Yfirvofandi brottvísanir tveggja barnafjölskyldna vekja ugg og fordæmingu hjálparsamtaka

Samtökin Réttur barna á flótta greindi frá því á sunnudag að tvær fjölskyldur hefðu óskað eftir hjálp vegna yfirvofandi brottvísana.

Einstæð palestínsk móðir með átta börn

„Önnur fjölskyldan er frá Palestínu og kom til Evrópu í gegnum Spán,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. Þar er einstæð móðir á ferð, með átta börn, þar af sex undir lögaldri.

Þrjú barnanna eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, segir þar. Elsta dóttirin er með andlega fötlun og getur ekki séð um sig sjálf, segir í tilkynningunni. Freyja Haraldsdóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks og talskona samtakanna Tabú, vakti einnig athygli á stöðu fjölskyldunnar á sunnudagskvöld. Samkvæmt henni er unga konan með þroskahömlun og þarf mikinn stuðning í daglegu lífi.

Eitt barnið er flogaveikt, segir í tilkynningu samtakanna og Freyja tilgreinir nánar að það þurfi að hafa öruggan aðgang að lyfjum og sé enn útsettara fyrir flogum í svefnleysi og undir álagi.

Eitt barnið er enn að jafna sig eftir skurðaðgerð sem í lok ágúst, samkvæmt tilkynningu samtakanna. Freyja bætir við að það þurfi öryggi, heilsusamlegt umhverfi og eftirlit.

Þá tilgreinir Freyja ennfremur að móðirin stríði sjálf við veikindi.

Fjölskyldan hefur verið átta mánuði á Íslandi og beðið afgreiðslu umsóknar sinnar. Henni hefur nú verið tilkynnt að fyrir hádegi í dag, mánudag, hyggist lögregla færa þau frá dvalarstað þeirra á Reykjanesi í aðrar vistarverur fram að brottvísun. Fjölskyldan öll verði þá send til Spánar, þrátt fyrir að þau hafi ekki fengið vernd þar í landi og hafi þar ekkert tengslanet. Fjölskyldan hefur miklar áhyggjur af öryggi sínu, segir í tilkynningu samtakanna Réttur barna á flótta.

Gegn sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Freyja benti á, í samhengi við þetta mál, að Ísland hefur undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem sérstaklega er kveðið á um vernd fatlaðra kvenna, en í sjöttu grein sáttmálans segir:

„1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur fjölþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra.

2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að konur fái notið sín til fulls, geti sótt fram og hafi fullan frumkvæðisrétt, í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.“

6. og 7. grein samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað og fullgilt, kveða sérstaklega á um rétt fatlaðra kvenna og fatlaðra barna.

Þá vísaði Freyja einnig í sjöundu grein sáttmálans, um rétt fatlaðra barna, en þar segir:

„1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.“

Í ljósi stöðunnar sem fjölskyldan er í og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands hvatti Freyja opinbera starfsmenn til að neita að taka þátt í framkvæmd brottvísunarinnar:

„Þó að tíminn sé naumur er alveg hægt að koma í veg fyrir þessa martröð ennþá. Fjöldi fólks kemur að brottvísunum og legg ég til að það neiti að taka þátt í þessu. Og ef það þorir ekki að andæfa þessari martröð sem það verður virkir gerendur í að hringja sig bara inn veikan. Taka hópveikindadag.“

11 og 13 ára frá Írak send til Grikklands

Hin fjölskyldan sem á nú yfir höfði sér brottvísun er frá Írak, að sögn samtakanna Réttur barna á flótta. Þar eru á ferð foreldrar með tvö börn, 11 og 13 ára gömul. Þau eru sögð með vernd í Grikklandi, þar sem þau dvöldu áður í þrjú ár í flóttamannabúðum á eynni Chios „þar sem aðstæðum hefur verið lýst og fordæmd í óteljandi skýrslum frá fjölmörgum samtökum.“

Tilkynningu samtakanna lýkur á eindreginni afstöðu gegn þessum brottvísunum, þar sem samtökin segjast fordæma notkun Dyflinnarreglugerðar í málum viðkvæmra hópa, ekki síst í málum veikra barna.

Víða hefur verið ritað um það á undanliðnum árum hvernig Evrópulönd með orðspor fyrir frjálslyndi virðast um þessar mundir taka hvítu flóttafólki opnum örmum en öðrum ekki. Í grein sem birtist í bandaríska miðlinum The Nation undir lok síðasta árs talaði Helen Benedict, prófessor í blaðamennsku við Columbia-háskóla í New York borg, um ofsóknir í því samhengi: „Ofsóknir flóttafólks sem ekki er hvítt virðist fara vaxandi ekki aðeins í löndum undir öfga-hægri stjórnum heldur í þeim sem áður voru þekkt fyrir frjálslyndi sitt.“ Þá hefur verið fjallað um aukna hörku íslenskra stjórnvalda í málaflokknum í erlendum miðlum síðustu daga, meðal annars í spænska dagblaðinu El País.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí