„Engin góð lausn er til á því ástandi sem nú er í Mið-Austurlöndum en liður í henni er að uppræta Hamas. Þó að sú leið sé sársaukafull vegna framgöngu hryðjuverkasamtakanna er hún eina vonin um raunverulegan frið og bjartari framtíð fyrir íbúa svæðisins,“ skrifar Davíð Oddsson ritstjóri og fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins í leiðara dagsins.
„Vesturlönd ættu ekki að taka undir með hryðjuverkasamtökunum og yfirboðurum þeirra í Íran um að nú verði Ísraelsmenn að leggja niður vopn,“· bætir hann við og tekur undir með ríkisstjórn Bandaríkjanna sem greiddi atkvæði gegn mannúðarvopnahléi á Gaza.
Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Davíð setti Ísland á lista viljugra stuðningsþjóða sprengjuárása og innrásar Bandaríkjahers inn í Íraks í kjölfar hryðjuverkaárása á tvíburaturnana í New York, þótt Írak hafi ekkert komið þeim árásum við. Né Afganistan, sem Bandaríkjaher réðst líka inn í og herjaði á í tuttugu ár án nokkurs tilefnis eða árangurs. Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn studdi þann hernað eins og flokkurinn hefur stutt allt sem Bandaríkjaher hefur tekið sér fyrir hendur undanfarna áratugi.
Í Reykjavíkurbréfi sunnudagsins var Davíð líka með heróp og hvatti Ísraelska herinn til að ryðjast sem fyrst inn á Gaza: „Og sprengjudrunurnar sem síðdegis á föstudag bárust frá landamærum Ísraels og Gasa benda nú eindregið til þess að undirbúningi aðgerða þar sé loksins að ljúka. Og komið sé að skuldadögunum. Líklegt er að það hafi áhrif á að ekki skuli bíða mikið lengur að kröfurnar um vopnahlé í þágu þess aðilans sem árásirnar hóf halda áfram og ekki síst á Vesturlöndum. Hætt er við að þeir stjórnmálamenn á þeim slóðum, sem veikastir eru fyrir, grípi þann málstað á lofti, þótt ósanngjarn sé. Því fyrr sem Ísraelsmenn hefjast handa því betra og líklegra er það einnig til árangurs.“
Þarna er yfirstandandi og yfirvofandi þjóðarmorði fagnað og árás Ísraels stillt upp sem eins konar krossferð eins og George Bush skilgreindi hernað sinn gegn þjóðum Islam. Hugsunin er sú að ef hryðjuverkamenn eru brúnir og Islamtrúar megi sprengja og myrða allt fólk sem er brúnt og frá löndum Islam. Öll Palestínska þjóðin beri sameiginlega ábyrgð á hryðjuverkum hernaðararms Hamas og skulu gjalda fyrir það, ekki bara sjö sinnum heldur sjötíu og sjö sinnum.
Þetta er yfirborðsréttlætingin sem Davíð boðar. Að baki eru auðvitað hráir hagsmunir bandarískra auðhringja, sem ríkisstjórn og her Bandaríkjanna ver um allan heim.
Davíð er ekki að tala út í tómið. Afstaða hans hefur hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins og innan. forystu hans. Og það er þessi afstaða sem veldur því að Ísland greiddi atkvæði eins og gert var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkisnefndar Alþingis, réttlætti þessa afstöðu á Sprengisandi í gær.