Aðildarfélög ASÍ sameinast í viðræðum við SA og ríkið, tilkynnir forseti í eldræðu

Í komandi kjaraviðræðum munu aðildarfélög ASÍ sameinast í einni samninganefnd sambandsins og ganga sameiginlega til viðræðna við bæði Samtök atvinnulífsins og fulltrúa ríkisvaldsins. Þetta kom fram í ræðu Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ, á formannafundi sambandsins í dag, föstudag.

Í ræðu forsetans má segja að þrennt hafi staðið upp úr. Það fyrsta var áhersla hans á það að hvaða leyti Ísland er ekki eyland, í pólitískum og efnahagslegum skilningi. Hann hóf ræðu sína á að minnast á stríðin sem nú eru háð í Úkraínu og í Ísrael-Palestínu. „Við komum hér saman á mestu ógnar- og óvissutímum sem við flest hver höfum upplifað,“ sagði Finnbjörn. „Ég fjalla hér um þessa hryllilegu atburði sem við fáum fréttir af á hverjum degi til að leggja áherslu á þá miklu óvissutíma sem nú ríkja,“ sagði Finnbjörn. „Við getum verið viss um að takist ekki að hindra útbreiðslu átaka í Evrópu og Mið-Austurlöndum mun áhrifa þeirra gæta hér á landi og þau áhrif geta snert líf okkar allra og afkomu þjóðarbúsins. Þessi áhrif geta birst okkur með ýmsu móti og misalvarlegu; allt frá miklum hækkunum á innfluttum nauðsynjum, til flóttamannastraums, til beinnar ógnar við öryggi lands og þjóðar.“

Bein áhrif umheimsins á Ísland

Í því samhengi minntist Finnbjörn á aðrar alþjóðlegar sviptingar á undanliðnum árum, allt frá hruni fjármálamarkaða árið 2008 að heimsfaraldrinum sem hófst árið 2020. „Þessir atburðir hafa haft mótandi áhrif á allt umhverfi okkar þegar við horfum til komandi kjarasamninga,“ sagði hann. „Ég veit að í þessum hópi þarf ég ekki að fjölyrða um hvernig verðbólga, almenn dýrtíð og síhækkandi vextir hafa leikið umbjóðendur okkar. Þegar við bætist algjört neyðarástand í húsnæðismálum, hnignun velferðarkerfa, feysknir innviðir, ónýtir vegir birtast okkur verkefni okkar og ábyrgð.“

Þessar alþjóðlegu áskoranir voru þó ekki þær einu sem Finnbjörn tíundaði í ræðunni. Annað meginatriði ræðunnar var skeytingarleysi íslenskra stjórnvalda um hag launafólks, sem Finnbjörn sagði vera algjört. Hann sagðist ekki telja það stafa beint af ábyrgðarleysi heldur hafi þau „bara skyldum að gegna gagnvart öðrum en almenningi í landinu.“ Finnbjörn talaði um firringu stjórnmálastéttarinnar í því samhengi „og núverandi ríkisstjórn sérstaklega.“ Hann sagðist telja skýringuna á firringu þeirra vera þá „að þetta fólk deilir ekki lengur kjörum með almenningi í landinu. Við getum nefnt skattlausan starfskostnað, ofurréttindi í lífeyrismálum, frí umtalsverðan hluta ársins og nú síðast ferðahvetjandi frípunktakerfi. Ég tel þetta til marks um spillingu í íslenskum stjórnmálum; ráðin eru samantekin og almenningur borgar.“

