Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, varaði við því á sunnudag að aðildarríki bandalagsins þurfi að búa sig undir „langt stríð í Úkraínu“. Aðvörunin kom fram í viðtali aðalritarans við þýska dagblaðið Berliner Morgenpost.
„Við viljum öll sjá frið sem fyrst,“ sagði Stoltenberg, „en á sama tíma verðum við að bera kennsl á að ef Selenskí og Úkraínumenn leggja niður vopn sín verður landið þeirra ekki lengur til. Ef Pútín og Rússland leggja niður sín vopn, þá verður friður.“ Loks sagði hann: „Flest stríð vara lengur en er búist við þegar þau hefjast. Við þurfum því að búa okkur undir langa styrjöld í Úkraínu.“
Að engin stríðslok komi til greina önnur en fullnaðarsigur Úkraínu eru ekki ný skilaboð frá NATO, en áherslan á hversu löng leiðin getur orðið vakti athygli fjölmiðla víða um heim.
Vill 3–4% landsframleiðslu í hernað
Í sama viðtali kallaði Stoltenberg eftir því að Þýskaland auki útgjöld sín til hernaðarmála. Hann sagðist skilja, í ljósi reynslu sinnar sem forsætisráðherra Noregs, „hversu erfitt það er að hækka hlut varnarmála í fjárlögum, þegar um leið er þörf fyrir fjármagn í heilbrigðismál, menntun eða innviði.“ Það sé eftir sem áður nauðsynlegt þegar „spenna eykst“.
Stoltenberg sagði að á tíma kalda stríðsins, „undir stjórn Konrads Adenauer eða Willys Brandt,“ hafi útgjöld til varnarmála numið þremur til fjórum prósentum af landsframleiðslu. „Við gerðum það þá og við þurfum að gera það aftur,“ bætti hann við. Í þýskum fjölmiðlum var fjallað um þessi ummæli sem áskorun eða mönun til þýskra stjórnvalda, og nokkuð víða tekið undir þau, undir fyrirsögnum á við „Upphaf, ekki endir“.
Aukning hernaðarútgjalda þegar áformuð
Fjárhæðirnar sem ríki NATO mana nú hvert annað til að veita í hernaðarmál eru ekki léttvægar. Landsframleiðsla Þýskalands nam árið 2021 4.260 milljörðum Bandaríkjadala. Þrjú prósent af þeirri fjárhæð væru um 130 milljarðar dala eða um 17.000 milljarðar íslenskra króna. Þýska framlagið til vígvæðingar Evrópu myndi þá nema, ár hvert, yfir tíföldum fjárlögum íslenska ríkisins, miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði í júní síðastliðnum að landið muni á næsta ári verja tveimur prósentum af landsframleiðslu í hernaðarmál, í fyrsta sinn síðustu áratugi, en það er hlutfall sem ríki NATO hafa nýverið skuldbundist sameiginlega.
Scholz leiðir, fyrir hönd sósíal-demókrata (SPD) ríkisstjórn með frjálslynda hægriflokknum FDP og Græningjum. Af stjórnarflokkunum þremur eru það helst Græningjar sem hafa viðrað einhverjar efasemdir um verulegar hækkanir hernaðarútgjalda: ekki þýði að tala um abstrakt prósentutölur heldur þurfi fjárfestingar á sviðinu að vera skýrar og hnitmiðaðar og svo framvegis. Þeir hafa þó ekki gengið svo langt að segjast mótfallnir auknum framlögum.
Loks hélt Stoltenberg því fram í viðtalinu að „enginn vafi“ léki á því að framtíð Úkraínu lægi innan NATO.