„Í dag fer ég á formannafund Alþýðusambands Íslands. Ég mæti sem formaður félags með beina aðild. Sem slíkur fæ ég tækifæri til að segja frá sýn Eflingar á kjarasamningana sem í vændum eru og upplýsa um stöðuna hjá félagsfólki,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar á leið sinni a formannafund ASÍ þar sem reynt verður að leggja sameiginlegar línur fyrir komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins. Og samninga við stjórnvöld um aðgerðir í húsnæðismálum, skattamálum og annað sem getur tryggt bærilegt líf fyrir erfiðisvinnufólk. Sólveig Anna hvetur til breiðs samflots í samningunum.
„Nú er ég að velta því fyrir mér hvar ég eigi að byrja,“ skrifar Sólveig Anna og veltir fyrir sér þeim litla tíma sem hún fær til að leggja fram kröfur og segja frá stöðu síns félagsfólks. „Á ég að byrja á því að segja frá stöðu félagsfólks Eflingar á húsnæðismarkaði? Á ég að nefna að húsnæðiskostnaður tekur meira en helming af öllum ráðstöfunartekjum stórs hóps? Á ég að segja frá konunum sem hafa við mig samband til að upplýsa um að með síðustu hækkun á leigu greiði þær nú 70% af ráðstöfunartekjum til leigusala, og hafi því vart ráð á að sjá fyrir börnum sínum? Á ég að segja frá því að einungis rúmur þriðjungur Eflingarfólks kemst á vorum dögum í sitt eigið húsnæði? Á ég að segja frá því að Eflingarfólk á það á hættu að lenda í eldsvoðum vegna húsnæðiskreppunnar, en á þremur árum hafa fjórar Eflingar-manneskjur látið lífið í hræðilegum eldsvoðum í óíbúðarhæfum hreysum? Önnur hafa slasast líkamlega, eða þurfa að glíma við andlegar afleiðingar þess að missa nágranna og aleiguna í eldhafinu.“
„Eða á ég að byrja á að segja frá stöðu Eflingar-kvenna?“ heldur Sólveig Anna áfram að hugsa upphátt. „Á ég að segja frá því að 63% Eflingarkvenna eiga erfitt með að ná endum saman og ríflega helmingur Eflingar-kvenna er að sligast undan húsnæðiskostnaði? Á ég að segja frá því að efnahagslegar og tilvistarlegar aðstæður verkakvenna á höfuðborgarsvæðinu eru svo ömurlegar að 50% Eflingar-kvenna meta andlega heilsu sína vonda?“
„Á ég að segja frá því að um 55% Eflingarkvenna geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr útgjöldum og þurfa þá að taka lán? Á ég að segja frá því að hátt í 30% Eflingar-kvenna hafa ekki ráð á því að gefa börnum sínum jóla eða afmælisgjafir, eða borga fyrir þau þátttöku í félagslífi?“ spyr Sólveig Anna. „Eða á ég að byrja á að ræða almennt um fjárhag og afkomu-skilyrði Eflingar-fólks, sem sökum áhugaleysis valdastéttarinnar á högum þeirra sem að halda höfuðborgarsvæðinu upp með vinnuafli sínu, hafa hríðversnað og leggur nú líf fjölskyldna verka og láglaunafólks í rúst?“
„Eða á ég að nota þær fáu mínútur sem ég fæ til að tala í að segja formönnum ASÍ-félaganna að á þessum tímapunkti verði fólk að standa saman til að berjast fyrir því sem að verkalýðshreyfingin gat á síðustu öld staðið saman um að berjast fyrir: Því að allt vinnandi fólk og öll börn vinnandi fólks ættu rétt á góðu lífi og mannsæmandi launum,“ skrifar Sólveig Anna. „Á ég að segja að á þessum tímapunkti sé staða fjölmenns og sístækkandi hóps fólks sem að tilheyrir Alþýðusambandinu svo slæm að það sé einfaldlega ekki annað hægt en að berjast saman fyrir hagsmunum þeirra. Og að allt annað sé yfirlýsing um að gildin sem að þau sem að á undan okkur fóru studdust við í baráttunni fyrir réttlátu og góðu samfélagi sé einfaldlega ekki lengur í gildi?“