Utanríkisráðherra segir mikilvægt að flóttafólk frá Palestínu geti „leitað skjóls annað“

Í fyrirspurnatíma þingsins nú fyrir hádegi á fimmtudag sátu tveir ráðherrar fyrir svörum, Bjarni Benediktsson, nýskipaður utanríkisráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýskipuð fjármálaráðherra. Þingmenn beindu fjórum fyrirspurnum til Þórdísar og urðu nokkrar umræður af þeim öllum: almennt um stöðuna í efnahagsmálum, um efnahagsástand og áherslur ráðherrans, um fyrirhugaða bankasölu og um aðgerðir gegn verðbólgu og nýtingu á skattfé. Í svörum ráðherrans var ekkert nýtt eða óvænt heldur kunnugleg stef í samræmi við flokkslínu Sjálfstæðisflokksins – bankar skulu seldir af því að bankar skulu seldir og verðbólga verður aðeins kveðin í kútinn með því að halda aftur af launakröfum almennings. Þannig varð úr fyrirspurnunum eins konar vígsluathöfn þar sem nýliðinn gerir ljóst að hann hefur numið utanbókarlærdóminn.

Bjarni Benediktsson fékk hins vegar enga viðlíka fermingu. Aðeins einn þingmaður beindi fyrirspurn til hans, um utanríkis- og alþjóðamál, fyrrverandi mótleikari Bjarna í ríkisstjórninni sem ríkti á landinu frá 2013–2016, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Sigmundur spurði hinn forna félaga sinn um hreyfingar Íslands í tengslum við þau stríðsátök sem nú eru efst á baugi, annars vegar innrásarstríð Rússa í Úkraínu, hins vegar stríð Ísraels við Hamas-samtökin. Kom að gagni að loka sendiráði Íslands í Moskvu, spurði Sigmundur, annars vegar, og hins vegar hvort Ísland muni reyna að tryggja að fjárstuðningur við Palestínu renni ekki í hendur Hamas-samtakanna. Að lokum spurði Sigmundur ráðherrann hvort hann hyggist beita sér fyrir því að nágrannalönd Ísraels, til að mynda Egyptaland, taki við flóttamönnum frá Gasa.

Bjarni svaraði fyrstu spurningunni svo að lokun sendiráðsins hafi ef til vill ekki komið sérstaklega að gagni en hún hafi átt sér skýrar forsendur. Um þróunaraðstoð til Palestínu sagði hann rétt að það „skipti máli að slíkur stuðningur skili sér rétta leið“.

Þegar Sigmundur Davíð ítrekaði spurninguna um móttöku flóttafólks í nágrannalöndum Ísraels svaraði Bjarni engu efnislega heldur hafði aðeins orð á því að ástandið á svæðinu sé „hrein hörmung“. „Við horfum upp á fréttir af meiri háttar flótta,“ sagði hann, „sem sagt hundruð þúsunda á flótta.“ Þá væri ástandið í suðurhlutanum orðið „svakalegt.“ Það mat ítrekaði ráðherrann: „Þetta er auðvitað svakalegt ástand.“ Bjarni tók undir með Sigmundi um að „finna þurfi leiðir til að flóttamenn geti leitað skjóls annað“ og sagði að um það snúist samskipti sem eigi sér stað um þessar mundir, „að það sé látið reyna á vilja annarra til að létta undir vegna þess hörmulega ástands sem þarna er.“

Engir aðrir þingmenn tóku þátt í þessari umræðu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí