Eftir sex vikna verkfall semur UAW við Ford um 25% launahækkanir

Stærsta séttarfélag starfsfólks í bandarískum bílaiðnaði, United Auto Workers (UAW), náði á miðvikudagskvöld samkomulagi við stjórnendur Ford, einn þriggja framleiðeinda sem verkfallsaðgerðir stéttarfélagsins undanliðnar sex vikur hafa beinst að. Samkomulagið tekur ekki gildi fyrr en meðlimir félagsins hafa kosið um það, en samkvæmt fyrstu fréttum hefur verkfallið skilað verulegum árangri í viðræðunum.

Hjá Ford starfa 57 þúsund meðlimir í UAW. Samkvæmt því sem haft var eftir Chuck Browning, varaforseta UAW, í fréttum á miðvikudagskvöld kveður samningurinn á um 25% launahækkun á því fjögurra ára tímabili sem samningurinn nær til. Launahæstu starfsmenn munu fá 40 dali í tímakaup, eða um 5.600 íslenskar krónur. Laun starfsfólks á skammtímasamningum munu hækka um yfir 150% á samningstímanum. Þá munu laun allra félagsmanna UAW hækka um 11% strax við gildistöku samningsins.

Browning sagði að umsamdar beinar launahækkanir væru meiri á næstu fjórum árum en áunnist hefðu síðustu 22 ár samanlagt.

Önnur ákvæði í samningnum fela meðal annars í sér bætt lífeyriskjör, auk þess sem kveðið er á um rétt starfsfólks til að bregðast við lokunum verksmiðja með verkföllum. „Það þýðir að þeir geta ekki haldið áfram að leggja samfélög okkar í rúst og loka verksmiðjum afleiðingalaust,“ sagði Browning.

GM og Stellantis, hinir bílaframleiðendurnir tveir sem verkfallsaðgerðir UAW hafa beinst gegn, létu frá sér tilkynningu skömmu eftir að fréttist af samningnum við Ford, þar sem fyrirtækin sögðust vinna að samningum sem þau vonuðust til að ljúka innan skamms.

Biden Bandaríkjaforseti, sem hafði bæði lýst yfir stuðningi við verkfallsaðgerðirnar og sýnt stuðning sinn með því að mæta til verkfallsvörslu, gaf út tilkynningu á miðvikudagskvöld þar sem hann sagðist fagna því að náðst hefði samkomulag sem „hjálpaði fyrirtækjum að ná árangri og tryggði um leið verkafólki laun og fríðindi sem duga til að ala önn fyrir fjölskyldu og setjast í helgan stein með reisn og virðingu.“

Heimild: CBS News.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí