Rétt undir miðnætti að kvöldi fimmtudags, að staðartíma, fengu fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sem annast mannúðarmál og öryggi á Gasa upplýsingar um þau fyrirmæli frá Ísraelsher að 1,1 milljón manns skuli færa sig úr norðurhluta svæðisins til suðurhluta þess innan sólarhrings. Stephane Dujarric, fulltrúi SÞ, sagði í tilkynningu að slíkir flutningar væru ekki mögulegir án hrikalegra afleiðinga og skoraði á Ísrael, ef fyrirmælin eru í reynd ósvikin, að afturkalla þau.
Upplýsingar um tilmælin bárust fjölmiðlum að morgni föstudags. Tilmælin ná til allra sem búa eða eru staddir á svæðinu norðan við verndarsvæðið Wadi Gaza, þar á meðal til allra íbúa Gasa-borgar sjálfrar, ásamt starfsfólki SÞ, heilbrigðisstarfsfólki og öðrum nærstöddum.
Uppfært
Ísraelsher tilkynnti á föstudagsmorgun um rýmingu Gaza-borgar og gaf tilmæli til allra íbúa hennar um að flytja sig suður á við, „í þágu ykkar eigin öryggis.“ Að sögn The Guardian virðast fyrirmælin ekki eiga við um íbúa á öllum svæðum í norðurhluta Gaza, heldur aðeins borgina. Ekki er fyllilega ljóst, þegar þetta er skrifað, hvað það þýðir um mannfjöldann sem á í hlut eða hvort það breytir einhverju um mat Sameinuðu þjóðanna á fyrirmælunum.