Nýr hugbúnaður mun miðla „ferskum launaupplýsingum“ milli fyrirtækja til að „umbylta launaumræðu á Íslandi“

Nú á föstudag, 6. október, hélt félagið Mannauður, „félag mannauðsfólks á Íslandi“, viðburð í tveimur sölum Hörpu undir yfirskriftinni „Mannauðsdagurinn 2023“. Samkvæmt vefsíðu félagsins hefur slíkur dagur verið haldinn árlega frá árinu 2011 „og er nú einn stærsti viðburður stjórnunar og mannauðsmála hér á landi.“ Til marks um það er nefnt að árið 2022 hafi um 800 gestir sótt ráðstefnuna sem 65 fyrirtæki hafi tekið þátt í.

Að ráðstefnan er ætluð stjórnendum og fulltrúum fyrirtækja en ekki almenningi eða þeim launþegum sem mannauðsstjórar fást við að ráða og reka, má ráða af miðaverðinu: almennt miðaverð í ár var 45.000 krónur, en meðlimum Mannauðs bauðst miðinn með afslætti, á 39.000 krónur.

„Fyrir fyrirtæki sem vilja grípa til aðgerða hratt og örugglega“

Viðskiptablaðið birti stutta frétt frá viðburðinum, undir fyrirsögninni „Þetta mun umbylta launaumræðu á Íslandi“. Er þar fjallað um „nýja lausn í launagreiningum sem væntanleg er á markað í byrjun næsta árs“ frá nýsköpunarfyrirtækinu Origo. Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að lausnin heiti „Rúna launavakt.“ Þar segir að hún muni færa „fyrirtækjum nýjustu launaupplýsingar á markaði, á aðgengilegan og skiljanlegan hátt.“ Rúna sé frábrugðin „öðrum sambærilegum lausnum á markaði á þann hátt að öll gögn eru byggð á órekjanlegum launagögnum frá samstarfsfyrirtækjum Rúnu, sem uppfærð eru mánaðarlega.“

Origo hefur sett upp einfalda kynningarsíðu fyrir Rúnu launavakt. Þar má lesa að Rúna veiti stjórnendum „yfirsýn yfir launagögn á einfaldan og fljótlegan máta þar sem gögn eru nákvæm og yfirgripsmikil“ og að launagögnin séu „byggð á ferskum órekjanlegum gögnum frá samstarfsfyrirtækjum Rúnu.“ Þau séu „uppfærð mánaðarlega“ og því sé „ferskleiki gagnanna sem mestur.“ Þá segir að Rúna komi „með tilbúnum skýrslum í Power BI“ – en Power BI er algengur hugbúnaður til myndrænnar framsetningar gagna – uppsetningar- og innleiðingarkostnaður kerfisins sé í lágmarki, og því sé Rúna „hentug lausn fyrir fyrirtæki sem vilja grípa til aðgerða hratt og örugglega.“

„Veita launagreiðendum aukið öryggi“

Hugmyndin virðist með öðrum orðum vera sú að rekstraraðilar og stjórnendur allra fyrirtækja sem taka þátt í þessu kerfi hafi þar með aðgang að síuppfærðum upplýsingum um launagreiðslur hver annars – ekki persónugreinanlegum, virðist vera, en tækum til ýmissar annars konar greiningar. Þannig þurfi stjórnendur fyrirtækja landsins ekki að bera saman bækur sínar í eigin persónu til að taka þó þátt í stöðugu samráði milli fyrirtækja um launakjör starfsmanna sinna.

Viðskiptablaðið hefur eftir tilkynningu frá Origo að algengt vandamál stjórnenda fyrirtækja sé að „launasamtöl séu eins og völundarhús og að gögnin séu annaðhvort ekki nægileg eða fljót að vera úrelt.“ Rúna muni „veita launagreiðendum aukið öryggi inn í launasamtöl og ráðningar ásamt fullvissu um að bjóða samkeppnishæf laun.“

„Þetta er í rauninni réttlætismál“

„Ég er á því að þetta muni umbylta launaumræðu á Íslandi,“ segir Kjartan Jóhannsson, í umfjöllun Viðskiptablaðsins. Kjartan er þar titlaður „BI ráðgjafi“ hjá Origo. Í þessu samhengi stendur BI fyrir „Business Intelligence“, fag sem snýst um fyrirtækjaráðgjöf á grundvelli gagnagreiningar, og vænta má að sé í örri þróun um þessar mundir. Kjartan segir einnig: „Fyrirtækin hafa miklu betri forsendur til að taka launaviðtal og í nýráðningum. Þetta er í rauninni réttlætismál.“

Ekki kemur fram í knappri frétt Viðskiptablaðsins hvað það er sem Kjartan hefur í huga þegar hann nefnir réttlæti í þessu samhengi. Hugsanlegt er að hann eigi við réttlæti á milli fyrirtækjanna, sem sitji við sama borð að því leyti sem þau hafi öll aðgang að sömu launaupplýsingum. Ekki er vitað til að launþegar hafi almennt aðgang að þess háttar upplýsinganeti um launakjör kollega sinna, og því ljóst að réttlæti vísar hér ekki til stöðu fyrirtækjanna gagnvart starfsfólki sínu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí