Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 5,2% á öðrum ársfjórðungi

Dýrtíðin 2. okt 2023

Áætlað er að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna á mann hafi dregist saman um 5,2% á öðrum ársfjórðungi 2023 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á árinu 2022 dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna á mann saman um 0,1% samanborið við árið 2021.

Hagstofan birtir nú niðurstöður tekjuskiptingaruppgjörs fyrir alla fimm megingeira íslenska hagkerfisins og fyrir útlönd árið 2022 ásamt ársfjórðungslegum bráðabirgðaniðurstöðum heimilageirans fyrir annan ársfjórðung 2023. Hvorugt uppgjörið felur í sér nýtt mat á vergri landsframleiðslu í heild eða helstu undirliðum hennar heldur eru þau byggð á niðurstöðum ráðstöfunar- og framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga þar sem lögð er áhersla á að skrá verðmætastrauma á milli megingeira hagkerfisins.

Aukin verðbólga skýrir minni kaupmátt ráðstöfunartekna á öðrum ársfjórðungi
Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilageirans hafi aukist um 7,3% á öðrum ársfjórðungi 2023 borið saman við sama ársfjórðung í fyrra. Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,3 milljónum króna á ársfjórðungnum og hafi aukist um 3,8% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hins vegar saman um 5,2% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 9,4% á sama tímabili.

Heildartekjur heimilanna jukust um tæplega 11,6% á öðrum ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Sá liður sem vegur hvað þyngst í aukningu heildartekna eru launatekjur en þær jukust um tæp 12%. Áætlað er að eignatekjur hafi aukist um 31% frá sama ársfjórðungi í fyrra sem skýrist að mestu af auknu vaxtastigi en áætlað er að vaxtatekjur hafi aukist um tæp 60% á tímabilinu. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 6,4% sem skýrist að mestu leyti af hækkun lífeyristekna um 20% á tímabilinu.

Heildargjöld heimilanna jukust um 17,2% á öðrum ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Skattgreiðslur jukust um 12% og er áætlað að tryggingagjöld hafi aukist um 8% á tímabilinu. Eignagjöld jukust um 59,1% á öðrum ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra en vaxtagjöld um 61,3% sem einkum skýrist af miklum vaxtahækkunum á tímabilinu.

Ofangreindar niðurstöður eru skilgreindar sem bráðabirgðaniðurstöður en Hagstofan mun birta endurskoðaðar niðurstöður þegar fyrir liggja endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila dróst saman um 0,1% árið 2022
Hagstofan birti bráðabirgðaniðurstöður vegna ársins 2022 í mars á þessu ári og birtir nú endurskoðaðar niðurstöður. Samkvæmt þeim dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilageirans saman um 0,1% á árinu 2022. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 8,2% og ráðstöfunartekjur heimilageirans í heild um 11%. Heildartekjur heimilageirans jukust um 13,6% en heildargjöld jukust um 17,2% á milli áranna 2021 og 2022.

Árið 2022 jukust launatekjur heimilanna um 15,3% frá fyrra ári en skattar á laun jukust hins vegar um 9,2% á sama tímabili. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur stóðu í stað á milli áranna 2021 og 2022 en þar má helst nefna að Lífeyrir og tekjutilfærslur frá Almannatryggingum vega á móti hvort öðru en Lífeyrir er að hækka um 11,3% á meðan tekjutilfærslur frá Almannatryggingum eru að lækka um 9,1%.

Samhliða birtingu niðurstaðna fyrir árið 2022 hafa niðurstöður fyrri ára verið endurskoðaðar að hluta. Samhliða uppfærðum tölum var einnig endurskoðaður liður D.613 (Tryggingagjöld launþega) og D.611 (Tryggingagjöld vinnuveitenda) frá árinu 2015.

Frétt af vef Hagstofunnar.

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 3. október 2023 frá upprunalegri útgáfu. Villa var í útreikningum á kaupmætti ráðstöfunartekna á mann fyrir árið 2022. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 0,1% árið 2022 sem er breyting frá upprunalegri útgáfu þar sem talið var að kaupmáttur á mann hefði aukist um 2,4% á árinu. Rýrnun kaupmáttar á mann á árinu 2022 hefur áhrif á áætlun kaupmáttar ráðstöfunartekna á fyrri helming ársins 2023. Þannig er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann á öðrum ársfjórðungi 2023 hafi dregist saman um 5,2% í stað 6,1% í áður birtum tölum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí