Það eru fleiri sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju meðal fylgjenda allra stjórnmálaflokkanna. Meirihlutinn er veikastur meðal kjósenda Flokks fólksins og síðan Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknar. En sterkastur meðal kjósenda Sósíalistaflokksins og síðan Viðreisnar, Pírata, Samfylkingar og Vg. Að einhverju leyti endurspeglar þetta lífsafstöðu fylgjenda flokkana, en líka aldurssamsetningu þeirra. Viljinn til að skilja á milli ríkis og kirkju er mun meiri meðal yngri kjósenda en þeirri eldri. Og sú afstaða springur í gegn þegar afstaða kjósenda flokkanna er skoðuð.
Þetta má meðal annars lesa úr könnun Gallup á afstöðu landsmanna til Þjóðkirkjunnar annars vegar og Agnesar M. Sigurðardóttur biskups hins vegar. Skemmst er frá því að segja að landsmenn hafa mjög neikvæða afstöðu til kirkjunnar og biskups.
28% segjast bera frekar mikið, mjög mikið eða fullkomið traust til Þjóðkirkjunnar. En 39% segjast bera frekar lítið, mjög lítið eða alls ekkert traust til kirkjunnar. Ef aðeins eru teknir sitthvor endinn, þá segjast aðeins 4% bera fullkomið traust til kirkjunnar en 14% alls ekkert.
Aðeins 11% segjast ánægð með störf Agnesar biskups en 48% óánægð. Og þegar spurt er um aðskilnað ríkis og kirkju segjast 55% hlynnt aðskilnaði en aðeins 26% ekki.
Traust til kirkjunnar er líka ólíkt eftir afstöðu til flokkanna. Mest er traustið meðal Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Flokks fólksins og Vg í þessari röð. Minnst traust er meðal kjósenda Sósíalistaflokksins, Viðreisnar, Pírata og samfylkingarinnar.
Röðin er svolítið öðruvísi þegar kemur að Agnesi. Kjósendur Vg voru helst ánægðir með Agnesi, en þó mikill minnihluti, aðeins 27% á móti 36% sem voru óánægð með Agnesi. Næst á eftir Vg kom Framsókn, Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkur í fjölda ánægðra.
Á hinum endanum voru Sósíalistar. Aðeins 4% voru ánægð með Agnesi en 74% óánægð. Á eftir Sósíalistunum í fjölda óánægðra komu kjósendur Miðflokksins, Pírata og Samfylkingarinnar.