Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að það skjóti skökku við að í kvennaverkfallinu fyrr í dag hafi konur úr valdstéttinni verði áberandi meðan þær konur sem hafa það verst á Íslandi hafi ekki getað mætt. Sólveig segir að sumar konur sem mættu á verkfallið í dag beri einfaldlega talsverða ábyrgð á því að 63 prósent Eflingarkvenna eiga erfitt með að ná endum saman. Séu meðsekar að valda því að 53,8 prósent Eflingarkvenna búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Sem gerir það svo að verkum að helmingur Eflingarkvenna meta andlega heilsu sína slæma.
„Þetta eru staðreyndir úr efnahagslegum veruleika samfélags okkar. Veruleika sem er ekki síst viðhaldið af pólitískri valdastétt. Valdastéttin hefur ekkert lagt af mörkum til að bæta lífskjör Eflingarkvenna. Hefur ekkert gert til að hemja glæpsamlegan leigu-og húsnæðismarkað. Hefur þess í stað leyft meðlimum eignastéttarinnar að gera grundvallarmannréttindi þau að hafa aðgang að góðu húsnæði á mannsæmandi verði að ótæmandi gróða-uppsprettu. Hefur í stað þess að tryggja verkakonum og börnum þeirra öruggt húsnæði heimilað svívirðilega aðför að lífsgæðum þeirra í þeim eina, bókstaflega þeim eina tilgangi að gera þau ríku enn ríkari,“ skrifar Sólveig á Facebook.
Hún bendir svo á að það hafi líklega helst verið þær konur sem hafa það verst sem hafi ekki mætt í dag. „Sumar Eflingarkonur lögðu niður störf í dag. Fjölmargar höfðu ekki kost á því. Fjölmargar konur geta ekki fengið launað leyfi til að taka þátt í pólitískum baráttufundi. Það er ein af afleiðingum þess að við búum í stéttskiptu samfélagi markvissrar mismununar, mismununar sem að byggir á stétt, stöðu og oft á tíðum uppruna. Mismununar sem að bitnar á verka og láglaunakonum af fullum krafti,“ segir Sólveig og heldur áfram:
„Meðlimir valdastéttarinnar lögðu niður störf í dag. Ég vona að þegar þær mæta til vinnu á morgun horfist þær í augu við þá stöðu sem risastór hópur kynsystra þeirra er í, óafsakanlegri og ólíðandi stöðu, stöðu sem að þær bera ábyrgð á, og hefjist raunverulega handa við að tryggja öllum konum sem hér lifa og starfa líf frjálst undan heilsuspillandi og hamingjudrepandi fjárhagsáhyggjum.“