Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre og varaforsætisráðherra og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Mette Frederiksen, sagði af sér í morgun. Hann sagði af sér sem ráðherra, sem þingmaður og sem formaður Venstre. Í haust hafði hann skipt um embætti við félaga sína, fór úr varnarmálaráðuneytinu eftir hneyksli þar innandyra og flutti sig yfir í efnahagsmálin. Þessi lausn hélt ekki fyrir Ellemann-Jensen, dugði ekki til í danskri pólitík. Og í morgun axlaði hann ábyrgð og sagði af sér sem ráðherra, þingmaður og formaður síns flokks.
Jakob Ellemann-Jensen blandaðist inn í umræðuna um ákvörðun Bjarna Benediktssonar um skipti á ráðuneytum. Bjarni sagðist beygja sig undir álit umboðsmanns sem komst að því að hann hefði ekki kannað eigið hæfi við sölu á hlut almennings í Íslandsbanka, en einn þeirra sem keyptu hlutinn var Benedikts Sveinsson, pabbi Bjarna. Umboðsmaður komst einnig að því að Bjarni hefði ekki sinnt stjórnunar- og eftirlitsskyldum sínum. Bjarni sagði þó ekki af sér, ákvað að hætta í fjármálaráðuneytinu og fara yfir í utanríkisráðuneytið svo nýr fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins gæti haldið áfram að selja hlut almennings í Íslandsbanka.
Skiljanlega kom þessi ákvörðun á óvart. Mikill meirihluti almennings sagðist í könnunum vilja að Bjarni myndi víkja úr ríkisstjórn, tæki ekki við öðru ráðherraembætti. Ákvörðunin var einnig gagnrýnd af stjórnarandstöðu og nánast öllum sem til máls tóku. Fólk spurði: Hvar í veröldinni myndi það gerast að ráðherra sem hefði verið lýstur ábyrgur að endalausu klúðri við sölu Íslandsbanka myndi loks beygja sig undir niðurstöðu stjórnsýslunnar en þá bara færa sig yfir í næsta ráðuneyti?
Og þá kom Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði með dæmið af Jakob Ellemann-Jensen.
„Hins vegar sá ég að það er mjög nýlegt dæmi, frá þessu ári, í Danmörku sem er mjög forvitnilegt vegna þess að það er í rauninni mjög svipað og það sem er að gerast hér,“ sagði Ólafur Þ. í Pallborðinu á Vísi. „Varnarmálaráðherrann, Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, eins af þremur stjórnarflokkum. Hann lenti í því í byrjun árs að segja þinginu ósátt varðandi vopnasölu, þeir voru að kaupa vopn af Ísraelsmönnum. Þegar að þetta kemst upp þá segir hann: Embættismenn mínir gáfu mér rangar upplýsinga, ég var í góðri trú þegar ég sagði þinginu ósatt og ég bið þingið afsökunar. Hann lét ráðuneytisstjórann síðan hætta, sagði af sér sem varnarmálaráðherra, hélt áfram sem varaforsætisráðherra eins og hann var áður og tók við nýju ráðuneyti, efnahagsráðuneytinu.“
Þessu var fagnað meðal hægri manna og vitnað til þess í umræðu, sem dæmi um að ákvörðun Bjarna væri ekki eins spillt og andlýðræðisleg og almenningur og stjórnarandstaðan hélt fram. En nú er komið í ljós að í dönskum stjórnmálum hélt ákvörðun Ellemann-Jensen ekki. Hann gat frestað hinu óhjákvæmilega í tvo mánuði og einn dag. Þá tók hann poka sinn og sagði af sér öllum trúnaðarstörfum eins og hefðin er í stjórnmálum siðaðra landa.
Bjarni situr því einn eftir meðal stjórnmálafólks í okkar heimshluta sem ekki axlar ábyrgð þegar umboðsmaður Alþingis segir hann hafa selt eigur almennings vanhæfur og ekki sinnt stjórnunar- og eftirlitsskyldum sínum. Bjarni var ekki einsdæmi í rúma viku, en er það nú.