Ekkert til sem heitir að við séum með of mikla græna orku – ráðherra peppar fyrir virkjunum

Það var ljóst á máli bæði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og á allri dagskrá haustfundar fyrirtækisins, sem haldinn var nú á miðvikudagsmorgun, að hugur stjórnvalda stendur til þess að ráðast í umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir, og að þau áform verða kynnt á forsendum umhverfisverndar, sem nauðsynleg í þágu loftslagsskipta.

Virkjum til að afkomendur okkar megi verða stolt

Guðlaugur Þór opnaði fundinn með ávarpi. Hann hóf mál sitt á að segjast „ánægður að heyra það að hér sé mikil ásókn í að komast til að ræða þessi mál, vegna þess að við erum á þeim tímamótum, við Íslendingar, að það er fullkomið rannsóknarefni af hverju við höfum ekki rætt þessi mál í mjög langan tíma. Og ég ætla ekkert að greina skýringu á því. En það sem ég veit er það, eftir að hafa tekið við þessum málaflokki, að það er mikið verk að vinna, við byggjum á gríðarlega traustum grunni, en það er ekki okkur að þakka. Það er foreldrum okkar og öfum og ömmum. Og við getum aldrei fullþakkað þeim fyrir það hvernig þau skilja við fyrir okkur þegar kemur að orkumálum okkar Íslendinga.“

Á ræðu hans mátti skilja að til að afkomendur núlifandi íbúa landsins verði jafn stolt og hann gerir ráð fyrir að núlifandi landsmenn séu af forfeðrum sínum og formæðrum, þurfum við að gera eins og þau – það er að segja, að virkja:

„En svo er það spurningin: Hvernig verðum við dæmd? Verða börnin okkar og barnabörnin jafn hreykin af okkur og við getum verið hreykin af þeim sem á undan gengu? Því að eins og staðan er núna, þá þurfum við virkilega að herða okkur til þess að svo megi verða.“

Stöðnun í framleiðslu í fimmtán ár

„Loftslagsmálin snúast um græna orku. Eini staðurinn í heiminum þar sem menn tengja þetta ekki saman, það er Ísland,“ sagði ráðherrann. „Þetta gengur út á það, að lang-lang-lang-lang-lang-stærstum hluta,“ útskýrði hann, „að menn eru að taka út jarðefnaeldsneyti og setja græna orku í staðinn. Og þegar við erum ekki með græna orku í fiskimjölsverksmiðjurnar, í húshitunina, og í bílana, þá verður aukning og það var það sem gerðist núna á milli ára.“

Guðlaugur Þór lofaði sjávarútveginn fyrir að hafa stigið „mjög stór skref … á undanförnum árum í að minnka losun með nýjum skipum og nýrri tækni.“ Hins vegar hafi í fimmtán ár verið „algjör stöðnun í framleiðslu á grænni orku á Íslandi. Það hefur bara verið stöðnunartímabil. Og við höfum á þessum miklu uppbyggingartímum á Íslandi, þá höfum við að meðaltali verið að auka uppsett afl um 24 megavött á ári. Þess vegna erum við að horfa á þessi vandræði sem við erum að horfa á í dag. Það snýst um það að okkur vantar græna orku. Það er ekkert flóknara en það. Og það eru allar þjóðir sem eru að vinna að því núna að verða sér úti um græna orku. Flestir horfa til okkar öfundaraugum og segja: þetta er svo auðvelt hjá ykkur. En það hefur ekki verið raunin á undanförnum árum.“

Fimmtán ára tímabilið sem Guðlaugur Þór vísar ítrekað til er tíminn frá því að lokið var við smíð Kárahnjúkavirkjunar, sem var vægast sagt umdeild framkvæmd. Segja má að síðan þá hafi ríkt samfélagsleg sátt um að ekki yrði ráðist í frekari virkjanaframkvæmdir af þeirri stærðargráðu, og í öllu falli ekki í þágu stóriðju á við álverið sem sú tiltekna virkjun knýr.

Virkjanir varða þjóðaröryggi

Guðlaugur Þór rökstuddi þörfina á frekari virkjanaframkvæmdum þó ekki aðeins með umhverfisverndarsjónarmiðum, heldur sagði þær einnig efnahagslega mikilvægar, og varða þjóðaröryggi að auki.

„Það snýst ekki bara um að umhverfislega sé það gott heldur líka efnahagslega. Og ég hvet ykkur nú að hugsa hvernig staðan hefði verið þegar Úkraínustríðið fór af stað, þegar Pútín réðst inn, ef að við hefðum ennþá verið með olíuna til að hita upp húsin okkar úti um allt land.“

Á fundinum voru kynnt áform um að auka raforkuframleiðslu um 0,5 TWst á ári, árlega, til ársins 2035, eða sem nemur rúmlega einni Kárahnjúkavirkjun alls (Kárahnjúkavirkjun framleiðir 4,8 TWst á ári).

Guðlaugur sagðist hafa hitt varakanslara Þýskalands um daginn. „Úff,“ bætti hann við. „Hann er ekki með auðvelt verkefni. Því að öll hús í Þýskalandi eru meira og minna – þó svo að þeir hafi jarðvarma, eins og við, því að jarðvarmi er úti um allt saman – að þau eru tengd með innviðum sem byggja á gasi og öðru slíku. Þannig að þetta snýr að umhverfismálum, þetta snýr að efnahagsmálum og þetta snýr að þjóðaröryggismálum. Því að þjóðaröryggi okkar er miklu betra vegna þess að við erum að nota græna íslenska orku að langstærstum hluta.“

Ekki bara rafmagn, líka hitaveita

Það mátti skilja á Guðlaugi að honum þætti skilningur almennings á orkumálum heldur bágborinn. Hann útskýrði fyrir fundargestum að á landinu hefði ekki verið nein hitaveita við landnám: „Það kom mér mjög á óvart að sjá stöðuna, nú er ég fyrst og fremst að tala um rafmagnið, en síðan er það þannig að hitaveitan, hún var einhvern veginn komin á þann stað að maður fékk á tilfinninguna að fólk hefði haldið að Ingólfur Arnarsson hefði mætt á vettvang og bara stungið í samband. Fengið heita vatnið. Það var nú aldeilis ekki þannig. Og það þurfti að taka pólitískan slag til þess að fara úr kolum og gosi – gasi – meðal annars hér í Reykjavík. Þetta var kosningamál. Kosningamál okkar sjálfstæðismanna. Ég tók ekki þátt í þeim kosningum, það var 1938, en það var kosningamálið var kjósum hitaveituna. Og þetta snýst ennþá um það, hvort við ætlum að kjósa hitaveituna og græna orku eða ekki.“

Ráðherrann bætti því við að í úttekt sem hann hefði beðið um á stöðu hitaveitanna hefði komið fram að „það eru tveir þriðju hitaveitna á Íslandi sem sér fram á mikil vandræði vegna þess að þessu hefur ekki verið sinnt. Tveir þriðju,“ endurtók hann og sagði það svo einu sinni enn til frekari áherslu: „Tveir þriðju. Og þetta er eitthvað sem verður ekki við unað.“

Allir munu hagnast

Guðlaugur Þór sagði að allir muni hagnast á því að auka framleiðslu á raforku í landinu. „Það er engin atvinnugrein sem mun tapa á því að við náum árangri í loftslagsmálum og verðum með grænna hagkerfi. Það er enginn ferðamaður sem mun segja: Ég ætla ekki að koma til Íslands vegna þess að þau eru búin að ná svo góðum árangri í loftslagsmálum. En það munu margir segja: ég ætla að koma. Það eru ekkert nema rafbílar þarna, þú ert með vottuð hús og þeir eru alveg til fyrirmyndar í endurnýtingu og hringrásarmálum. Nú þegar er íslenskt ál selt á hærra verði og menn ná betri samningum vegna þess að kolefnissporið er lágt. Sjávarútvegurinn mun bara auka verðmæti sitt vegna þess að hann er með lágt kolefnisspor. Og það sem skiptir mestu máli: Það er og verður endalaus eftirspurn eftir grænu hugviti í heiminum. Endalaus eftirspurn. Og það verður okkar mesta útflutningsgrein.“

„Í öllu þessu,“ sagði hann, „þurfum við alltaf að hafa í huga að 90% ferðamanna koma hingað af ástæðu sem ætti okkur öllum að vera kunn. Og það er vegna þess að þeir vilja sjá ósnortna íslenska náttúru. Þetta snýst alltaf um jafnvægi. Við búum að því, við erum lánsöm þjóð. Það er mjög lítið eftir af þeirri náttúru sem við sjáum á Íslandi í okkar heimshluta, og reyndar í heiminum öllum. Þannig að við þurfum alltaf að vera með augun á því þegar við gerum okkar áætlanir.“

Í spurningum og svörum undir lok fundarins bætti Guðlaugur Þór því við að: „Það er engin sviðsmynd uppi að við séum með of mikla græna orku. Hún er bara ekki til staðar. Við munum aldrei geta fullnægt öllum sem vilja koma og fá græna orku hjá okkur.“

Engin áformum um einkavæðingu

Guðlaugur Þór sagði í óspurðum fréttum engin áform uppi um sölu eða einkavæðingu Landsvirkjunar: „Landsvirkjun gegnir auðvitað lykilhlutverki í öllu þessu. Og bara svo það sé sagt, svo það sé algjörlega skýrt, þá eru engar hugmyndir neins staðar, mér vitandi – og ég hef ekki heyrt þær – um neinar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar. Engar. Og ég hef ekki heyrt eina einustu slíka síðan ég tók við þessu embætti og langt síðan ég hef heyrt það.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí