Frá 2010 hefur fasteignaverð á Íslandi hækkað fimmfalt meira en í ESB, leiguverð sjöfalt

Evrópska hagstofan Eurostat birti ný gögn um fasteigna- og leiguverð í dag, þriðjudag. Þar kemur fram að á öðrum ársfjórðungi þessa árs hækkaði húsaleiga í álfunni yfir tvöfalt meira en fasteignaverð, eða um 0,7 prósent milli ársfjórðunga, samanborið við 0,3% hækkun á kaupverði.

Þessi þróun á tímabili nokkurra mánaða segir þó ef til vill minni sögu en það stærra samhengi sem hún stendur í. Undanliðin ár hefur fasteignaverð hækkað umtalsvert meira en húsaleiga í álfunni. Tímabilið frá 2010 skiptist í tvennt að þessu leyti: frá 2010 lækkaði fasteignaverð nokkuð á meðan leiguverð hélt áfram að rísa, hægt og bítandi. Viðsnúningur varð á fasteignaverði um 2014–2015, þegar það tók að rísa á ný og það umtalsvert hraðar en leiga. Síðan þá hefur fasteignaverð hækkað umfram leiguverð öll ár fram til 2022, þegar fasteignaverð í álfunni lækkaði en leiguverð hélt áfram sinni hægu en stöðugu siglingu upp á við.

Yfir 200% hækkun á Íslandi og í Eistlandi, en 46% í ESB

Í það heila litið, yfir tímabilið frá 2010 fram á mitt þetta ár, hækkaði fasteignaverð í löndum Evrópusambandsins um 46 prósent en leiguverð um 21 prósent. Umtalsverður munur var þó á þessari þróun milli landa. Í Eistlandi hefur hækkun á báðum sviðum verið sú mesta í álfunni: bæði fasteignaverð og leiga þrefaldaðist á tímabilinu.

Húsnæðismarkaðurinn í Eistlandi virðist sá innan landa Evrópusambandsins sem næst kemst Íslandi í þessari þróun – eða Stór-Reykjavíkursvæðinu, að minnsta kosti: Vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu stóð í 291,7 í febrúar 2010 en var 970 um mitt þetta ár. Fasteignaverð á svæðinu hefur því hækkað um 230% prósent eða 3,3-falt á tímabilinu. Það er akkúrat fimmfalt meiri hækkun en sú 46% hækkun sem varð innan ESB-landanna að meðaltali á sama tímabili.

Þá hefur vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 140 prósent frá janúar 2011, nokkru minna en fasteignaverð á svæðinu, en um sjöfalt meira en hlutfallshækkun leiguverðs í löndum ESB. Hafa verður þann fyrirvara á þessum gögnum um leiguverð að íslenska vísitalan miðar aðeins við þinglýsta leigusamninga.

Í Þýskalandi hækkaði leiga aðeins um fjórðung hækkana á fasteignum

Til frekari samanburðar hækkaði fasteignaverð í Þýskalandi um yfir 75% en leiguverð aðeins um 20%, á þrettán ára tímabili. Í gögnum Eurostat er ekki gerð tilraun til greiningar á orsakasamhengi, en vitað er að stjórnvöld víða í Þýskalandi hafa lagt sig í lima við að stemma stigu við hækkunum á húsaleigu með fjölbreyttum aðgerðum, allt frá takmörkun eða banni viðskammtímaleigu yfir í leiguþak. Helmingur íbúa landsins býr í leiguhúsnæði.

Forvitnilegt er einnig að líta til hinnar rólegri þróunar markaða í nokkrum löndum: í Danmörku, Frakklandi og Belgíu hefur hækkun fasteignaverðs á þessu 13 ára tímabili verið undir 50 prósentum og hækkun leiguverðs enn minni.

Heimildir: Eurostat, HMS og Þjóðskrá.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí