Ef íslenskir karlar væru jafn vel menntaðir og tíðkast í OECD þyrfti ekki að flytja inn 7.500 sérfræðinga, segir ráðherra

Education at a Glance 2023, ný skýrsla OECD um menntamál, leiðir í ljós að óvíða meðal OECD-landa eru fleiri karlar aðeins með grunskólapróf en á Íslandi, og aðeins á íslandi, í Suður-Kóreu og Póllandi fór hlutfall háskólamenntaðra meðal karla lækkandi frá 2015 til 2022. Þetta var meðal þess sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vakti athygli á, á „sjávarútvegsdeginum“ sem haldinn var á miðvikudag, sem eins konar stefnumót stjórnvalda og forsprakka sjávarútvegsfyrirtækja.

Áslaug Arna sagði að þetta lága hlutfall ungra karlmanna sem lokið hafa háskólanámi sé eina ástæða þess að Ísland er eftirbátur annarra OECD-landa þegar kemur að fjölda háskólamenntaðs ungs fólks, enda hefur háskólamenntuðum konum fjölgað á sama tíma. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins um erindi Áslaugar segir að rekja megi 13% hækkun á hlutfalli karlkyns umsækjenda um nám í Háskóla Íslands nú í haust til sérstaks átaks stjórnvalda í þeim efnum, sem bar yfirskriftina „Heimurinn stækkar í háskóla.“ Enn á Ísland þó langt í land til að standast samanburð við önnur ríki OECD, segir í tilkynningunni, sér í lagi við Norðurlöndin.

Hlutfall 25–34 ára karla með háskólagráðu í löndum OECD. Stöplaritið fylgdi fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Frá 2015–2022 hækkaði hlutfall þeirra lokið hafa háskólnámi úr 46% í 55% meðal kvenna, en aðeins úr 38% í 41% meðal karla. Ráðuneytið segir að í öllum öðrum OECD-löndum, að Póllandi undanskildu, ljúki nú bæði karlar og konur háskólanámi í auknum mæli.

Menntunarstig karla alvarlegt efnahagsmál

Þá er hlutfall þeirra karla sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi hátt á Íslandi í þessum samanburði, raunar tvöfalt hærra en meðaltal OECD-ríkjanna: 31% íslenskra karla hafa aðeins lokið grunnskólaprófi en 16% karla OECD-ríkjanna í heild. Það bil hefur breikkað síðan 2015, þegar 32% íslenskra karla höfðu sama menntastig, en 19% karla innan OECD. Á sama tíma hefur hlutfall þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi lækkað meðal íslenskra kvenna, úr 21% í 14%.

Áslaug Arna segir menntunarstig íslenskra karla vera „grjóthart efnahagsmál“ sem beri að horfast í augu við af fullri alvöru. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er vitnað til erindis sem hún hélt á Iðnþingi fyrr á þessu ári. Þar sagði ráðherrann: „Þörf er á 9.000 sérfræðingum í hugverkaiðnaði á næstu árum sem hefur áhrif á allt atvinnulífið.“ Hún sagði það eitt af mikilvægustu verkefnum sínum að sjá til þess að mannauður hamli ekki vaxtartækifærum landsins. „Ef hlutfall ungra karla á Íslandi sem lokið hafa háskólanámi væri í takt við meðaltal OECD væru spár um þörf á sérfræðingum á næstu fimm árum töluvert öðruvísi. Hærra hlutfall háskólamenntaðra ungra karla myndi bera með sér um 7.500 nýja sérfræðinga af þeim 9.000 sem vantar eins og staðan er í dag.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí