Þrælslund Íslendinga enn sterk – Karl fær skammir fyrir að afhjúpa hvað allt er ódýrara á Spáni en Íslandi

Oft hefur verið talað um að þrælslund Íslendinga geti skýrt stóran hluta af sögu landsins en frá því að land var numið hefur furðu stór hluti landsmanna ávallt tekið sér stöðu með kúgurum sínum. Ef marka má umræðuna innan Facebook-hópsins Íslendingar á Spáni þá hefur þetta lítið breyst. Undanfarna daga hefur Karl Kristján Hafst Guðmundsson, stundum kallaður Kalli á Spáni, birt þar verðsamanburð á því að búa hér og þar.

Það kemur líklega fáum á óvart að Ísland kemur hræðilega illa út úr þeim samanburði, en sumir gætu verið hissa á því að hópur fólks nánast skammar Karl fyrir að birta þetta. Þetta sama fólk týnir svo til einhverjar ástæður fyrir því að það sé bara eðlilegt að margir hafi einungis efni á grjónagraut því leigusalinn tekur næstum öll launin.

Á laugardaginn byrjaði Karl að bera saman matarinnkaupin á Spáni og Íslandi. Hann raunar þurfti ekki að hafa mörg orð um það því hann birti einfaldlega mynd af því sem konan hans fékk tæplega 25 þúsund krónur. „Konan keypti inn til heimilisins (fyrir okkur tvö) áðan í Mercadona og kom klifjuð heim með 9 máltíðir og margt fleira eins og sést á myndunum. Verðið var 166,34 Evrur (ISK 24.220 á almennu gengi dagsins),“ skrifar Karl og birtir myndirnar sem sjá má hér fyrir neðan.

Margir skrifa athugasemd og eðlilega eru flestir hneykslaðir á þessum samanburði en þú þarft ekki hafa farið oft í matvörubúð á Íslandi til að sjá hve illa Ísland kemur út úr þessum samanburði. En sumir kvarta ekki yfir því, heldur að Karl sé að nefna þetta. „Ekki að marka Spánverjar með laun upp á kr. 100 til 150.000 á mánuði og finna fyrir matarverði á sama hátt og við,“ skrifar til að mynda einn en Karl svarar honum fullum hálsi: „Auðvitað er að marka þetta! Ef spánverjinn keypti það sama inn og konan mín þá þyrfti hann að greiða það sama fyrir í Mercadona.“

Svo er annar sem segir: „Eru Íslendingar ekki hátekjufólk á Spáni ? T.d miðað við eftirlaunaþega þar“ Aftur svarar Karl fullum hálsi og segir þetta einfaldlega rangt. Hann segir að meðallaun séu um 21.000 evrur á ári, ríflega 3 milljónir á ári, sem er svipað og Íslenskir lífeyrisþegar með full réttindi geta átt von á. „Að kalla alla sem hafa meira en meðallaun á Spáni hátekjufólk er miklu frekar tilfinningalegs eðlis en raunhæft,“ skrifar Karl að lokum.

Í gær bar Karl svo saman verð á langtímaleigu í löndunum tveimur. Aftur er farið illa með þá sem asnast til að búa á Íslandi. Þó má sjá fleiri ef eitthvað er verja okurleigusala á Íslandi heldur en okurmatvörubúðirnar. Samanburður Karls er nokkuð lengri en leiguverð er nokkuð lengri en daginn áður og má því lesa hann í heild sinni hér neðst. Niðurstaðan var þó að það geti munað allt að 200 þúsund krónum á mánuði á sambærilegum tveggja manna íbúðum.
Aftur mætti fólk í athugasemdir og varði þá sem hafa allt fé af þeim. Sumir endurtóku bábyljuna um að laun væru mikið lægri þar en hér á landi. Aðrir létu eins og besserwisserar og töldu sig snjalla að benda á að það mætti finna ódýrari íbúðir til leigu, ef þú ert tilbúinn að búa þar sem fáir eru fyrir og enn minna um atvinnu.

Hér fyrir neðan má lesa verðsamanburð Karls.

Leiguverð á Spáni og Íslandi – LANGTÍMALEIGA

Mér datt í hug að bera saman leiguverð á litlum íbúðum á Spáni og Íslandi.

Á Spáni eru 2ja svefnherbergja íbúðir algengastar í útleigu. Þær eru flestar litlar og leigðar út með húsgögnum. Leiguverð yfirleitt um 600 Evrur á mánuði (kr. 87.366). Við þetta bætist kostnaður vegna rafmagns, vatns og oft internets.

Á Íslandi þótti mér réttast að styðjast við eins svefnherbergja íbúðir enda næst þeim í fermetrafjölda. Þær eru flestar leigðar út án húsgagna. Leiguverð allt að kr. 300.000/mánuði (2.060 Evrur á almennu dagsgengi). Við þetta bætist oftast kostnaður vegna rafmagns, heitavatns og internets.

Mismunurinn, um það bil 1.400 Evrur (kr. 203.854) er talsverður og hægt að nýta hann í að gera vel við sig.

Það skal tekið fram að réttast er að gera eigin rannsókn á þessum mun því það er svo misjafnt hverju fólk sækist eftir og fjárhagurinn er einnig misjafn.

Góðar stundir.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí