Okurlán íslenskra banka lífshættuleg

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir í pistli sem hann birtir á Facebook að stjórnvöld og Alþingi verði að koma böndum á okurvexti íslenskra banka. Hann nefnir sem dæmi yfirdráttarlán, sem fyrst og fremst fátækt fólk neyðist til að taka til að framfleyta sér. Vextir á slíkum lánum eru 17 prósent. Vilhjálmur segir að þessi okurlán séu beinlínis hættuleg heilsu fólks þar sem þau valda lántakendum oft gífurlegum áhyggjum.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Vilhjálms í heild sinni.

Það er morgunljóst að róðurinn er svo sannarlega farinn að þyngjast hjá afar mörgum og ég tek undir með umboðsmanni skuldara sem segist hafa áhyggjur af stöðunni eins og embættið.

Þetta ástand er heimatilbúið og byggist meðal annars á okurvöxtum fjármálakerfisins en það er ekki bara að heimilin séu að kljást við stökkbreytingu á vaxtabyrði húsnæðislána heldur einnig vexti annarra lána sem heimilin hafa tekið.

Nægir í því samhengi að nefna að sameiginleg yfirdráttarheimild íslenskra heimila fer yfir 100 milljarða króna markið.

Yfirdráttarlán eru dýrustu lán sem einstaklingar geta tekið hjá banka. Vextir á þeim eru sem stendur 17 prósent hjá öllum stóru bönkunum þremur.

Rétt er að geta þess að samkvæmt skýrslu Vörðu rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins eru um 35% félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands með yfirdráttarlán en í þeim hópi eru fjölmargir sem eru á leigumarkaði og einstæðar mæður og feður sem nota yfirdráttarlán til að framfleyta sér og sínum.

Þetta er skelfilegt og sést hvernig það okurvaxtaumhverfi sem okkur Íslendingum er boðið upp á bitnar ætíð á þeim sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Ég spyr enn og aftur hvernig geta stjórnvöld og Alþingi horft algerlega aðgerðalaus á tekjulægstu tíund þessa samfélags líða slíkar þjáningar.

Afnám okurvaxta og verðtryggingar er lýðheilsumál enda geta viðstöðulausar fjárhagsáhyggjur haft veruleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu þeirra sem þurfa að búa við slíkar áhyggjur endalaust!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí