Palestínski drengurinn Yazan, sem þjáist af vöðvahrörnunarsjúkdóminum Duchenne og bíður í senn brottvísunar sinnar og fjölskyldu sinnar frá Íslandi, hitti Guðna Th. Jóhannesson, fráfarandi forseta, í Smáralindinni í gær.
Myndin var birt á Instagram síðu Yazans, Dagbók_Yazans, og segir Guðna hafa gefið sig á tal við Yazan að fyrra bragði, sem hafi glatt drenginn mjög og hann sé fullur þakklætis í garð forsetans fyrir það.
Guðni lét af embætti forseta í gær og segja má að þessi vinalegheit hafi verið eitt af síðustu hlutunum sem Guðni gerði í embættistíð sinni sem forseti Íslands. Mikla athygli vakti uppátæki hans þegar hann og kona hans Eliza Reid gerðu sér far um að fara á samstöðutónleika fyrir Gaza og Palestínu sama kvöld og undankeppni Eurovision var haldin.
Þessi fundur hans með Yazan var þó öllu handahófskenndari, en sannarlega við hæfi embættistíð hans Guðna sem einkennst hefur af mannúð, umhyggju og nánu sambandi Guðna við alþýðu landsins. Guðni hefur einnig alla tíð talað mikið um hagsmuni barna og lýðheilsu, sem og að tala gegn þjóðrembu og útlendingaandúð og lagt áherslu á að ást á landi og þjóð eigi ekkert skylt með slíkum hugmyndum.
Yazan er sem áður sagði enn að bíða eftir að vera vísað úr landi en kærunefnd útlendingamála hefur staðfest að honum og fjölskyldu hans mun verða vísað til Spánar eftir Verslunarmannahelgina. Máli hans hafði áður verið frestað og áfrýjað til nefndarinnar vegna misferla í meðferð Útlendingastofnunar á máli hans.
Mikil alda mótmæla og samstöðu með Yazan hefur gengið á undanfarna mánuði en yfirvöld virðast ætla að virða það að vettugi, það þrátt fyrir að mikill fjöldi samtaka og félagasamtaka sem varða helst heilsu og börn hafa fordæmt ákvörðunina og bent hefur verið rækilega á að nauðungarflutningar af þessu tagi geti valdið Yazan óafturkræfanlegum heilsufarslegum skaða.