Bandaríkjaforseti tekur fullyrðingum Ísraels um að Palestínumenn hafi borið ábyrgð á sprengingunni á sjúkrahúsinu á Gaza á þriðjudag með ákveðnum fyrirvara, ef marka má ummæli hans á fyrri blaðamannafundi hans í Ísrael í dag, miðvikudag. Á seinni blaðamannafundi dagsins hét Biden Ísrael „fordæmalausum“ stuðningi, með fyrirvara um að tillaga hans komist í gegnum þingið. Þar kom um leið fram að Ísrael hefði fallist á að hleypa hjálpargögnum til Gasa í gegnum Egyptaland.
„Á grundvelli þess sem ég hef séð, virðist …“
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, héldu sameiginlegan blaðamannafund eftir komu Bidens til Ísraels í dag, miðvikudag. Á fundinum sagði Biden að hann hefði verið bæði mjög hryggur og reiður – „deeply saddened and outraged“ – þegar hann frétti af sprengingunni á sjúkrahúsinu á Gasa daginn áður, þriðjudag, þar sem Hamas hafa nú staðfest að 471 létu lífið. Í fyrstu var talið ljóst að Ísrael bæri ábyrgð á sprengingunni og hefði reiði og hryggð forsetans því beinst að Ísrael. „Á grundvelli þess sem ég hef séð,“ bætti forsetinn við, „virðist sem það hafi verið gert af hinu liðinu, ekki ykkur. En það er fullt af fólki þarna úti sem er ekki sannfært, svo við höfum helling, við þurfum að komast í gegnum margt.“
Forsetinn tók með öðrum orðum ekki heils hugar undir mat ísraelskra stjórnvalda heldur sagði aðeins að á grundvelli þess sem hann hefði séð „virtist sem“ það væri svo.
Tryggja algert hernaðarlegt forskot Ísraels
Þessi fyrirvari við mat Ísraelsmanna á því hvað átti sér stað á Gasa þennan tiltekna dag virðist aftur á móti ekki hafa áhrif á þátttöku Bandaríkjamanna í vígvæðingu á svæðinu. Undir lok heimsóknarinnar hélt Biden einn og sér blaðamannafund, þar sem hann ítrekaði fyrri skilaboð um óbilandi, hernaðarlegan stuðning Bandaríkjanna við Ísrael. „Við munum sjá til þess að þið hafið það sem þarf til að verja fólk ykkar, verja þjóð ykkar, til áratuga,“ sagði hann þá. „Við höfum tryggt algert hernaðarlegt forskot Ísraels. Og síðar í þessari viku mun ég biðja fulltrúadeild Bandaríkjaþings um fordæmalausan stuðningspakka við varnir Ísraels.“
Á sama fundi sagði forsetinn að Ísrael hefði samþykkt að hleypa hjálpargögnum til Gasa-svæðisins, í gegnum Egyptaland.
Biden er sagður hafa ferðast til Ísraels í tvíþættum tilgangi: annars vegar að sýna Ísrael samstöðu í eigin persónu, en þetta er fyrsta heimsókn Bandaríkjaforseta til landsins á meðan það á í stríðsátökum; hins vegar að tempra þær mannúðarhörmungar sem óttast er að séu framundan, í þeim hernaðaraðgerðum gegn Gasa sem ísraelskir ráðamenn tala um sem varnir.