Það virðist ekki ríflegt að ætla að um þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælafundi á Austurvelli á sunnudag, undir yfirskriftinni „Stöndum með Palestínu!“ Í fundarboðinu mátti lesa: „Ekki í okkar nafni! Við stöndum með palestínsku þjóðinni og fordæmum þá stríðsglæpi sem framdir eru af ísraelskum stjórnvöldum.“
Yfir vellinum blakti fjöldi palestínskra fána, auk fána frá Húmanistaflokknum. Á skiltum og borðum mátti meðal annars lesa „STÖÐVIÐ STRÍÐSGLÆPINA“, „STÖÐVUM BLÓÐBAÐIГ, „Frið í Palestínu!“, „RJÚFIÐ HERKVÍNA“, „ÍSRAELSHER BURT ÚR PALESTÍNU!“, „HÆTTIÐ AÐ VOPNA ÍSRAELSHER“, „FRJÁLS PALESTÍNA“, „ALÞJÓÐLEGA VERND FYRIR PALESTÍNUMENN“ og „MENNSKA FRAMTÍГ. Ungur maður í samfestingi minnti á að „HELMINGUR ÍBÚA GAZA ERU BÖRN!“.
Í máli ræðumanna var meginkrafan sú að ísraelsk stjórnvöld fremji ekki frekari ódæði á Gasa, en um leið var skorað á íslensk stjórnvöld að fordæma aðgerðir Ísraels og gera sitt ítrasta til að hindra frekara blóðbað.
Hjálmtýr Heiðdal sagðist hafa lesið í fjölmiðlum að gyðingar á Íslandi þyrðu ekki að tjá hug sinn í þessu samhengi. Hann sagði að þeir hefðu ekkert að óttast, stuðningsfólk Palestínu á Íslandi væru mannréttindasinnar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist lúta höfði í skömm yfir því að ekkert afl væri lengur til staðar sem tæki stöðu gegn hernaði Ísraels, það væri til einskis að biðla til íslenskra stjórnmálaflokka eða stjórnmálafólks, ekkert væri eftir nema að leita til almættisins og biðja Guð að koma í veg fyrir frekari hörmungar. Að því sögðu leiddi hún fundarmenn í bæn. Ræðu Sólveigar lauk á ósk um frjálsa Palestínu, „frá ánni niður að hafinu“.
Ögmundur Jónasson flutti reiðilestur sem gustaði af. Ögmundur sagðist taka undir fordæmingu íslenskra stjórnvalda á morðunum sem Hamas-liðar frömdu í Ísrael, en sagðist um leið fordæma að íslensk stjórnvöld leyfi sér „að leggja blessun yfir grimmdarverk, morð og eyðileggingu Ísraelshers, ofbeldi á hendur saklausum borgurum, heilu samfélagi“.
„Því það hafið þið gert. Þið getið ekki þvegið hendur ykkar af blóði þessa fólks,“ sagði Ögmundur. Þá sagði hann að íslensk stjórnvöld yrðu að setja fram afdráttarlausar kröfur um að „árásarstríði Ísraelshers verði hætt þegar í stað“, „ólöglegar landránsbyggðir“ lagðar af, þau landamæri virt „sem Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft ályktað um“, „stærsta fangelsi heimsins, Gasasvæðið“ opnað og aðskilnaðarstefnan aflögð.
„Aldrei hefðu menn vogað sér,“ sagði Ögmundur, „að segja að kynþáttastjórnin í Suður-Afríku hefði átt rétt á að verja sig með því að ráðast enn harðar að svörtu fólki, ekki bara ANC hreyfingu þeirra Nelsons Mandela og Desmonds Tutu – nei, gegn öllu svörtu fólki, bara muna að það verði gert af mannúð! Með öðrum orðum, að hinir sjúku fái ráðrúm til að yfirgefa sjúkrahúsin skipulega áður en sprengt er við sólarupprás.“
Samtökin fimm sem boðuðu til mótmælanna voru Andóf, BDS Ísland, hjálparsamtökin Solaris, Refugees in Iceland og No Borders Iceland.