Þegar þetta er skrifað eru nokkrar klukkustundir liðnar frá því að sprengja féll á al-Ahli Arab sjúkrahúsið á Gasa og varð hundruðum að bana, um sjöleytið á þriðjudagskvöld að staðartíma. Fjöldi látinna er enn óviss, en samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa fórust að minnsta kosti 500 manns í sprengingunni.
Heilbrigðisráðuneytið á Gaza hélt blaðamannafund með læknum sem stóðu umkringdir líkum barna og fullorðinna sem létust í sprengingunni. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg. Þúsundir komu saman til mótmæla, ekki bara í Amman og Beirút heldur einnig í Ramallah, á Vesturbakkanum, þar sem mótmælendur kröfðust afsagnar Mahmoud Abbas. Þjóðarleiðtogar og stjórnmálamenn brugðust við árásinni á sjúkrahúsið með fordæmingu og António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, lét frá sér yfirlýsingu þar sem sagði: „Ég fyllist hryllingi við dráp hundruða palestínskra borgara í árás á sjúkrahús í Gasa í dag, sem ég fordæmi harðlega.“ Það var í fyrsta sinn frá upphafi þessara átaka sem hann lýsti yfir að hann „fordæmdi“ verknað. Guterres minnti á að sjúkrahús og heilbrigðisstarfsfólk njóta verndar alþjóðalaga um mannúð.
Árás á sjúkrahús, hvað þá árás með þvílíku mannfalli, telst óyggjandi til stríðsglæpa. Fjölmiðlar sitja þó á sér að staðhæfa um ábyrgð á sprengjunni, eftir að Ísraelsher hafnaði því að hafa ráðist á sjúkrahúsið og fullyrti að sprengjunni hefði verið varpað af Palestínumönnum en lent á sjúkrahúsinu á Gasa vegna bilunar.
Það er í skugga þessa atviks, og í óvissunni um afleiðingar þess næstu klukkustundir og daga, sem Joe Biden Bandaríkjaforseti ferðast nú í nótt til fundar með Benjamin Netanyahu í Ísrael. Í Bandaríkjunum vonast sumir til að forsetinn vilji og muni afstýra útbreiðslu átakanna. Aðrir biðla til hans að sýna hörku, eina vonin um frið felist í að hræða óvininn. Ekki bara Hamas, heldur einnig Íran.
Biden talar fyrir mannúðlegum hernaði
Níu dagar eru nú liðnir frá því að Ísrael lýsti yfir stríði gegn Hamas, eftir mannskæða árás Hamas tveimur dögum fyrr, laugardaginn 7. október. Áður en al-Ahli Arab sjúkrahúsið var sprengt nam mannfall á Gasa, undir loftárásum Ísraels, tæplega 3.000 manns. Svæðið er undir herkví, hvorki Ísrael né Egyptaland hleypa íbúum út né hjálpargögnum inn. Vatn, vistir og eldsneyti eru nú af skornum skammti.
Þegar forsetaembætti Bandaríkjanna tilkynnti á mánudag að Biden hyggðist þiggja heimboð Ísraelsstjórnar, var ætlun forsetans einnig að fara til Amman, höfuðborgar Jórdaníu, þar sem fyrirhugaður var fundur Bidens með Jórdaníukonungi, forseta Egyptalands og forseta Palestínu. Eftir að sprengjan féll á sjúkrahúsið, tilkynnti utanríkisráðherra Jórdaníu að fallið hefði verið frá þeim áformum, ráðstefnan yrði haldin þegar allir þátttakendur hennar hefðu þann ásetning að binda endi á „stríðið og fjöldamorð unnin á Palestínumönnum.“ Biden mun því aðeins heimsækja Ísrael.
Tilgangur heimsóknarinnar er sagður tvíþættur: um leið og Biden vilji í eigin persónu staðfesta samstöðu Bandaríkjanna með ísraelskum stjórnvöldum í hernaðaraðgerðum á Gasa, þá hafi hann dag frá degi gerst afdráttarlausari í aðvörunum til þeirra um nauðsyn þess að uppfylla alþjóðleg viðmið um mannúðarskyldur ríkja í stríði og vernda líf óbreyttra borgara. CNN hefur eftir John Kirby, talsmanni Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, að Biden fari til Ísrael með athyglina á „hinni brýnu þörf til að hjálpargögn berist til Gasa og að saklaust fólk komist burt þaðan.“
Bandaríkin hóta Íran sem hótar Ísrael sem …
Ísrael er enn í viðbragðsstöðu með landher sinn, við landamærin að Gasa. Yfirmenn hersins hafa nú gefið til kynna að óvíst sé hvort landgönguliðið ryðjist inn eða hvort hernaðurinn heldur áfram með öðrum leiðum. Um leið og Bandaríkjaforseti talar ítrekað um mikilvægi þess að fylgja reglum um mannúðarskyldur ríkja í stríði tekur hann undir tal ísraelskra stjórnvalda um þörfina á að „afmá Hamas“. Ekkert bendir til að Bandaríkin reyni að letja Ísrael til innrásarinnar.
Athygli Bandaríkjanna beinist þó ekki síður að Íran. Íranir hafa varað Ísrael við, að ef ríkið fari offari gegn óbreyttum borgurum á Gasa muni Íran skarast í leikinn. Bandaríkin hafa varað Írani við að gera það ekki, þá sé þeim að mæta, og hafa fylgt þeim viðvörunum eftir með því að stilla sér upp í námunda, fyrst með einu síðan tveimur flugmóðurskipum – það fyrra stendur nú fyrir botni Miðjarðarhafs, hitt er á leiðinni. Báðum fylgja smærri herskip og orrustuþotur, auk þess sem tilkynnt hefur verið að 2.000 manna bandarískt herlið sé í viðbragðsstöðu. „Hættunni sem við stöndum frammi fyrir“ lýsti Simon Tisdall, aðstoðarritstjóri The Guardian í fyrirsögn greinar á mánudag í knöppu máli: „Ísrael ryðst inn, Íran hefur afskipti og stríðið fer um heiminn“ – „goes global“ sagði hann. Í greininni varar hann við yfirvofandi heimsstyrjöld.
Það væru mistök að hernema Gasa, segir Biden
Sjálfur var Bandaríkjaforseti í viðtali í fréttaskýringaþættinum 60 mínútum á CBS á sunnudag. Aðspurður hvort hann teldi að þarft væri að afmá Hamas samtökin sagði Biden: „Já, það geri ég. En það þarf að vera palestínskt yfirvald. Það þarf veg í átt að palestínsku ríki.“ Hann sagði einnig að hann liti svo á að það væru mistök ef Ísrael ætlaði sér að hernema Gasa aftur. Í viðtalinu minntist forsetinn ekki á Íran nema til að svara spurningu um aðkomu þeirra að árásinni þann 7. október – hann sagði engar vísbendingar um að Íran hefði átt aðild að árásinni sjálfri eða vitað að hún væri í bígerð.
Um leið og ljóst er að Bandaríkin eru nú sem fyrr voldugasti og viljugasti bandamaður Ísraels og að ráðamenn Bandaríkjanna hafa frá upphafi þessara átaka lagt áherslu á „rétt Ísraels til að verjast“, þá birtast þessi ummæli forsetans, og önnur viðlíka, sem frávik frá þeim skilyrðislausa stuðningi við hernaðaraðgerðir Ísraels sem margir hafa búist við og óttast. Einhverjir binda vonir við að frávikið sé marktækt og Bandaríkin leggi sig í reynd fram um að draga úr hættunni á stigmögnun átakanna. Aðrir sjá ummælin sem veikleikamerki og vilja heldur espa Bandaríkin til að þenja sig á svæðinu. Á meðal þeirra miðla sem taka síðarnefnda pólinn í hæðina er Wall Street Journal.
Stríð er friður – en heift er engin áætlun
Í leiðara á sunnudag gaf ritstjórn Wall Street Journal út það mat í leiðara að „klerkarnir í Tehran þurfi að skilja að fleira sé í húfi en milligöngumenn þeirra um hryðjuverk. Þeir þurfa að vita að vettvangur kjarnorkurannsókna þeirra og olíulindir séu einnig á lista skotmarka. Ef þeir halda að herra Biden óttist viðameiri átök er líklegt að þeir magni þau átök sem standa nú þegar yfir, og fjölmargir fleiri, meðal annars Bandaríkjamenn, muni deyja.“ Eina leið Bandaríkjanna til friðar, að mati blaðsins, er með öðrum orðum sú að gera ljóst að þau séu óhrædd við stríð. Það er, að segja má, hefðbundið sjónarmið íhaldsmanna. Þetta mat ítrekaði William McGurn, ritstjórnarmeðlimur blaðsins, í grein á mánudag undir yfirskriftinni „America Isn’t at War, but Iran Is“: Bandaríkin eru ekki í stríði en Íran er það. Í niðurlagi greinarinnar skrifar hann að Biden hafi réttilega áhyggjur af stigmögnun átakanna – en „óttinn við stigmögnun getur tryggt að stigmögnunin eigi sér stað, ef hann birtist sem veikleikamerki“.
New York Times virðist á sama tíma heldur vilja toga í hina áttina og hvetur til yfirvegunar. Farah Stockman, ritstjórnarmeðlimur blaðsins, skrifaði grein sem birtist á þriðjudag undir fyrirsögninni „Invading Gaza Now Is a Mistake“: Að ráðast inn í Gasa núna eru mistök. Greinin hefst á orðunum „Heift er ekki áætlun.“ Greinarhöfundur segir ísralesk stjórnvöld að óbreyttu stefna á að gera sambærileg mistök við þau sem Bandaríkin gerðu eftir hryðjuverkaárásina 11. september 2001: „Í útrás sinni fyrir sorg, reiði og engan smávegis ofmetnað réðust Bandaríkin í tvö kostnaðarsöm stríð með banvænar afleiðingar fyrir almenning í Írak og Afganistan og bagalegar afleiðingar fyrir okkur sjálf, þegar upp var staðið.“
Upptaktur að heimsstyrjöld, skrifar sósíalisti
Loks eru þau sem gera ráð fyrir að talsmenn hrárra hagsmuna á Wall Street Journal gefi skýrari innsýn í þankagang bandarískra stjórnvalda en blíðlyndari höfundar New York Times, en líta ekki á það sem góðar fréttir. WSWS, fréttamiðill bandarískra sósíalista, birti á mánudag grein eftir ritstjórnarmeðliminn Andre Damon, undir yfirskriftinni „Um leið og Bandaríkin gefa Ísrael grænt ljós fyrir þjóðarmorð undirbúa þau stríð gegn Íran“. Damon skrifar:
„Leiðin í átt að fullburða stríðsátökum í Mið-Austurlöndum er framhald á sömu stefnu og leiddi til hins langdregna og vaxandi stríðs Bandaríkjanna og NATO við Rússland um Úkraínu. Bandaríkin hvöttu til þeirra átaka með það að markmiði að bera Rússland ofurliði hernaðarlega og koma þar stjórnarskiptum í kring. Þau líta á stríðið gegn Rússlandi sem undirbúning fyrir hernaðarátök við Kína.
Að Bandaríkin gefi Ísrael lausan tauminn til að fremja fjöldamorð gegn íbúum Gasa og magni um leið hernaðaráform gegn Íran, verður að skoðast í samhengi atburða sem er í reynd upptaktur þriðju heimsstyrjaldar.“