Samfélaginu stefnt í nýtt lénsskipulag

Það má segja að þessi tvö svið, alþjóðahagkerfið og innanlandsfirringin, hafi loks mæst þegar Finnbjörn vék að útvistun starfa láglaunafólks, „ekki síst til kvenna og innflytjenda.“ Hann sagði að með slíkri útvistun telj „stjórnsýslan sig spara peninga með því að minnka laun og réttindi fólks sem þegar á vart til hnífs og skeiðar.“ Þar sé á ferð „stjórnmálafólk sem gumar sig af því við hvert tækifæri hversu frábærlega vel Íslendingar standi sig í jafnréttismálum og hversu æðisleg fjölmenningin sé í landinu. Firringin er algjör. Hræsnin er svo augljós að svona málflutningur verður aðeins skýrður með algjöru sambandsleysi við samfélagið og fullkominni blindu á eigin stöðu og gerðir.“

Í framhaldi af því sagði Finnbjörn samfélaginu nú stefnt hraðbyri í átt að gömlu valdafyrirkomulagi, lénsskipulaginu:

„Til landsins er flutt vinnuafl í stórum stíl til að svara þörfum atvinnulífsins. Oftar en ekki er þetta innflutta láglaunafólk með öllu háð atvinnurekanda sínum um afkomu og húsaskjól. Við þekkjum hrikaleg dæmi um þetta; misneytingu og réttleysi. Hér er á ferð meiriháttar samfélagsbreyting; það sem við sjáum hér er hvorki meira né minna en eins konar afturhvarf til lénsskipulagsins. Við sjáum það sama gerast í sjávarútveginum þar sem risafyrirtækjum hefur verið afhent auðlind sem veitir þeim efnahagslegt bolmagn til að fara sínu fram, ráða lögum og lofum til hliðar við ríkisvaldið og móta afkomu og framtíð mikils fjölda fólks. Nýja lénsskipulagið birtist okkur í samþjöppun mikilla eigna á fárra höndum og sífellt erfiðari afkomu hinna mörgu. Það birtist okkur í máttlausum stofnunum og útvistun valdsins í hendur fjármagnsaflanna.“

ASÍ gengur sameinað til viðræðna

Fleira bar á góma í ræðu forsetans, meðal annars fjármálakerfi sem ekki þjónar almenningi og heilbrigðiskerfi í molum og „illa sködduð tekjutilfærslukerfi“ sem ná ekki lengur að uppfylla tilgang sinn. „Lægst launaða verkafólkið stritar en býr við fátækt. Ástandið er orðið eins og við þekkjum í Bandaríkjunum þar sem fólk í fullri vinnu fær „matarmiða” vegna þess að launin nægja ekki til framfærslu.“

Hér mega þó heita samantekin, í stuttu máli, meginatriði vandans sem forseti ASÍ segir íslenskt launafólk standa frammi fyrir. „Þetta er það sem við er að eiga,“ sagði Finnbjörn. „Þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir. Og ég fullyrði við ykkur að pólitíkin í þessu landi mun ekki snúa þessari þróun við. Þarna liggur ábyrgð okkar og hún er allt annars eðlis en fjármagnsöflin halda á lofti í fjölmiðlum sínum og gagnvart íslenskum almenningi.“

Og það leiddi forsetann loks að þriðja meginatriði ræðunnar, því sem sætir öðru fremur tíðindum: að samstaða hefur náðst um að:

„ASÍ félögin standi saman að viðræðum við viðsemjendur okkar innan Samtaka atvinnulífsins og við fulltrúa ríkisvaldsins um sameiginleg mál. Þessi ákvörðun var svo rædd á fundi miðstjórnar á miðvikudag. Þar var ákveðið að formenn landssambanda og stærstu félaga myndi viðræðunefndina ásamt forseta og varaforsetum Alþýðusambandsins. Við eigum einhverja pappírsvinnu eftir, en ég tel að við séum það samhuga að hún sé nánast handavinna. Ég legg áherslu á, að viðræðunefndin mun eiga þétt og náið samráð við fulltrúa í miðstjórn og mun halda þeim upplýstum um gang viðræðna. Við munum síðar í dag fara yfir helstu forgangsatriði málefnanefnda og hefja þannig samráð um það sem við teljum brýnast að taka fyrir í komandi samningaviðræðum.“

Ræðan öll.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí