Takk kærlega fyrir vandaða skýrslu um fátækt – en hvað svo?

„Takk kærlega fyrir þessa skýrslu en hvað svo?“ spurði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í gær, í umræðum um skýrslu Forsætisráðuneytisins um fátækt og samfélagslegan kostnað af henni.

Í stjórnarkreppunni miðri, sem nú hefur fleytt ríkisstjórninni í göngutúr um Þingvelli, fór fram umræða á Alþingi á fimmtudag um samfélagslegan kostnað fátæktar. Margir þingmenn tóku til máls í umræðunni sem byggði á skýrslu Forsætisráðuneytisins um efnið, að beiðni Halldóru Mogensen þingmanns Pírata. Ráðuneytið skilaði skýrslunni skriflega í lok síðasta þings, í byrjun júní, en forsætisráðherra gerði þinginu munnlega grein fyrir innihaldi skýrslunnar nú á fimmtudag.

Sonur einstæðrar móður vissi ekki hvað háskóli væri

Björn Leví reifaði stuttlega eigin forsögu í ræðu sinni, til marks um það hvað fátækt getur sett fólki margvíslegar skorður.

„Ég get til dæmis bara talað aðeins fyrir sjálfan mig,“ sagði hann, „þó að það sé kannski ekki viðeigandi miðað við núverandi aðstæður, en ég er sonur einstæðrar móður, verkakonu utan af landi, sem hafði alls ekki mikið á milli handanna. Langt í frá. Það gerði það að verkum að sýn mín á samfélagið var mjög takmörkuð. Ég hafði ekki hugmynd um það hvað háskólanám þýddi. Þegar ég kláraði meira að segja framhaldsskóla. Það var enginn í fjölskyldunni sem hafði klárað háskólanám. Það var bara ekki á kortinu hjá mér. Ég vissi ekki hvaða möguleika það gat gefið. Aðgengi mitt að því, þess háttar tækifærum, var bara ekki til staðar. Það var ekki fyrr en seinna sem ég fór í háskólanám, eftir að ég hafði reynt að feta mig, farið í kvöldnám, svo í fjarnám, og smám saman kláraði ég þetta. Ég kynntist þessu þegar ég kynntist konunni minni, hún kom úr fjölskyldu þar sem háskólanám var þekkt og var hluti af daglegu lífi. Þar er maður einhvern veginn að uppgötva mun stærri og fleiri möguleika til þess að hafa ofan í sig og á. Hafa fleiri tækifæri í lífinu. En það er langt frá því að það sé möguleiki fyrir alla. Þó að þetta sé til staðar og menntakerfið sé eins og það er, að þá er aðgengið að því menntakerfi bara alls ekkert sjálfsagt. Til að byrja með því fólk veit jafnvel ekki hvernig á að nálgast það eða stunda það eða nýta það. Og í hinu, efnahagslegar hindranir, til þess að geta stundað nám á því stigi yfirleitt.“

Viðmið um lágmarks framfærslu

Megininntakið í ræðu Björns Leví var hins vegar mikilvægi þess að stjórnvöld settu viðmið um lágmarksframfærslu og tryggðu hana skilyrðislaust.

„Við erum komin með þessa fínu skýrslu sem fer yfir stöðuna nokkuð vel bara. Og hvað? Hvað næst? Á ekki að uppræta fátækt? Eigum við ekki að hætta að láta fólk bíða eftir réttlætinu og allt þetta sem við könnumst við? Því það er gott og blessað að fá skýrsluna og ræða um innihald hennar en við þurfum líka að tala um það hvernig við getum upprætt fátækt. Og svarið við því er einfaldlega að það er efnahagsleg ákvörðun að uppræta fátækt. Hún virkar á þann hátt að við setjum og skilgreinum okkur þau lágmarksviðmið sem það er að hafa ofan í sig og á. Hver er lágmarks framfærslan – og gott betur. Ég rifja oft upp Íslandspóstsmálið þegar var verið að breyta Íslandspósti um árið, þá var sett á alþjónustukvöð, sem þýðir það að þar sem eru ekki markaðsforsendur til að halda úti póstþjónustu getur ríkið sagt: Íslandspóstur, þið munið sjá um þetta. Og þið fáið borgað fyrir það með hæfilegu álagi ofan á. Þannig að það sé passað upp á það að þjónustan hafi hæfilegan hagnað. Við eigum að sjálfsögðu að beita nákvæmlega sömu viðmiðum fyrir lágmarksframfærslu. Að fólk sé ekki bara alveg á strípaðri lágmarksframfærslu heldur með hæfilegan hagnað þar ofan á. Af því að það er í rauninni frelsi fólks. Um það snýst frelsi fólks, þegar það getur uppfyllt sínar lágmarks þarfir, að geta valið síðan eitthvað til þess að gera umfram það.“

