Það þarf bara að byggja, byggja og byggja

Ólafur Margeirsson hagfræðingur segir að markmið stjórnvalda eigi að vera að lækka byggingarkostnað. Ekki verði lengra farið eftir þeirri braut að auka getu almennings til að kaupa með betra aðgengi að lánsfé, eins og hefur verið stefnan svo til alla þessa öld. Nú þegar vextir hækka er þessi leið ófær. Því sé lausnin að lækka byggingarkostnað til að fá framleiðslu húsnæðis aftur í gang.

Ólafur benti á tvennt í samtali við Rauða borðið. Annars vegar að slaka á byggingarreglugerðum og skipulagi. Draga úr öllum kröfum sem valda meiri kostnaðarhækkun en þau lífsgæði eða öryggi sem kröfurnar færa. En mesta áherslu lagði Ólafur á að hleypa þolinmóðu fjármagni inn á byggingamarkaðinn sem gerir ekki sömu arðsemiskröfur og byggingarverktakar með lítið eigið fé og fjármögnun til skamms tíma og sem getur staðið af sér sveiflur í fjármagnskostnaði, eins og gengur nú yfir í verðbólgu og háum vöxtum. Þetta er einskonar af-braskvæðing húsnæðiskerfisins, að í stað efnahags verktaka verði lífeyrissjóðir og slík fyrirbrigði leiðandi.

Ólafur segir ljóst að minna sé framleitt af húsnæði nú og horfur séu á að framleiðslan muni dragast enn meira saman. Ef stefnunni verði ekki breytt gæti það leitt til hryllilegs ástands.

Sjá má og heyra viðtalið við Ólaf hér:

Ólafur heldur úti skrifum um húsnæðismál og hefur undanfarið fjallað um framboð á höfuðborgarsvæðinu. Um það var einnigrætt í viðtalinu.

„Nýjar íbúðir á hvern íbúa eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Horft á 5 ára meðaltal m.a. til að taka til greina að slíkur tími getur liðið frá því að byrjað er á skipulagsbreytingum sem leyfa byggingu nýrra íbúða uns þær íbúðir eru loksins allar fullbyggðar (sem er alltof langur tími),“ skrifaði Ólafur í nýjasta pistli sínum.

„Mikill samdráttur í byggingu íbúða á hvern íbúa nú m.v. fyrir Hrun nema í Reykjavík þar sem íbúðabygging á hvern íbúa hefur ekki verið meiri á þessari öld. Garðabær, Kópavogur og Mosfellsbær einnig að standa sig vel þrátt fyrir að nýbyggingar á hvern íbúa séu færri nú en fyrir Hrun. Hægt hefur þó mikið á uppbyggingu í Mosfellsbæ nýlega. Samdrátturinn í Hafnarfirði mikill en mun vonandi batna þegar nýjar íbúðir sem þegar eru komnar á skipulag verða byggðar. Mikil synd að sjá litla sem enga uppbyggingu á Seltjarnarnesi sem auðveldlega mætti ýta undir með þéttari byggð, líkt og hefur verið gert í Reykjavík.

Athyglivert að skoða samdráttinn í Kjós en þar eru tölurnar einfaldlega drifnar áfram af þeirri staðreynd að fáir íbúar eru í Kjósarhreppi og því þarf ekki margar nýjar íbúðir til að hífa hreppinn upp á þessum mælikvarða. Það er jú auðvelt að stækka það sem er lítið.

Þá er það vitanlega heildarfjöldi nýrra íbúða sem við viljum sjá sem mestan þegar allt kemur til alls, hlutfallsútreikningar sem þessir geta verið villandi samanburður bæði milli sveitarfélaga (sem eru mismikið uppbyggð) sem og innan sömu sveitarfélaga en milli mismunandi tímabila (það er t.d. eðlilegt að uppbygging á hvern íbúa í t.d. Garðabæ sé hægari nú en fyrir Hrun því Garðabær er meira uppbyggður og fólksfjöldi er meiri nú en þá). Fólk býr jú í íbúðum en ekki íbúðum per íbúa. 10 nýjar íbúðir á hverja 1000 íbúa í Reykjavík væru jú svipað margar íbúðir og 35 nýjar íbúðir á hverja 1000 íbúa í Kópavogi, svo dæmi sé tekið. Mikilvægast er að sjá sem mest af nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðnu, nær sama í hvaða sveitarfélagi þær eru byggðar,“ endar Ólafur færsluna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí