Að loknum mánudeginum, þriðja degi þeirra átaka sem hófust með árás Hamas-liða á Ísrael undanliðna helgi, lét Mannúðaraðstoð SÞ vita að talið væri að yfir 180 þúsund íbúa Gasa hefðu flúið heimili sín. Gert er ráð fyrir að þeim fjölgi.
Ísraelar héldu til streitu víðtækum loftárásum á Gaza en Abu Ubaida, talsmaður vopnaðra sveita Hamas, lét frá sér yfirlýsingu um að fyrir hverja árás sem gerð væri á heimili óbreyttra borgara í Gasa myndu samtökin taka einn óbreyttan borgara úr hópi gíslanna af lífi, og það yrði gert í beinni útsendingu. Moussa Abu Marzouk, annar talsmanna Hamas, var spurður að því í símaviðtali við Al Jazeera hvort samtökin væru tilbúin að fallast á vopnahlé. Hann svaraði því til að þau væru opin fyrir „einhverju þess háttar“ og fyrir „öllum pólitískum viðræðum.“ Þá bætti Marzouk því við að meðal þeirra um 120 gísla sem samtökin hafa undir höndum væru tugir fólks með tvöfalt ríkisfang, meðal annars rússneskir og kínverskir ríkisborgarar.
Helstu viðburðir frá laugardegi
Laugardaginn 7. október gerðu Hamas-liðar árás á byggðir og óbyggðir Ísrael, sem urðu að minnsta kosti um 900 manns að bana. Árásin var gerð úr lofti og á landi, þar sem liðsmenn samtakanna drápu meðal annars um 260 unga gesti tónlistarhátíðar. Þá fundust á mánudag um 100 lík í þorpi sem nefnist Be’eri, samfélagi um lífræna ræktun og fjölmenningu.
Á aðfaranótt sunnudags brást Ísrael við með árásum á hundruð skotmarka á Gasa. Á sunnudeginum lýsti öryggisráð landsins formlega yfir stríði og kallaði Ísraelsher til 300.000 manna varalið. Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, lýsti yfir „algjöru“ umsátri Gasa, lokaði fyrir rafmagn til svæðisins og sagði að hvorki matvælum né eldsneyti yrði hleypt þangað.
Aðfaranótt mánudagsins réðst Ísraelsher á 500 skotmörk á Gasa, þar á meðal Jabalia flóttamannabúðirnar. Þegar mánudagurinn leið að kvöldi höfðu aðgerðir Ísraels frá því um helgina orðið minnst 704 Palestínumönnum á Gasa og Vesturbakkanum að bana, að sögn Al Jazeera.
Ávörp ráðamanna Ísraels
Á mánudeginum sagði Netanyahu að viðbrögð Ísraels við árásum Hamas myndu „breyta Mið-Austurlöndum“ og aðgerðir ríkisins væru rétt að byrja. Í myndbönduðu ávarpi sem birtist á X/twitter sagði hann að Hamas yrði ljóst að þau hafi gert söguleg mistök með árás sinni, Ísrael muni láta þá gjalda það verði sem „verður þeim og öðrum óvinum Ísraels minnisstætt til áratuga.“ Hann sagði árásir Hamas hafa verið villimannslegar.
Isaac Herzog, forseti Ísraels, gekk lengra í sínu ávarpi og sagði Hamas-liða vera skrímsli. Hann líkti Hamas við hryðjuverkasamtökin ISIS og kallaði athafnir þeirra, með áherslu: „villimennsku skrímsla – ekki mannfólks – skrímsla.“ Hann sagði stjórnvöld Netanyahu forsætisráðherra, ísraelska herinn og öryggisstofnanir hafa allan stuðning sinn. Erindið endurtók hann sem ávarp til alþjóðasamfélagsins, með nokkrum breytingum, í grein sem birtist á vef bandaríska tímaritsins Time. Forsetinn sagði að svo margir gyðingar hefðu ekki verið drepnir á einum degi síðan í helförinni. „Og við höfum ekki síðan í helförinni orðið vitni að senum þar sem konum, börnum, öfum og ömmum, jafnvel eftirlifendum helfararinnar, hefur verið smalað í pallbíla og þau tekin til fanga.“
Netanyahu þakkaði Bandaríkjaforseta fyrir óhvikulan stuðning sinn. Sama dag birtist yfirlýsing frá Joe Biden, Bandaríkjaforseta, um samstöðu með Ísrael, þar sem hann sagði meðal annars: „Landslýður Bandaríkjanna stendur öxl við öxl með Ísraelum,“ og dró upp samsvörun við hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001: „Við munum sársauka þess að verða fyrir árás hryðjuverkamanna heima fyrir,“ sagði hann meðal annars.
Stuðningur Vesturlanda við Ísrael
Í öryggisráði SÞ, sem fundaði bakvið luktar dyr á mánudag, fóru fulltrúar Bandaríkjanna fram á að öll fimmtán ríki ráðsins gæfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau fordæmdu „hina skelfilegu hryðjuverkaárás sem Hamas hefði framið“ en úr því varð ekki. Að fundinum loknum sagði sendiherra Rússlands innan SÞ, Vassily Nebenzia, að Bandaríkjamenn hefðu viljað halda því fram að Rússland hefði staðið í vegi fordæmingarinnar, en það væri ekki satt. „Við fordæmum allar árásir á óbreytta borgara,“ sagði Nebenzia.
Leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands létu hins vegar frá sér sameiginlega yfirlýsingu, þar sem þau sögðust vilja gera ljóst að „hryðjuverk Hamas eiga sér enga réttlætingu, ekkert lögmæti, og öllum ber að fordæma þau. Hryðjuverk eru aldrei réttlætanleg.“ Löndin sögðust myndu styðja Ísrael í „viðleitni sinni til að verja sig og lýð sinn gegn slíkum ódæðum.“ Þá sögðust þau viðurkenna lögmæta viðleitni Palestínumanna og „styðja til jafns rétlæti og frelsi Ísraela og Palestínumanna“ en Hamas sé ekki fulltrúi þeirrar viðleitni og bjóði Palestínufólki „ekkert nema ógn og blóðbað.“ Ríkin sögðust vera samstíga í að tryggja að „Ísrael fái varið sig og setji skilyrðin fyrir friðsamlegu og samþættu svæði Mið-Austurlanda.“
Viðvaranir um afmennskun
Al Jazeera ræddi við Omar Rahman, sérfræðings við stofnunina Middle East Council on Global Affairs, með aðsetur í Katar. Rahman sagði stuðning ofangreindra ríkja fela í sér grænt ljós fyrir Ísrael til að fremja stríðsglæpi í Palestínu. „Það hefur verið alveg grænt ljós, engin tilraun til að takmarka hvað Ísrael reynir að gera, þrátt fyrir greinileg ummerki um stríðsglæpi nú þegar, að varpa sprengjum án aðgreiningar, sprengja upp skóla, sjúkrahús, moskur og borgaralega innviði – staði þar sem fólk leitar skjóls. Og ráðamenn kalla eftir stríðsglæpum, að beitt verði efnavopnum, afmennska Palestínumenn, kalla þá skepnur í mannsmynd og lýsa því yfir opinskátt hvað þeir hyggjast gera hérna,“ sagði hann, „en það hefur ekki verið nein krafa um að þeir haldi aftur af sér, enginn þrýstingur um viðræður, og það er afar óheppilegt.“
Orð forsætisráðherra og forseta Ísraels, á mánudag, um „villimenn“ og „skrímsli“, bættust við þau ummæli varnarmálaráðherrans Yoav Gallant á sunnudag, að Ísrael ætti í baráttu við „skepnur í mannsmynd“. Al Jazeera ræddi við mannréttindalögfræðinginn Nouru Erakat, prófssor við Rutgers háskóla, sem sagði ráðherrann, með þessu orðfæri, búa áheyrendur undir afmennskun Palestínumanna, „að gera ráð fyrir að þeir deyi, ef ekki að fagna drápum og fjöldadauða þeirra.“
Viðvaranir um frekari hörmungar
António Guterres, aðalritari SÞ, beindi sjónum sérstaklega að óbreyttum borgurum bæði í Ísrael og á Gasa, ítrekaði fyrri fordæmingu á árás og gíslatökum Hamas-liða, en varaði einnig við hættunni á fleiri dauðsföllum meðal saklausra. Samtökin Human Rights Watch sögðu fyrirmælin um „algjört umsátur“ Gasa vera „viðurstyggileg“ og kölluðu eftir því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag gerði athugasemd við þá yfirlýsingu um fyrirhugaðan stríðsglæp.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) sagði að Ísrael hefði gert ellefu loftárásir á heilbrigðisinnviði, þ.e. á aðstöðu á við sjúkrahús og heilsugæslu, sjúkrabíla og umönnunaðila, fyrsta einn og hálfan sólarhring átakanna á Gasa. Stofnunin brýndi mikilvægi þess að koma upp tryggum samgöngum við svæðið í mannúðarskyni. Þá sagði Samhæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) að tjón sem unnið hefði verið á innviðum vatns og hreinlætis í Gasa hefði þegar hindrað þjónustu við yfir 400 þúsund manns.
Og þvert á fyrri yfirlýsingar ráðamanna í Þýskalandi, meðal annars, mæltist Charles Michel, forseti Evrópska ráðsins, gegn því að Evrópulönd hættu fjárhagsstuðningi við Palestínsk yfirvöld. „Við megum ekki klippa á brýnan þróunar- og mannúðarstuðning við óbreytta palestínska borgara. Það myndi Hamas nýta sér til að kynda undir spennu og hatur,“ sagði hann.