi við kjarasamninga á síðasta ári.“
Samkvæmt vef Hagstofu hafi launavísitala hækkað um 12,7 prósent á síðasta ári og árshækkun grunnlauna numið 11,7 prósenntum, frá desember til desember. Í kynningu fjármálaráðherra megi aftur á móti sjá að hækkun lífeyris hafi verið 10,1 prósent. „Þetta munar annars vegar 15,8% og hins vegar 25,7% og lífeyrisþegar drógust því aftur úr fólki á vinnumarkaði sem nam 1,4% sé miðað við vísitölu grunnlauna og 2,4% sé miðað við launavísitöluna. Þegar síðan haft er í huga, að hækkunin til lífeyrisþega kemur yfirleitt mörgum mánuðum eftir að hækkunin varð á vinnumarkaði, þá sitja þeir uppi með lífeyri mánuðum saman sem dregist hefur aftur úr tekjum viðmiðunarstétta.“
Þann 1. janúar á næsta ári segir Marinó að lífeyrir eigi, samkvæmt frumvarpinu, að hækka um 4,9 prósent. „Samkvæmt vef Hagstofu, þá hækkaði launavísitalan um 4,6% frá ársbyrjun þar til í júlí. Það er um 94% af þeirri hækkun sem fjármálaráðherra ætlar að veita lífeyrisþegum og enn eru breytingar 5 mánaða eftir að koma fram. Það sem verra er, að vísitala grunnlauna hækkaði á þessu tímabili um 5,2%, sem er 6,1% meiri hækkun en lífeyrisþegar eiga að fá vegna breytinga allt árið!“ Marinó segir ómögulegt að segja til um hverjar þær breytingar verða, en hann voni að þessi hækkun verði leiðrétt áður en þingið samþykkir fjárlagafrumvarpið eftir 3. umræðu í desember. „Ekki að ég eigi von á slíkri mannúð,“ bætir hann við, „frá núverandi stjórnarflokkum.“
Hvenær taka stjórnvöld á fátækragildru örorkulífeyrisþega?
Marinó lýkur greininni á stuttri útlistun á stöðu örorkulífeyrisþega og þeirri fátæktargildru sem núverandi kerfi skapar þeim:
„Þeir sem fá örorkulífeyrir í gegn um almannatryggingar eru oft með þeim verst settu í samfélaginu. Samkvæmt nýjum upplýsingum, eru örorkulífeyrisþegar 33,7% þeirra sem sækja til Hjálparstofnunar kirkjunnar og voru lang fjölmennasti hópurinn á starfsárinu 2022-2023. Margir þessara öryrkja hafa verið það stóran hluta ævi sinnar, ef ekki allt sitt líf. Hafa ekki haft tækifæri til að safna í lífeyrissjóð nægum fjárhæðum til að bæta efnahag sinn, enda allt slíkt notað til að skerða greiðslur almannatrygginga til þeirra.
Um leið og fullorðinn einstaklingur er úrskurðaður öryrki og fær rétt til örorkulífeyris, þá er hann kominn á lægsta tekjutaxta þjóðfélagsins. Taxta sem er ekki með aldursflokkahækkun eða gefur kost á frama í „starfi“. Hvort sem árin eru 10 eða 49 (frá 18 ára aldri til 67), þá er viðkomandi í sínu tekjuþrepi, meðan fólk á vinnumarkaði er í 6 mánuði í neðsta þrepi og færist upp tekjustigann eftir það.
Hvenær ætla stjórnvöld að taka á fátækragildru örorkulífeyrisþega? Það er ekki gert í þessum fjárlögum frekar en nokkrum þeim sem ég hef skoðað í gegn um árin. Ég biðla til þingheims, hvar sem fólk er í flokki, að vakna til skilnings á þessum vanda.“