Sú óvenjulega staða er uppi að á föstudaginn hafa tvö mismunandi mótmæli verið boðuð í miðbænum og ef marka má þann fjölda sem hefur boðað komu sína á mótmælin þá verða þau bæði nokkuð fjölmenn. Það sýnir líklega ágætlega óvinsældir ríkisstjórnarinnar.
Annars vegar hafa verið boðuð mótmæli fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu þegar ríkisstjórnarfundur fer fram, föstudaginn 20. október klukkan níu að morgni. Þar hyggst fólk krefjast þess að íslensk stjórnvöld fordæmi opinberlga án tafar stríðsglæpi og ítrekuð fjöldamorð ísraelska hersins á Gaza. Á annað þúsund manns hafa boðað komu sína á þau mótmæli.
Sívaxandi krafa er um að utanríkisstefna Íslands endurspegli vilja þjóðarinnar en það er öllum ljóst að stuðningur við Palestínu er útbreiddur meðal yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinar. Á Íslandi er staðan einfaldlega sú að einungis öfgafólk, þeir sem eru lengst til hægri eða tilheyra kristnum sértrúarsöfnuðum, styðja Ísrael.
„Meira en þúsund börn hafa verið myrt á síðustu dögum og 45 palestínskar stórfjölskyldur hafa verið þurrkaðar út. Á sama tíma hafa ísraelsk yfirvöld lokað á rafmagn, vatn, mat og sjúkragögn til Gaza,“ segir í lýsingu á þeim mótmælum.
En þetta verða ekki einu mótmælin þann daginn, líkt og fyrr segir. Seinna á föstudaginn, klukkan 17, hafa verið boðuð mótmæli á Austurvelli. Markmið þeirra er að Bjarni Benediktsson segi af sér, í raun og veru. Enn og aftur er þar einungis farið fram að vilji þjóðarinnar sé virtur, en nýlega skoðanakönnun sýndi fram á að 70 prósent þjóðarinnar vildi ekki sjá Bjarna sem ráðherra, punktur. Meira að segja nokkuð stór hópur Sjálfstæðismanna er sammála því að formaður flokksins segi endanlega af sér, eða um 20 prósent.
„Bjarna Benediktssyni á að víkja eða vera vikið umsvifalaust úr stjórnmálum og Alþingi á að setja í gang rannsóknir á störfum hans sem fjármálaráðherra og sölu hans á ríkiseignum. Þannig er stjórnmálafólk raunverulega dregið til ábyrgðar. Hvar annars staðar en á Íslandi segir ráðherra af sér ráðherraembætti með því að taka við öðru ráðherraembætti?,“ er spurt í lýsingu á þeim mótmælum.