„Katrín Jakobsdóttir, leiðtogi ríkisstjórnarinnar, sagði okkur rétt í þessu að hún væri ekki aðdáandi þeirra stjórnmálamanna sem telja deilur sér til tekna fremur en sátt og samvinnu. Hún tengir þá stjórnmálamenn við skautun og popúlisma en segist sjálf vilja leita sátta og byggja brýr á milli ólíkra póla í samfélaginu. Skautun er hins vegar ekki bara vandamál stjórnmálanna, heldur eitt alvarlegasta vandamálið sem samfélag okkar hér á Íslandi stendur frammi fyrir og víðar og þar er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stór gerandi. Hvað er það annað en skautun samfélagsins þegar ráðherrar nota hvert tækifæri til að stilla flóttafólki upp sem ógn við velferðarríkið? Hvað er það annað en skautun samfélagsins að henda varnarlausu fólki á götuna? Og sjáið enda afleiðingarnar af því. Réttlætiskennd annars pólsins er svo gróflega misboðið, en það hlakkar í hinum sem fær byr undir báða vængi fordóma sinna og haturs.“
Svo mælti Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær, miðvikudag.
Frelsi fyrir alla – ef þeir eru ríkir og fæddir á Íslandi
Arndís lagði áherslu á stöðu réttindasviptra eftir gildistöku þeirra breytinga á Útlendingalögum sem ríkisstjórnin knúði gegnum þingið síðastliðið vor. Hún sagði að breytingar á lögum um útlendinga verði fyrsta mál Pírata á þessum þingvetri, „þar sem við viljum afnema þá þjónustusviptingu sem nú hefur raungerst. Ríkisstjórnin setur í staðinn frelsissviptingu á sína þingmálaskrá. Þessi ríkisstjórn boðar frelsi fyrir alla, en bara ef þeir eru ríkir og fæddir á Íslandi. Flóttafólk er hvorugt og þess vegna ætlar þessi ríkisstjórn að ræna það frelsinu og í staðinn að bjóða falskt öryggi með nýju fangelsi.“
Þá vék þingmaðurinn að fordómafullu tali sem hefur verið fyrirferðarmikið á ýmsum vettvangi undanliðnar vikur: „Helsta ógnin við öryggi okkar og frelsi hér á Íslandi er ekki útlendingar. Það eru ekki vímuefnaneytendur eða fólk sem glímir við hvers konar veikindi. Ekki hinsegin fólk. Og ekki er það fagfólk á vegum sveitarfélaganna sem kennir börnum að þekkja og vernda það sem stendur okkur næst; líkamann okkar.“
Frelsi fyrir alla – ef þeir eru ríkir og fæddir á Íslandi
Ræðunni lauk Arndís með því að hvetja þingið til að setja aftur á dagskrá aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu, sem forsætisráðherra átti frumkvæði að á síðasta þingi:
„Það eru þeir aðilar sem hatast út í þessa hópa sem okkur stafar raunveruleg ógn af. Þessa þróun þarf ekki bara að stöðva. Henni þarf að snúa við. Og það gerum við ekki með vopnaburði. Það gerum við með opnu samtali og fræðslu og með samfélagssáttmála þar sem enginn þarf að óttast um afkomu sína. Það gerum við með því að setja aftur á dagskrá aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu, sem er því miður ekki lengur á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þess í stað fá fordómar gegn hinsegin fólki og útlendingum að grassera með alvarlegum afleiðingum fyrir öryggi og frelsi í þessu samfélagi.
Forseti. Það væri þinginu til sóma að sameinast um að tryggja mannréttindi og frelsi, raunverulegt frelsi fólks, alls fólks. Þá fyrst búum við í öruggu samfélagi.“