Þingmaður VG bindur vonir við að Bandaríkjunum takist að draga úr spennu og átökum

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, sagðist á þriðjudag binda vonir við að bandarískum stjórnvöldum takist að draga úr spennu og átökum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Umrædd yfirlýsing Steinunnar birtist í ræðu hennar á Alþingi, þar sem hún mælti fyrir þingsályktunartillögu um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Þetta var í tólfta sinn sem tillagan er borin fram, en henni hefur verið hafnað af Alþingi árlega allar götur síðan haustið 2012. Samþykki Alþingi tillöguna í þetta sinn yrði hún svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Meðflutningsmenn tillögunnar eru þingmenn úr Framsókn, flokki Pírata, Samfylkingu og Viðreisn.

Fyrst og fremst táknrænt nú

Steinunn Þóra tók það fram að þingsályktunartillagan væri, í ljósi þeirrar stöðu og þeirra frétta sem berast um þessar mundir frá botni Miðjarðarhafs, fyrst og fremst táknræn, „þó að hún skipti máli í hinu stóra pólitíska samhengi.“

„Þetta mál hefur þónokkuð oft verið lagt fram hér á Alþingi, hefur ekki hlotið afgreiðslu,“ sagði Steinunn „en í mínum huga þá stendur það algerlega fyrir sér ennþá, þó svo að auðvitað séu allt aðrir þættir sem akkúrat núna skipta auðvitað meira máli. En það var nú engu að síður þannig að ég var búin að leggja þetta mál fram og ég gleðst yfir því að það hafi komist hér til umræðu nú.“

Steinunn Þóra vék að árásum á óbreytta borgara í Ísrael og Gasa og sagði: „Þessi ofbeldishrina, með gegndarlausum árásum á almenna borgara, hófst fyrir nokkrum dögum, með árásum Hamas á óbreytta borgara í Ísrael. Ég get aldrei stutt við það að óbreyttir borgarar séu drepnir með þessum hætti, þó svo að ég skilji pólitíska samhengið sem að ákveðnir atburðir spretta úr. En síðan þá höfum við, líkt og ég raunar talaði um hér í störfum þingsins á þriðjudaginn, séð það gerast að Ísraelsmenn ráðast á Gasa, á almenna borgara og hafa lokað fyrir flutninga á vatni, mat, lyfjum, rafmagni og eldsneyti inn á Gasa. Og segjast ætla að hefja þar landhernað.“

„Ég verð að viðurkenna það …“

Það var þá sem Steinunn nefndi þær vonir sem hún bindur nú við fulltrúa bandarískra stjórnvalda: „Ég verð að viðurkenna það að ég vona að Bandaríkjunum, sem að ég hef nú ekki alltaf talið mína helstu bandamenn þegar kemur að málefnum Ísraels og Palestínu, ég bind vonir við það að þeim takist að draga úr spennu og átökum núna, eins og Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna virðist hafa verið að gera síðustu daga. En augljóslega ekki tekist líkt og sjá má á árásinni á sjúkrahúsið áðan.“

Að því sögðu vék Steinunn að sögu Ísraels og Palestínu og forsendum þingsályktunartillögunnar.

Yfirlýsing Steinunnar má teljast til nýmæla, að því leyti sem hún er sá þingmaður Vinstri grænna sem á hvað dýpstar rætur í Samtökum hernaðarandstæðinga. Samtökin hétu áður Samtök herstöðvarandstæðinga og voru stofnuð um andstöðu við aðild Íslands að NATO og herstöð Bandaríkjanna á Reykjanesi. Í þeim hluta vinstrisins er ekki sterk hefð fyrir því, eins og hún minntist á sjálf, að binda vonir við friðarvilja Bandaríkjanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí