Þær sögulegu verkfallsaðgerðir bandaríska stéttarfélagsins UAW sem staðið hafa undanliðnar sex vikur, gegn þremur stórum bílaframleiðendum samtímis, virðast nú hafa skilað árangri og vera í þann mund að ljúka: stéttarfélagið hefur náð samningum við alla þrjá bílaframleiðendurna. Samningarnir verða bornir undir atkvæði félagsmanna áður en þeir taka gildi, en gert er ráð fyrir að þeir verði samþykktir, enda er litið á þá sem umtalsverðan sigur fyrir stéttarfélagið.
Í liðinni viku greindi Samstöðin frá þeim samningum sem náðst höfðu við Ford, um 25 prósenta launahækkun á næstu fjórum árum, og fleiri kjarabætur. Samningar við General Motors og Stellantis Jeep virðast taka mið af Ford-samningnum og vera á sama bili.
Til viðbótar við umræddar kjarabætur eru ákvæði í samningunum sem á ensku nefnast cola-ákvæði: Cost-of-living-adjustments, eða tenging við framfærslukostnað. Um er að ræða ákvæði til verðtryggingar sem tíðkuðust í samningum stéttarfélagsins við bílaframleiðendurna, áratugum saman, allt fram að efnahagskreppunni árið 2008, þegar félögin féllust á að afnema slík ákvæði, í ljósi yfirstandandi rekstrarerfiðleika. Þau hafa nú verið endurheimt.
Slík verðtrygging var afar útbreidd í samningum bandarískra stéttarfélaga á seinni hluta 20. aldar. Í umfjöllun USA Today má lesa að árið 1976 hafi 61% bandarískra kjarasamninga innihaldið cola-ákvæði, að meðtöldum samningum UAW við bílaframleiðendurna þrjá. Eftir því sem stéttarfélögin veikluðust, þegar leið undir lok aldarinnar, fækkaði þessum ákvæðum, og fundust aðeins í 22% bandarískra kjarasamninga árið 1995. Endurheimt slíkra ákvæða er höfð til marks um aukinn styrk bandarískra stéttarfélaga um þessar mundir.