Á fimmtudag, sjötta degi eftir árás Hamas á Ísrael, kom þar að hefndaraðgerðir ísraelskra stjórnvalda, hóprefsingin sem Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar varað við að teljist til stríðsglæpa, hefur orðið fleira fólki að bana en árás Hamas. Að kvöldi fimmtudags höfðu 1.537 manns látist í loftárásum Ísraels á Gasa, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti svæðisins. Á sama tíma höfðu yfir 1.300 fallið fyrir hendi Hamas, samkvæmt Ísraelsher, langflestir í árásinni á laugardag. Af þeim voru 222 hermenn.
Skelfingarástand ágerist undir umsátri og loftárásum
Vestrænir stjórnmálamenn, allt frá Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Jens Stoltenberg, aðalritara NATO og Bjarna Jónssonar, formanns Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, hafa lagt sig í lima við að tala jafnóðum um rétt Ísraels til að „verjast“ og mikilvægi þess að gera það í samræmi við alþjóðalög. Þvert á alþjóðalög hafa loftárásir Ísraels á Gasa hins vegar verið gríðarlega víðtækar og hefur Ísrael meðal annars þegar gert bæði heilsugæslustöðvar og skóla að skotmörkum, að sögn Brians Lander, yfirmanns neyðaraðgerða Matvælaáætlunar SÞ.
Samhliða loftárásum sem hafa jafnað heil hverfi í rúst hefur umsátur ísraelskra stjórnvalda um Gasa hratt og örugglega skapað skelfingarástand fyrir allan almenning á svæðinu. Fyrrnefndur Lander er einn af ótal mörgum sem hafa brýnt mikilvægi þess að Ísrael og Egyptaland skapi leiðir til að koma nauðsynlegum birgðum til Gasa, og að tryggja öryggi starfsfólks Sameinuðu þjóðanna á svæðinu. Orkumálaráðherra Ísraels, Israel Katz, ítrekaði hins vegar að hvorki raforku, vatni né eldsneyti verði hleypt til Gasa fyrr en þeir Ísraelar sem Hamas tóku í gíslingu verða leystir úr haldi.
Án rafmagns og eldsneytis, á meðan vatn og matur fer þverrandi, ótal byggingar eru rústir einar og vegir tættir sundur leita þúsundir særðra aðhlynningar. „Það er ekki mögulegt, undir neinum kringumstæðum, að halda þessu starfi áfram, “ sagði said Mohammad Abu Selim, forstjóri Shifa-sjúkrahússins, í viðtali við AP. „Sjúklingarnir eru nú á götunum. Særðir eru á götunum. Við eigum ekki rúm fyrir þá.“
Hvað varðar skilyrði … þá eru engin skilyrði
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna funduðu í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel á miðvikudag og fimmtudag. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sótti fundinn í Brussel. Hann sagði blaðamönnum á fimmtudag: „Hvað varðar skilyrði sem við setjum við þá öryggisaðstoð sem við veitum Ísrael, þá höfum við ekki gert framlag þessa búnaðar háð neinum skilyrðum. Þetta er her fagmanna, undir forystu fagmanna, og við myndum vonast og búast við að þeir geri rétta hluti í framkvæmd aðgerðar sinnar.“
Á fimmtudeginum ávarpaði Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, kollega sína innan bandalagsins, með fjarfundabúnaði. Samkvæmt fréttum sýndi Gallant þar kollegum sínum innan NATO „óritskoðuð myndskeið“ af ódæðum sem Hamas-liðar frömdu í árásinni á Ísrael síðasta laugardag. „Við sáum sláandi myndskeið,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundinum á fimmtudag. Aðspurður nánar um hvað hefði mátt finna á myndskeiðunum sagði Stoltenberg að þar hefðu verið „hræðilegar myndir“ af árásunum og fórnarlömbum árásanna. „Og ég held að það sé Ísraela að ákveða hvað þeir afhjúpa af þessum myndum.“ Hann sagði að ungt fólk hefði verið drepið og „auðvitað hefur það sterk áhrif á okkur öll þegar við sjáum myndirnar og myndbandið.“
Enn þarft að hrekja ýkjusögu Bidens
Í umfjöllun Reuters segir að myndskeiðið sem Gallant sýndi ráðherrunum hafi verið samsett úr myndefni sem Hamas-liðar og aðrir hafi dreift á samfélagsmiðlum, þar sem sjá hafi mátt fjölda líka. Þar kemur um leið fram að engar myndir hafi gefið til kynna að þátttakendur í árásinni hafi „afhöfðað börn“, eins og haldið hefur verið fram, ekki aðeins í fjölmiðlum, heldur af Bandaríkjaforseta á fundi á miðvikudag. Hvíta húsið gaf síðar út þá leiðréttingu að bandarískir embættismenn hefðu ekki séð neinar slíkar myndir.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti ekki fund varnarmálaráðherranna. Annað hvort Hermann Örn Ingólfsson, fastafulltrúi landsins hjá NATO eða Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, virðast hafa verið viðstaddir.