Bútasaumskerfi bóta dugir ekki

Björn Leví sagði hið samsetta bótakerfi landsins ekki duga til: „Núverandi kerfi, sem við erum hérna með, velferðarkerfi, er ekki að ná þessum markmiðum, af nokkrum ástæðum. Aðallega vegna þess að núverandi kerfi, barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur og allar þessar bætur fram og til baka, eru með skerðingarhlutfall. Ef að fólk hreyfir sig, bara bókstaflega hreyfir sig, þá skerðast bæturnar þvers og kruss. Og fólk sem hreyfir sig endar jafnvel með minni pening á milli handanna heldur en það hefði ef það hefði bara setið heima og gert ekki neitt. Og það er gjörsamlega óþolandi. Það er ekki hvati til virkni, til þess að fólk nýti og reyni á hæfileika sína, í hvað sem er.“

Á þeim forsendum vék Björn Leví að hugmyndum Pírata um lágmarksframfærslu eða borgaralaun: „Það er þaðan sem við Píratar komum inn í þessa umræðu. Við tölum um lágmarksframfærslu, borgaralaun, grunnframfærslu. Sem þýðir í rauninni að við byggjum upp þessar hugmyndir um hvar lágmarkið er á skerðingarlausum forsendum. Og það er efnahagsákvörðun að haga lagarammanum eða haga kerfinu þannig. Því að margir átta sig ekki á því að já, það myndi kosta fullt af peningum í bókhaldinu. Það er alveg rétt. En það stillir líka hagkerfið. Því að þegar við erum búin að skilgreina hvar lágmarkið er, afgangurinn af hagkerfinu, hann gengur síðan bara fyrir sig. Það er allavega tryggt það að það sé enginn undir lágmarki, það sé enginn í þeirri fátækt sem við skilgreinum sem lágmarks-framfærsluviðmið. Fólk getur síðan klúðrað alls konar með því að koma sér upp skuldum og svo framvegis en við samt tryggjum lágmarksframfærsluna. Það sem er eftir, svona í hagkerfinu, það er bara það sem fólk leikur sér með hingað og þangað. Eins og gengur og gerist. Í rauninni endurstillist hagkerfið miðað við það.“

Fátæktargildrur í bótakerfinu

Björn Leví sagði óbreytt bótakerfi fela í sér fátæktargildrur:

„Því við skulum ekki blekkja okkur hvað þetta varðar – að ástæðan fyrir því að það eru sumir sem eru fátækir – ansi margir, miðað við þessa skýrslu – það er af því að það eru aðrir sem taka sér meira en þörf er á. Það er bara ákvörðun að haga því þannig. Þetta verðmætamat og markaðurinn sem lagar hitt og þetta, eins og er getur hann seilst inn í vasa þeirra sem hafa lítið sem ekkert á milli handanna. Og þá minna heldur en þörf er á. Þannig að allavega okkar sýn, í Pírötum, er að það þurfi einmitt að útrýma öllum þessum fátæktargildrum.

Það virka alveg þessi úrræði eins og barnabætur og vaxtabætur og svo framvegis, sérstaklega í ákveðnum kringumstæðum. Núna er til dæmis mjög viðeigandi að koma til móts við fólkið vegna verðbólgunnar og þess háttar. Vegna stýrivaxtahækkana og svo framvegis. Með einmitt verðbótum. Það er mjög eðlilegt. En það er ekki eitthvað sem ætti að vera viðvarandi. Og alls ekki eitthvað sem í raun er háð einhverjum skerðingum ef fólk hreyfir sig. Því það býr til fátæktargildru.

Og það er í raun kjarni þess sem er verið að fjalla um hérna, að fátæktargildran sem slík, hún eldist með fólki, með börnum, upp allan stigann. Þó að hinn efnahagslegi hreyfanleiki sé tiltölulega mikill hér á Íslandi, þá er samt fylgni þarna á milli, það eru tengsl milli þess að vera fátækur í æsku og ýmiss konar vandamál sem fylgja því í kjölfarið.“

Mun ekki gerast í þessari ríkisstjórn

Að lokum sagði Björn Leví að sér væri ljóst að veigamiklar breytingar á kerfinu yrðu ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar:

„Þannig að ég kem að þessu og spyr: hvað erum við að gera núna? Nú erum við búin að ræða efni skýrslu um fátækt, hér á þingi. Við erum að vinna í því. En nú myndi ég vilja sjá tillögur. Og tillaga okkar Pírata er að við hugum að lágmarksframfærsluviðmiðum, við erum með þingsályktun um það, að skilgreina lágmarksframfærsluviðmið, með húsnæði einmitt, og að það sé grundvöllurinn sem við getum byggt á. Við þurfum að hafa góðan grunn í samfélaginu til þess að byggja á. Öryggi er alveg grundvallarforsenda þess að við getum flokkast sem velferðarsamfélag eða velsældarsamfélag eins og hæstvirtur forsætisráðherra talaði um hér áðan.

Ég sé það ekki gerast í þessari ríkisstjórn. Ekki í neinni fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Það koma af og til smá leiðréttingar í barnabótakerfið eða húsnæðisbæturnar eða svoleiðis, smá leiðréttingar upp sem hafa rétt dugað fyrir verðbótum og þróun þar á bakvið. En ég held að þetta verði því miður að bíða næstu ríkisstjórnar.“

Umræðan öll

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí