Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Íslands-Palestínu, fer í pistli sem hann birtir á Facebook yfir orð sem eru fyrir löngu orðin klisja, það er „réttur Ísraels til að verjast“. Hjálmtýr bendir á að stjórnmálamenn Vesturlanda tönglist sífellt á þessum orðum þegar Ísraelsmenn séu að fremja stríðsglæpi. Hjálmtýr spyr einfaldlega hvort þessi réttur til að verjast sé einnig réttur til að hrekja Palestínumenn úr Palestínu.
Hér fyrir neðan má lesa pistil hans í heild sinni.
ÍSRAEL OG RÉTTURINN TIL AÐ VERJAST
Réttur Ísraels til varna er í hávegum hafður hjá ríkisstjórnum Vesturlanda – líka hjá rískisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. En hvað er Ísrael að verja?
Er það rétturinn til að ræna landi endalaust?
Er það rétturinn til að hrekja Palestínumenn úr Palestínu?
Er það rétturinn til þess að brjóta gegn alþjóðalögum og sáttmálum?
Árið 2006 skrifaði ég grein sem ég beindi til þáv. utanríkisráherra Valgerðar Sverrisdóttur. Þar var hún að endurtaka mönturna um rétt Ísraels til varna. Mér sýnist að greinin standist fullkomlega tímans tönn og ráðamenn Vesturlanda sitja enn við sama heygarðshornið.
Hér er greinin:
Utanríkisráðherra Íslands og guðs útvalin þjóð.
Greinin birtist í Mbl. 26.8. 2006 bls. 37
Það hefur verið viðkvæði vestrænna ráðamanna að Ísraelríki hafi rétt til að verja sig í hvert sinn sem þeir ráðast inn í lendur nágranna sinna. Íslenskir utanríkisráðherrar hafa fylgt þessari stefnu svo lengi sem ég man og nú síðast ítrekaði Valgerður Sverrisdóttir, núverandi utanríkisráðherra, þessa stefnu vegna innrásar Ísraelshers í Líbanon. Í bréfi utanríkisráðherra til Ísraelstjórnar er skrifað um “mikilvæga þörf Ísraels til að verja sig” (“the vital need of Israel to defend itself”). Ísrael hefur þá sérstöðu meðal ríkja að geta þanið út umráðasvæði sitt í skjóli þessarar afstöðu vestrænna ríkisstjórna. Saddam f.v. forseti Íraks hafði ekki þetta bessaleyfi þegar hann lagði Kuveit undir sig og fékk á baukinn þá og situr nú á sakamannabekk. Í ljósi afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til varnarþarfar Ísraels og hlut Íslands í árásinni á Írak er fróðlegt að fá upplýsingar um það hvaða svæði hafa Ísraelar rétt og þörf á að verja?
Er það:
– Landið sem þeim var úthlutað af SÞ í upphafi árið 1947?
– Svæðin sem þeir hertóku 1948?
– Jerúsalem sem þeir eigna sér í trássi við samþykktir SÞ?
– Svæðin sem þeir hertóku 1967, þ.m.t. Golanhæðir?
– Þær sneiðar af Líbanon sem þeir hafa ekki skilað eftir innrásina 1982?
– Svæðin sem þeir hafa nagað af Vesturbakkanum og Gasa frá 1967?
– Allt landið sem Síonistar gera tilkall til skv. gömlum bókstaf? (Erez Israel)
Þetta vandamál varðandi rétt og þarfir Ísraelríkis verður að leysa hið fyrsta. Það er mjög aðkallandi nú þegar öflugur her þeirra hefur enn á ný lagt stóran hluta Líbanons í rúst, drepið rúmlega eitt þúsund borgara og tekið mörg hundruð til fanga. Munu þeir geta haldið þessum sérréttindum að mati íslenskra ráðherra og er þörf þeirra hin sama? Munu næstu “varnar”árásir þeirra gerðar í krafti þessara réttinda og þarfa? Hversu langt getur eitt ríki gengið með árásum og útþenslu þar til að utanríkisráðherra Íslands hefur fengið nóg? Gagnlegt yrði að sjá rökstudd svör við þessum spurningum
Sameinuðu þjóðirnar hafa margsinnis ályktað gegn þessari útþenslustefnu og bent á að Ísraelar hafi engan rétt til að nýta sér hertekin svæði til búsetu líkt og þeir hafa gert m.a. með landtökubyggðum á Golanhæðum og á Vesturbakkanum.
Metur íslenski utanríkisráðherrann rétt og þarfir Ísraels mikilvægari en tilveru og traust SÞ? Hvern styðja íslenskir ráðamenn í raun?
Það virðist vera tímbært að endurskoða stefnu íslenskra stjórnvalda í þessu máli. Tilvitnun í skýrslu ísl. utanríkisráðherrans 1993 sýnir að enn er hjakkað í sama farinu, þar stendur: ”sem og eldflaugaárásir Hizbullah á Norður-Ísrael og gagnárásir Ísraelshers á Suður-Líbanon”. Þessi tilvitnun gæti verið tveggja vikna gömul. Þrettán ár liðin og ekkert hefur breyst! Er til annað sjónarhorn á þessi átök sem hafa nú staðið í bráðum 60 ár? Hefur engum sérfræðingi utanríkisráðuneytisins komið til hugar að það sé ráð að endurskoða afstöðuna gagnvart Ísrael – hætta að tala um varnarþörf og rétt, en tala þess í stað eingöngu um að fylgja alþjóðalögum og samþykktum SÞ, virða rétt nágrannaríkja og skila herteknum svæðum!!
Áskorun til Valgerðar utanríkisráðherra
Valgerður – taktu þér tak og sýndu framsýni og djörfung. Ekki skrifa fleiri bréf um þarfir Ísraelríkis. Kynntu þér það sem þeir eru að gera hvern einasta dag – kúga, myrða, stela landi og eyðileggja lífsviðurværi fólks sem hefur ekkert til saka unnið nema að lifa í námunda við þetta dekurríki. Ekki rugla saman viðbrögðum hinna kúguðu og árásum kúgarans. Hugsaðu um ömmurnar, mömmurnar og börnin í Palestínu, og feður sem eru hundeltir og drepnir. Hugsaður um þarfir og réttindi þessa fólks. Það er brýnast.