ÖBÍ réttindasamtök styðja frumvarp Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar um leiðréttingu Útlendingalaga

ÖBÍ réttindasamtök eru mótfallin því að stjórnvöld svipti umsækjendur um alþjóðlega vernd allri þjónustu, eftir synjun umsókna þeirra, eins og raunin er eftir breytingar sem gerðar voru á Útlendingalögum síðastliðið vor. Samtökin harma að ekki hafi verið tekið tillit til varnaðarorða um afleiðingar breytinganna sem gerðar voru á lögunum, í aðdraganda þeirra. Þetta kemur fram í umsögn þeirra við frumvarp Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um leiðréttingu með því að fella burt hið nýja ákvæði 33. greinar laganna. Þar segir orðrétt:

„ÖBÍ réttindasamtök styðja markmið frumvarpsins um afnám þjónustusviptingar. ÖBÍ harmar að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Þá leikur mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.“

Lög þurfa að vera skýr

Þá gera samtökin tvær athugasemdir í samhengi við frumvarpið. Sú fyrri snýr að mikilvægi þess að lög séu skýr og sameiginlegur skilningur ríki um túlkun þeirra. Það er, segja samtökin, ein af grunnstoðum lýðræðilegs samfélags. Þá segir: „Ólíkur skilningur ráðherra ríkisstjórnarinnar á afleiðingum laganna og ólík túlkun ríkisins og Sambands íslenskra sveitafélaga á lögbundinni félagsþjónustu setur framtíð þessa viðkvæma hóp fólks í óvissu.“

Fagaðilar þurfa að leggja mat á fötlun, ekki lögregla

Hin athugasemdin er að orð og gerðir verði að fara saman til að tryggja trúverðugleika laga og alþjóðlegar skuldbindingar. Í núgildandi lögum um útlendinga (80/2016) komi fram að ekki sé heimilt að þjónustusvipta fatlað fólk á flótta. „ÖBÍ gerir verulegar athugasemdir við framkvæmd og skort á verklagi við mat á fötlun fólks á flótta og telur brýnt að slíkt mat sé unnið af fagaðilum,“ segir í erindi samtakanna. Í núverandi mynd heimili 33. greinin lögreglu að fresta niðurfellingu réttinda í kjölfar mats lögreglu á aðstæðum viðkomandi. Dæmi eru um, segir í athugasemdinni, að „viðkvæmir hópar sem eiga að vera undanskildir þjónustusviptingu, þ.m.t. börn og fatlað fólk hafi verið svipt þjónustu.“

Samtökin minna íslensk stjórnvöld á að „unnið er að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem setur Íslandi ákveðnar lagalegar skuldbindingar gagnvart fötluðu fólki, þ.m.t. fötluðu fólki á flótta. Jafnframt hefur Ísland lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem skuldbindur Ísland til að tryggja mannréttindi fatlaðra barna, barna á flótta og þar með talið fatlaðra barna á flótta. ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld viðhafi gagnsæi um verklag við mat á fötlun fólks á flótta og tryggi að fatlað fólk á flótta og fötluð börn á flótta séu ekki þjónustusvipt þvert gegn ákvæðum laga 80/2016.“

Frumvarp Arndísar Önnu; Umsögn ÖBÍ.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí