Vöggustofur einangruðu börn frá foreldrum bakvið gler, ollu þeim varanlegu tjóni, örorku og dauða

Umönnun barna á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og var í ýmsum tilvikum svo ábótavant á fjögurra ára tímabilinu 1963 til 1967 að hún gæti fallið undir „illa meðferð“ að skilningi laganna. Sama á við um Vöggustofuna Hlíðarenda á tímabilum. Hin illa meðferð á Hlíðarenda fólst ekki síst í einangrun barnanna frá foreldrum, sem aðeins fengu að sjá börn sín gegnum gler, án snertingar. Þannig hafi tengsl barna og foreldra verið að „miklu leyti rofin án þess að séð verði að málefnalegar ástæður hafi staðið til þess.“ Þetta er niðurstaða nefndar sem Reykjavíkurborg skipaði til rannsókna á starfsemi vöggustofa á síðasta ári.

Örorka og ótímabær dauðsföll

Aðspurð, í viðtali við Vísi, um heilsufar barna í vistun á Vöggustofunni Hlíðarenda vorið 1954, svaraði Ólöf Sigurðardóttir, forstöðukona vöggustofunnar: „Yfirleitt er það afar gott. … Einn veigamesti þáttur í heilbrigði barnanna er einangrun þeirra frá öllu utanaðkomandi fólki. Það fær aðeins að horfa á þau í gegnum gler.“

Á 24 ára tímabilinu 1949 til 1973 voru 1083 börn vistuð á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins. Flest dvöldu börnin lengur en þrjá mánuði á vöggustofunum og 317 þeirra dvöldust þar í sex mánuði eða lengur. Yfir þriðjungur þeirra sem vistuð voru lengur en einn mánuð á vöggustofu á þessu tímabili hafa síðar á ævinni fengið örorkumat eða endurhæfingarlífeyri, eða 34,3 prósent, þar af um helmingur fyrir 48 ára aldur. Samsvarandi tala fyrir jafnaldra úr hópi allra Íslendinga er 22,4 prósent, og aðeins 8,6 prósent fyrir 48 ára aldur. Með öðrum orðum var yfir 50% líklegra að manneskja sem vistuð var á vöggustofunum á umræddu tímabili fengi síðar á ævinni örorkumat eða endurhæfingarlífeyri en aðrir, og tvöfalt líklegra að það gerðist fyrir 48 ára aldur.

Þau sem vistuð voru á vöggustofunum á tímabilinu voru líka yfir tvöfalt líklegri til að deyja fyrir 48 ára aldur (7,1%) en Íslendingar almennt (3,2%). Nærri tvöfalt fleiri (14,4%) úr þeim hópi sem vistuð voru á vöggustofunum á umræddum tíma er látin en meðal jafnaldra þeirra úr hópi allra Íslendinga (8,6%).

Í þriðjungi tilfella engar skráðar ástæður fyrir vistun

Aðdragandi og aðbúnaður barnanna í vistuninni hefur verið til rannsóknar Vöggustofunefndar Reykjavíkurborgar frá síðasta ári. Nefndin skilaði skýrslu sinni í dag, fimmtudaginn 5. október.

„Í gögnum vöggustofanna og barnaverndarnefndar er oftast vísað til ótilgreindra félagslegra ástæðna,“ þegar vistunin er rökstudd, segir í niðurstöðukafla skýrslunnar. Annars hafi verið algengast að börn væru vistuð á vöggustofum „líkamlegra veikinda foreldra eða fátæktar, húsnæðisvanda eða skorts á dagvistunarúrræðum, en síðastnefndu þættirnir tengdust yfirleitt innbyrðis.“ Fyrir rúman þriðjung barnanna var engan rökstuðning að finna, engar upplýsingar um hvers vegna þau voru vistuð á vöggustofunum. Sá upplýsingaskortur er meira áberandi fyrir Vöggustofuna Hlíðarenda, þar sem engar upplýsingar eru gefnar um ástæður vistunar í tæpum helmingi tilfella. Fyrir Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins skorti upplýsingar um ástæður vistunar í um fjórðungi tilfella.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að í þeim tilfellum þar sem barnaverndarnefnd vistaði börn á vöggustofum vegna „háttsemi foreldra, veikinda eða vanrækslu“, hafi afskiptin „í langflestum tilvikum fallið innan marka þágildandi barnaverndarlaga.“ Sama eigi við um afskipti og vistun barna sem kom til vegna þess að „viðkomandi börn fengu ekki viðeigandi hjúkrun eða læknishjálp vegna veikinda.“

Í einhverjum tilvikum segir nefndin hins vegar að „vafi kunni að hafa leikið á því“ hvort barnaverndarnefnd hafi haft nægilegar lagalegar forsendur til að taka ákvörðun um vistun barns á vöggustofu. „Á það einkum við um mál þeirra barna sem vistuð voru á Hlíðarenda vegna dagvistunar-, húsnæðisvanda og fátæktar á heimili, en ekki beinlínis eða í meginatriðum vegna bágra uppeldisaðstæðna, sem rekja hafi mátt til veikinda, vanrækslu, ofbeldis eða óreglu foreldra.“ Í þágildandi lögum var lagt „fortakslaust bann við að taka börn af heimilum eingöngu vegna fátæktar eða örbirgðar foreldra“ og bar barnaverndarnefndum þvert á móti „skylda til að aðstoða foreldra og ráða bót á bágbornum fjárhag þeirra og skyldi sá kostnaður greiðast úr bæjarsjóði.“

Mæður leituðu til vöggustofa í úrræðaleysi

Nefndin segir ljóst að oft hafi barnaverndarnefnd þó verið vandi á höndum við þær aðstæður. Í mörgum tilvikum hafi vistun barns á vöggustofu borið að með þeim hætti að móðir bað sérstaklega um vistun til þess að hún gæti unnið fyrir sér og sínum eða lokið námi. Mikill skortur var á dagvistunarúrræðum og fjárhagsleg fyrirgreiðsla Reykjavíkurborgar á þeim tíma almennt „lítt til þess fallin að koma í stað þeirra tekna sem foreldri gat aflað með launaðri vinnu.“

Eftir sem áður kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur á þessu tímabili, 1949 til 1973, hafi „í mörgum tilvikum ekki verið í samræmi við þær skyldur sem hvíldu á nefndinni samkvæmt þágildandi lögum.“ Til dæmis hafi formaður eða einstakir starfsmenn „oft tekið ákvarðanir um vistun barna án þess að þær ákvarðanir hafi verið lagðar fyrir nefndina í samræmi við ákvæði laga.“ Þá hafi opinbert eftirlit með Vöggustofunni Hlíðarenda verið lítið sem ekkert frá 1949 til 1963, þegar börn voru vistað þar allan sólarhringinn. Aðeins hafi fengist staðfest að barnverndarnefnd Reykjavíkur og Barnaverndarráð hafi farið í eina heimsókn til vöggustofunnar á þessu fjórtán ára tímabili.

Sama segir nefndin að eigi við um báðar vöggustofurnar á fjögurra ára tímabilinu frá 1963 til 1967, þá hafi eftirlit með starfsemi þeirra verið „afar takmarkað.“

Börn einangruð frá foreldrum

Á Vöggustofunni Hlíðarenda segir nefndi að foreldrum barna hafi á tímabilum „í reynd almennt verið meinað að umgangast börn sín á meðan þau voru á vöggustofunni, hvort sem var að halda á þeim eða snerta með öðrum hætti. Foreldrar hafi almennt einungis mátt sjá börnin í gegnum gler og gilti sú regla óháð því af hvaða ástæðum barn var vistað á vöggustofu.“

Þessir starfshættir hafi leitt til þess að tengsl barna og foreldra voru að „miklu leyti rofin án þess að séð verði að málefnalegar ástæður hafi staðið til þess.“ Það er mat nefndarinnar að „starfshættir sem fela í sér að rjúfa með þessum hætti, oft á mjög löngum tímabilum, nær alfarið tengsl barns við foreldra, og eftir atvikum systkini sín, teljist til illrar meðferðar“ í skilningi laga sem sett voru á síðasta ári um heimild Reykjavíkurborgar til að kanna starfsemi vöggustofanna. Nefndin tilgreinir að fagfólk í málefnum barna á þessum tíma hafi þekkt vel til mikilvægis persónulegra tengsla barns við foreldra eða aðra umönnunaraðila.

Þá segir nefndin merki um að foreldrum barna á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins hafi á árunum 1963 til 1967, „a.m.k. á ákveðnum tímabilum, í reynd verið almennt meinað að umgangast börn sín á meðan þau voru á vöggustofunni, hvort sem var að halda á þeim eða snerta þau með öðrum hætti.“ Nefndin tekur þó fram að ekki sé ljóst hvort þar haf verið „um að ræða fastmótaða stefnu sem hafi verið framkvæmd án undantekninga.“

Skaðleg áhrif tengslarofs

Þá tekur nefndin fram að ekki verði séð að börnum hafi verið veitt persónuleg umönnun á vöggustofunum til að draga úr skaðlegum áhrifum þessa tengslarofs. „ Samtímaheimildir benda þvert á móti til þess að slíka umönnun hafi skort,“ eins og gagnrýnt hafi verið og bókað á fundi barnverndarnefndar Reykjavíkur þegar í janúar árið 1964.

Frásagnir starfsfólks vöggustofanna samræmast því sem fram kemur í skriflegum samtímaheimildum, segir nefndin, og nefnir til dæmis að starfsfólk hafi sagt börn vera óeðlilega lengi í rúmum sínum. Þar að auki hafi þeim verið fyrirlagt að mynda ekki persónuleg tengsl við börnin. Ennfremur hafi vöggustofan boðið upp á „mjög takmarkaða örvun á skynjun og þroska barnanna, t.d. voru leikföng af skornum skammti, veggir og umhverfi vöggustofunnar var að mestu leyti hvítt og fábreytt og börnin fóru sjaldan út. Þar að auki var allur matur maukaður fram til 1967 og börnin mötuð óháð aldri.“ Ljóst er, segir í niðurstöðum skýrslunnar „að slíkt vinnulag er mjög hamlandi fyrir þroska barna, t.d. takmarkar það sjálfstæði þeirra, minnkar tækifæri til að þroska samhæfingu hugar og handar, auk þess sem það að borða fasta fæðu örvar hreyfiþroska í munni sem er beintengt málþroska og framburðargetu barnsins.“

Þá niðurstöðu að þar hafi verið um illa meðferð að ræða, í skilningi laganna, grundvallar nefndi meðal annars á aldri barnanna og þeim afdrifaríku afleiðingum „sem skortur á tengslamyndun við foreldra, og eftir atvikum aðra umönnunaraðila, sem og skortur á örvun og skynáreitum, getur haft á heilbrigði og þroska barna.“

Um sjöunda hvert barn sem vistað var á vöggustofunum á þessu tímabili var síðar vistuð á öðrum stofnunum sem áttu að þjóna sem úrræði á sviði barnaverndar. Um sjötta hvert barn sem vistað var á Hlíðarenda fór síðar í nokkurs konar fóstur og lítið færri úr hópi þeirra sem vistuð voru á Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins.

Aðdragandi rannsóknar allt frá 1967

Í skýrslunni kemur fram að aðdragandi rannsóknarinnar hafi verið umfjöllun sem birst hafði um aðbúnað barna sem dvöldu á vöggustofunum, bæði á vettvangi borgarstjórnar og í fjölmiðlum, annars vegar. Hins vegar hafi fimm manns sem dvöldu á vöggustofunum óskað eftir því við borgarstjórn sumarið 2021 að komið yrði á fót teymi sérfræðinga til að rannsaka starfsemi vöggustofanna. Borgarráð samþykkti að fara þess á leit við forsætisráðherra að fram færi heildstæð athugun á starfsemi vöggustofanna. Forsætisráðherra varð við beiðni borgarstjórnar og lagði fram frumvarp vorið 2022, sem varð að lögum og veitti Reykjavíkurborg heimild til að skipa nefnd til rannsóknar á starfseminni.

Komið hefur fram að af þeim fimm sem óskuðu eftir rannsókninni sumarið 2021 hafa tveir nú þegar látist, fyrir aldur fram.

Sigurjón Björnsson, sálfræðingur, prófessor við Háskóla Íslands í aldarfjórðung, og þýðandi, var borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins árið 1967, auk þess sem hann var forstöðumaður Geðverndardeildar barna hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Í skýrslu Vöggustofunefndar kemur fram að það ár beindi hann fyrirspurn til Geirs Hallgrímssonar borgarstjóra um hvernig miðaði tillögum sem fram höfðu komið um starfshætti barnaverndarmála, með sérstöku tilliti til vöggustofanna. Hann sagði meðal annars: „Hvað er með barnaheimilismálin? Ber þar ekki að sama brunni? Allir vita í hverjum ólestri þau eru. Það er ekkert launungarmál að barnaheimilisskortur er tilfinnanlegur og það er heldur ekkert launungarmál að sum barnaheimilin sem rekin eru hér í borg, og eru reyndar óhæfilega dýr í rekstri, eru fyrir neðan allar hellur á marga lund og í stað þess að verða sú heilsulind sem þau í raun og veru eiga að vera, verða þau hvorki meira né minna en hrein gróðrarstía andlegrar veiklunar.“

Svo virðist vera sem borgarstjóri, Geir Hallgrímsson, hafi á þeim tíma leyst gagnrýnina upp með flokkspólitísku karpi.

Höfundar skýrslunnar sem birtist nú eru Kjartan Bjarni Björgvinsson, Urður Njarðvík og Ellý Alda Þorsteinsdóttir.

Heimildir: Skýrsla Vöggustofunefndar og tilheyrandi fréttatilkynning.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí