„Í fréttum í dag er sagt frá nýjum niðurstöðum frá Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, um stöðu kvenna sem vinna við ræstingar. Allt sem þar kemur fram staðfestir allt það sem Efling hefur talað um síðasta hálfa áratuginn,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Aðfluttar konur á íslenskum vinnumarkaði búa við viðurstyggilegan og lífsskemmandi þrældóm, sem að gerir að verkum að þær raðast neðst og hafa það verst í svo að segja öllum mælanlegum atriðum. Líkamleg heilsa, andleg heilsa, fjárhagsstaða, staða á húsnæðismarkaði, það er nákvæmlega sama hvað er skoðað – þessar konur sem halda uppi grunnkerfum samfélagsins eru á botninum.“
Sólveig Anna rekur síðan hvers vegna staðan er svona slæma: „Í engri atvinnugrein er þetta skýrara en í ræstingastörfum. Nánast allar ræstingar eru í dag í höndum sérhæfðra fyrirtækja sem gera út risavaxna flota af ræstingakonum. Þessar konur þeytast einar í bíl á milli vinnustaða, þar sem þær eru ókunnugir gestir án tengsla við starfsmannahópinn, og vinna alla sína vinnu á lægstu töxtum. Þegar niðurskurðar-krumlan byrjar að kreista fyrirtæki og stofnanir landsins er það ávalt gert með því að setja beinráðnu skúringakonuna fyrst á höggstokkinn – til að í hennar stað geti komið hin iðnvædda stórútgerð fyrirtækja á borð við Daga og Sólar. Þar þræla konurnar og slíta sér út dagana langa, og búa við þær ótrúlegu kringumstæður að lífslíkur þeirra eru bókstaflega að minnka með hverju árinu vegna ofurálags, fjárhagserfiðleika og heilsuleysis.
Það er mögnuð tilviljun að það er ekki lengra síðan en í gær að ég fékk fregnir af því að ein stærsta hjúkrunarheimilasamsteypa landsins, Grundarheimilin, ætlar einmitt að leika þennan sama leik á næstu dögum. Grundarheimilin ætla að segja upp fjölda kvenna sem starfa við þrif og ræstingar í Hveragerði, á Dvalarheimilinu Ási og í Þvottahúsi samsteypunnar. Þessar konur eiga að éta það sem úti frýs, og ef þær eru heppnar fá að ráða sig til eins af ofurgróðavæddu þrifafyrirtækjunum. Grundarheimilin ætla reyndar að bjóða ræstinga- og þvottakonum upp á viðtal við sóknarprestinn. Hann rifjar kannski upp með þeim orð Jesú Krists: Auðveldara er úlfaldanum að ganga í gegnum nálaraugað en ríkum manni inn í Guðs ríki.
Hin endurtekna noktun á útvistun ræstingastarfa segir okkur þetta: Laun kvenna sem starfa beint hjá hjúkrunarheimilium og hinu opinbera við ræstingar eru auðvitað ekki há, en laun ræstingakvenna á almenna vinnumarkaðinum eru hins vegar það mikið lægri og réttindi þeirra lakari að niðurskurðar-óðir stjórnendur hjúkrunarheimilanna telja það fórnarinnar virði, samkvæmt lögmálum Excel-skjalanna, að henda þessum konum frá sér yfir til einkageirans.
Svar okkar við þessu á í fyrsta lagi að vera að hafna útvistunum og í öðru lagi að hækka laun ræstingakvenna á almenna vinnumarkaðinum. Einfaldasta leiðin til þess er að semja um krónutöluhækkanir og hækka til viðbótar laun láglaunakvenna með sérstakri leiðréttingu, líkt og Efling hefur lagt áherslu á að gera í kjarasamningsviðræðum síðustu ár. Ég vona af öllu hjarta að hin félögin innan ASÍ getið staðið með okkur í þeirri baráttu í vetur.
Ég skora á stjórnendur Grundarheimilanna að taka skammarlega ákvörðun sína samstundis til baka.“