Nýr fjármálaráðherra segir það einu lausn sína á verðbólgunni að standa gegn launahækkunum

Mun nýr fjármálaráðherra breyta áherslum í hagstjórn, líta á það sem hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni og leggja til breyttar áherslur í því augnamiði? Þessa spurði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur í umræðum um stöðu efnahagsmála á þingi nú að morgni fimmtudags. Nei, virðist hafa verið inntakið í svari Þórdísar, sem snerist um mikilvægi þess að halda launakröfum niðri og efla þannig „trú“ almennings á að stjórnvöld hafi tök á verðbólgunni.

Munum við sjá breyttar áherslur?

Kristrún hóf umræðurnar á því að óska Þórdísi góðs gengis, enda erfi hún „erfitt bú“ og verkefnin ærin. „En ég vil líka óska þess,“ sagði Kristrún, „og ég hugsa að ég tali fyrir marga landsmenn, að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi kjark og styrk til að taka upp raunverulega breyttar áherslur, ekki síst í baráttunni við verðbólgu og vexti.“ Kristrún sagðist kalla eftir „forystu og hæfni í stjórn efnahagsmála, skýrum skilaboðum til landsmanna um að nú verði skipt um kúrs.“

Fjármálaráðherra, sagði Kristrún, „er nefnilega nýtekin við valdamestu stöðu í íslensku efnahagslífi. Hún gæti haft áhrif strax í dag á verðbólguvæntingar með afdráttarlausri yfirlýsingu um að nú verði verðbólgan tekin alvarlega með viðurkenningu á því að viðureignin við verðbólguna hefur ekki gengið nógu vel og að það gangi ekki að bjóða bara upp á meira af því sama.“

Kristrún sagði að fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefði haldið því fram að „það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni.“ Með þess háttar yfirlýsingum hafi ráðherrann dregið úr eigin trúverðugleika og ýtt undir meiri verðbólgu en ella. „Það væri til dæmis,“ sagði hún, „ágætisbyrjun hjá hæstvirtum fjármálaráðherra að draga þessi orð forvera síns til baka og lýsa því yfir fullum fetum að það sé víst hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgu og endurheimta hér efnahagslegan stöðugleika.“

Að því sögðu bar hún fram tvær spurningar til fjármálaráðherra: „Í fyrsta lagi: Er hún sammála forvera sínum um að það sé ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni? Í öðru lagi: Munum við sjá breyttar áherslur með nýjum fjármálaráðherra í baráttunni við verðbólgu og háa vexti eða munum við bara áfram sjá meira af því sama?“

Var innistæða fyrir launahækkunum síðustu ára? Nei, segir Þórdís

Þórdís byrjaði á að þakka Kristrúnu fyrir heillaóskirnar og sagðist kunna að meta þær móttökur sem hún hefði fengið. Hún myndi leggja áherslu á að vinna með öllu þinginu að lausn á þeim stóru áskorunum sem væru framundan, enda leysi þær enginn einn. Hún sagði að það væri yfirlýst markmið stjórnarsamstarfsins á síðari hluta kjörtímabilsins að ná tökum á verðbólgunni. „Hluti vandans,“ sagði hún, „er að fólk þarf auðvitað að trúa því að við munum ná tökum á verðbólgunni. Ef fólk trúir því ekki í nægilegum máli, þá hefur það einfaldlega áhrif á verðbólguna eins og hún er.“

Að því sögðu sneri hún máli sínu að kjaramálum. „Sömuleiðis vitum við að kjaraviðræður verða risastórt verkefni sem mun hafa meiriháttar áhrif á það hvernig verðbólgan þróast og það hvort fólk trúir því að við sem samfélag séum tilbúin að gera það sem þarf til að ná tökum á henni. Ef okkur tekst, saman, að tala þannig að það séu réttmætar væntingar, að verðbólga muni lækka á næstu misserum, þá trúi ég því að fólk muni vera tilbúið til þess að semja með þeim hætti. Ég skil að ef að fólk er í mikilli óvissu og trúir því ekki að hún muni lækka, að þá verði erfiðara að sannfæra sína félagsmenn um að launahækkanir verði ekki því meiri í krónutölum, heldur trúi þau því að við náum fram sparnaði fyrir fjölskyldur í þessu landi með lækkandi vaxtakostnaði en ekki með því að hækka krónutölur sem síðan brenna og áfram verður verðbólga og við náum ekki tökum á því.“

Rétt er að nefna að það var óljóst í framburði ráðherrans hvaða fornafn fylgdi á eftir „heldur trúi“, það er hver hún meina að trúi því að „við náum fram sparnaði fyrir fjölskyldur í þessu landi með lækkandi vaxtakostnaði“ – hún virtist segja „þau“ eða „þið“ en setningin gefur þó til kynna að hún hafi átt við „ég“.

„Þetta er verkefnið. Ég get sagt fyrir mitt leyti, ég skil mína ábyrgð í því. Ég mun leita til allra sem vilja vinna með mér og okkur í því, vegna þess að ég trúi raunverulega að þetta sé hægt.“

Síðar í umræðunum ítrekaði Þórdís afdráttarlaust afstöðu sína og hvað í henni fælist: „Þá má spyrja hvort það hafi verið innistæða fyrir þeim launahækkunum sem við höfum séð undanfarin ár. Ég held að svarið sé augljóslega nei. Við sem samfélag höfum komist upp með miklar launahækkanir í töluverðan tíma en nú er sá tími liðinn.“

Aukin útgjöld grafi undan trúverðugleika

„Ég velti fyrir mér hvort nýja línan hjá ríkisstjórninni sé sem sagt sú,“ svaraði Kristrún, „að við þurfum bara að trúa því að verðbólgan fari niður og að það sé nóg að ríkisstjórnin tali nógu hátt og nógu oft um að verðbólgan muni fara niður.“ Hún minntist á þá gífurlegu kaupmáttarskerðingu sem almenningur glímir við og hversu slæm staðan er, til dæmis á leigumarkaði, meðal fólks á lágum tekjum. „Fyrir það dugar ekkert að heyra frá ríkisstjórninni að þau trúi því að verðbólgan muni fara niður,“ heldur verði aðkoma ríkisstjórnar að kjarasamningum lykilatriði. Þá ítrekaði hún fyrri spurningu: „Mun koma eitthvað nýtt út úr fjármálaráðuneytinu eftir að hún tók þar við sem mun liðka fyrir kjarasamningum? Eða snýst þetta bara um að ríkisstjórnin trúi á sjálfa sig?“

Þórdís svaraði spurningunni með þeim hefðbundna útúrsnúningi að ekki væri „sanngjarnt að tala niður með þessum hætti stöðu íslensks samfélags sem er auðvitað á allan hátt með því besta sem fyrirfinnst á byggðu bóli.“ Síðan ítrekaði hún þá kenningu um tengsl trúar, ríkisfjármála og verðbólgu að „allar hugmyndir um meiri háttar útgjaldaaukningu munu leiða það af sér að það verður ekki sá trúverðugleiki sem þarf til að ná tökum á verðbólgu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí