Að morgni þessa mánudags var tilkynnt um nóbelsverðlaunahafa í læknisfræði. Katalin Karikó og Drew Weissman fá verðlaunin í ár fyrir þær grundvallarrannsóknir á virkni RNA-erfðaefnis sem gerðu meðal annars mRNA bóluefni möguleg, þau sem víðast eru notað til varna gegn Covid-19 og hafa bjargað milljónum mannslífa.
Katalin Karikó, annar nóbelsverðlaunahafanna, ólst upp í 12 þúsund manna bænum Kisújszállás í Ungverjalandi. Faðir hennar var kjötiðnaðarmaður, móðir hennar bókasafnsvörður. Þau höfðu svín í garðinum. Katalin skaraði fram úr í raunvísindagreinum í skóla, lauk doktorsgráðu við Háskólann í Szeged, og starfaði eftir það um hríð við rannsóknarstofnun í Ungverjalandi. Í sjö ár var hún einnig á skrá sem uppljóstrari á vegum ungversku leynilögreglunnar. Hún segist hafa verið þvinguð til þeirra starfa með hótunum um starfsframa hennar og hefndaraðgerðir gegn föður hennar.
Árið 1985 féll fjármögnun rannsóknarstofnunarinnar sem Karikó starfaði við niður. Þá yfirgaf hún Ungverjaland, ásamt eiginmanni sínum og tveggja ára dóttur. Þau fluttu til Bandaríkjanna, þangað sem þau smygluðu 900 breskum pundum inni í tuskudýri, andvirði bíls sem þau seldu, sem þau skiptu í bresk pund á svörtum markaði. Í Bandaríkjunum hóf Karikó störf við Temple háskóla í Philadelphiu. Það var eftir að hún færði sig til Pennsylvania-háskóla sem hún kynntist Drew Weissman, prófessor í ónæmisfræðum. Það var árið 1997.
Fyrstu rannsóknarniðurstöðum þeirra um hvernig mætti nýta mRNA var hafnað af stærstu vísindatímaritum á við Nature og Science, en birtust í hinu afmarkaðra riti Immunity. Á grundvelli rannsókna sinna stofnuðu Karikó og Weissmann fyrirtæki árið 2006 og fengu einkaleyfi árið 2013, fyrir aðferðum til að draga úr ónæmisviðbragði líkamans við mRNA.
Það var í Covid-19 faraldrinum sem þessar grundvallarrannsóknir sýndu loks hagnýtt gildi sitt með hraðari þróun og framleiðslu bóluefna en annars hefði mátt gera ráð fyrir.