Tæknistarfsfólk New York Times hóf verkfallsaðgerðir á mánudag til að berjast gegn kröfum stjórnenda um að starfsfólkið mæti til vinnu á skrifstofur fyrirtækisins, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg. Eins og fjöldi stéttarfélaga í Bandaríkjunum og víðar stendur NewsGuild vörð um rétt starfsfólksins til að meta sjálft hvenær því hentar betur að vinna heiman frá sér. 1.300 starfsmenn New York Times skrifuðu undir sameiginlega yfirlýsingu í september um að þau myndu ekki snúa aftur á skrifstofuna, þar af 879 meðlimir NewsGuild.
Mæting á skrifstofur enn aðeins 50%
Ein hliðarafleiðing heimsfaraldursins sem tekist er á um í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar hefur ekki orðið jafn áberandi á Íslandi: Átökin um það hvort og hversu oft starfsfólki ber að mæta á vinnustað. Víða var gengið harðar fram en hér á landi í að krefja starfsfólk um að halda sig heima á meðan sóttvarnir stóðu sem hæst.
Fjöldi skrifstofustarfsfólks gerði sér fljótt grein fyrir kostum þess að mæta ekki á starfstöðvar fyrirtækja oftar en nauðsyn krefur. Og enn standa yfir átök milli stéttarfélaganna sem standa vörð um rétt fólks til að starfa heiman frá sér og fyrirtækjanna sem – mörg hver, ekki öll – fara fram á að fólkið snúi, að minnsta kosti að einhverju leyti, aftur á skrifstofurnar.
Samkvæmt samantekt sem CNBC fréttastofan birti nýverið var aðsókn starfsfólk á skrifstofur fyrirtækja í tíu stærstu borgum Bandaríkjanna þann 6. september síðastliðinn um helmingur af því sem hún var fyrir heimsfaraldurinn. Það er tvöföldun frá því í september 2020, þegar aðsóknin var um fjórðungur af því sem tíðkaðist fyrir faraldur. Aðsóknin stendur hins vegar hérumbil í stað á milli ára: í september 2022 var hún 48% af viðmiðinu fyrir faraldur, en slétt 50% nú í september 2023.
Return-to-office eða RTO er hugtakið sem oftast er notað um kröfu fyrirtækjanna um mætingu. Tekur einhver fyrirmæli fyrirtækjanna um mætingu alvarlega, spurði NBC Natalie Norfus, sem er titluð sérfræðingur í mannauðsmálum. „Í grófum dráttum myndi ég segja nei,“ svaraði hún og sagði stjórnendur ekki hafa leitt hugann nægilega að því sem starfsfólki hefði áunnist með því að vinna heiman frá sér – þá sérstaklega þann tíma sem fólk sparar með því að ferðast ekki til og frá vinnu.
Tími í umferð og farsóttir
Í umfjölluninni kemur fram að þessi tímasparnaður er fremst meðal þeirra ástæða sem starfsfólk gefur upp fyrir því að vilja ekki mæta á vinnustað. Þriðja algengasta ástæðan eru áhyggjur af Covid-19 og öðrum smitsjúkdómum. „Eins og í hverjum september-mánuði frá upphafi faraldursins standa Bandaríkin nú frammi fyrir enn einni Covid-19 sýkingabylgjunni, sem leiðir af sér fleiri spursmál um umönnun, veikindadaga og önnur heilsutengd viðfangsefni, sem gæti gert mætingu á skrifstofu enn minna aðlaðandi.“
Samkvæmt könnunin sem vísað er til í umfjölluninni segist yfir helmingur starfsmanna ekki sjá tilganginn með því að mæta á skrifstofuna. Og 48 prósent starfsmanna segja að tilmæli um að snúa aftur byggi á löngunum stjórnenda en ekki því sem starfsfólk þarf til að skila góðri vinnu.
Þó að skrifstofur standi enn hálftómar hefur hin aukna mæting frá því að sóttvarnir stóðu sem hæst hefur þó orðið sýnileg með ýmsum hætti: The Guardian greinir frá því að sala á svitaleyktareyði hafi aukist um 5,2 prósent á milli ára, og er eftirspurnin tengd við samsvarandi aukna aðsókn á vinnustaði.