„Til að fá einn miða þurfti ég að reiða fram tvö gjafakort og reyndar gott betur. Blásið var á athugasemdir mínar um að í gjafabréfinu stæði að ég ætti að fá einn miða á sýningu að eigin vali. Kona á besta aldri sem afgreiddi mig tjáði mér að gjafakortin væru ekki verðtryggð en jafnvel því sýndi ég lítinn skilning þar sem ekki var tiltekin nein sérstök upphæð á kortunum heldur aðeins einn miði á sýningu að eigin vali. Það varð mér sennilega til bjargar að verða ekki snúinn niður og járnaður á staðnum að nefnd kona var einstaklega geðug með húmorinn í lagi og hló hún bara að þessum nöldrara sem taldi sig hlunnfarinn.“
Þetta skrifar Örn Gunnlaugsson í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Örn lýsir þar hvernig hann hafi setið uppi með nokkurn fjölda gjafabréfa í Borgarleikhúsið, flest frá móður sinni heitinni. Hún hafði líkt og svo margir endað á því að gefa þeim sem ekkert vildu í jólagjöf miða í leikhús. Þar á meðal var Örn en hann gagnrýnir harðlega hvernig jólin hafa verið tekin yfir af markaðsöflum, með þeim afleiðingum að margir líta á það sem skyldu að gefa fólki óþarfa drasl.
„Nú er í uppsiglingu mikil vertíð hjá trúboði Mammons og verður gríðarlegur fyrirgangur í lærisveinum hans eins og ávallt í aðdraganda jólanna. Trúboðar þessir eru snillingar í að telja okkur sauðsvörtum almúganum trú um að ekki bara okkur sjálf bráðvanti alls kyns óþarfa heldur að okkar nánustu vanhagi einnig um alls kyns drasl sem upplagt sé að kaupa í jólagjafir. Svo rammt kveður að sannfæringarkrafti trúboðanna að þeim tekst oftar en ekki að sannfæra okkur um að detti okkur ekkert sniðugt í hug þá sé upplagt að kaupa gjafakort sem þiggjandinn geti notað til að kaupa þann óþarfa sem okkur hefur yfirsést að hann vantaði svo sárlega,“ skrifar Örn.
Hann segir að móðir sín hafi verið skyldurækin og því ekki viljað heyra það þegar Örn baðst undan því að fá gjafir. Millivegur var þó fundinn, með fyrrnefndum afleiðingum. „Nú tók gjafakortatímabilið við hjá móður minni sem greip í þetta haldreipi ekki aðeins á jólunum heldur öllum tilefnum sem hægt var að finna upp á. Gjafakort í Borgarleikhúsið voru henni sérstaklega hugleikin og færði hún nú sínum nánustu heilu umslögin bólgin af þessum kortum við hvert tækifæri. Slíkur var fjöldi þessara korta að ég og eiginkona mín komumst engan veginn yfir að nýta þau áður en önnur birtust og því safnaðist þetta upp hjá okkur. Nú, fjórum árum frá því að sú gamla kvaddi þennan heim, eigum við enn dálítinn bunka sem við erum að reyna að nýta upp. Trúboðar Mammons náðu mömmu nefnilega algjörlega og átti hún mikil viðskipti við Borgarleikhúsið þá daga sem hún átti eftir meðal okkar hér,“ segir Örn.
Að lokum segist Örn í dag afþakka öll gjafakort og bendir á að reiðufé er ávallt besta gjöfin. Og helst í öðrum gjaldmiðli en krónu. „Einu alvörugjafakortin eru í raun bandaríkjadollarar sem breyta má í verðmæti alls staðar í heiminum. Nú vil ég koma því á framfæri að hvað mig varðar þá eru blóm, kransar og gjafabréf afþökkuð en þeim sem vilja gleðja mig bent á bágstadda. En kannski voru gjafakort mömmu frá Borgarleikhúsinu ógalin og slungin leið hjá henni til að láta muna eftir sér um ókomna framtíð. Að minnsta kosti kemur sú gamla alltaf ljóslifandi upp í hugann þegar ég sé þessi gjafakort.“