Ísland framleiðir yfir tvöfalt meira rafmagn á hvern íbúa en nokkurt annað land í Evrópu, samkvæmt gögnum evrópsku hagstofunnar Eurostat.
Eurostat birti nýtt mánaðaryfirlit yfir raforkuframleiðslu Evrópuríkja á sunnudag. Nýjustu gögn sem Ísland hefur deilt með stofnuninni eru þó frá því í maí. Ekki er svo verulegur munur á raforkuframleiðslu milli mánaða að hann breyti neinu um stöðu Íslands á listanum, en hér verður þó aðeins maí-mánuður tekinn til skoðunar. Í maí 2023 voru framleiddar rúmar 1.622 gígavattstundir af rafmagni á Íslandi. Það eru 4,18 megavattstundir á hvern íbúa landsins.
Næsta land á eftir á þessum lista er Noregur með 1,65 megavattstundir á hvern íbúa. Munurinn er yfir 2,5-faldur. Í þriðja sæti listans er Finnland, þar sem framleiddar voru 1,02 megavattstundir á íbúa. Öll öndur lönd álfunnar framleiddu mina en eina megavattstund á mann: Þýskaland 0,41, Pólland 0,32, Litháen 0,25, svo dæmi séu tekin.
Samanlögð framleiðsla þeirra 39 landa sem skilað hafa gögnum fyrir þennan maímánuð var 0,4 megavattstundir á hvern íbúa þeirra allra. Ísland framleiðir með öðrum orðum tífalt meira rafmagn á hvern íbúa landsins en gengur og gerist í Evrópu.
Íbúafjöldi í þessum útreikningum miðast við 1. janúar 2023.